Skírnir - 01.09.2000, Page 165
SKÍRNIR
ORÐ, ORÐ, ORÐ ...
401
íslandi? Hverjir gætu haft hag af því að fela söguna um uppruna
Islendinga og breyta henni í „náttúru"? Hverjir gætu beitt þeim
andlegu bellibrögðum sem Barthes lýsir?
Hætt er við að það vefjist lengi fyrir mönnum að svara slíkum
spurningum og benda á dæmi sem samræmdist kokkabókum
Barthes og gæti jafnframt varpað ljósi á orðasambönd eins og
„mýtan um íslenska þjóðtungu" eða „mýtan um tengsl þjóðar og
tungu“, enda varla við öðru að búast. Til þess þarf nefnilega að
byggja á svo traustum fræðum að úr þeim megi spinna leiðarþráð
sem slitnar ekki við fyrsta átak, og þar eru rætur vandans. Þótt
menn vitni í kenningar Barthes sem merkileg fræði og viðurkennd
er nefnilega ekki í þeim eitt einasta atriði sem hægt er að taka á
nafnverði án rækilegrar athugunar. Þannig er óvíst að kenningin
um „annars stigs táknmál" standist gagnrýni, og hægt sé að beita
henni á jafn víðtækan hátt og Barthes gerir. Einnig held ég að fáir
myndu fallast á skilgreiningu hans á „pólitískri“ orðræðu og af-
stöðu hennar til mýtu. Annað er þó í rauninni verra. I augum
þeirra sem þekkja franskt menntalíf á sjötta áratugnum, þegar
Jean-Paul Sartre var þekktasti rithöfundur og hugsuður landsins,
Aragon í hópi vinsælustu skálda og þeir menntamenn sem kölluðu
sig „marxista“ sennilega fleiri en hinir, er lýsing Barthes á ofur-
veldi „borgaralegrar" hugmyndafræði og hinni miklu blekkingu
sem henni fylgdi gersamlega út í hött. Það er eins og Barthes sé hér
genginn inn í rökheim sértrúarmannsins, eins og fleiri áttu eftir að
gera á blómaskeiði róttæklinga nokkru síðar: „enginn er réttsýnn
nema ég“, og hugleiðingar hans um harmrænt hlutskipti þess sem
fæst við að afhjúpa mýturnar, sem sé hans sjálfs, benda til hins
sama.
En gæti húsið ekki staðið þótt ein súlan bilaði eða kannske
tvær? Það er gömul regla að þó að maður taki burtu stígvélaða
köttinn verður afgangur sögunnar samt ekki að traustri heimild
um markgreifann af Carabas. Kenning Barthes er ein skýr heild,
sem stendur og fellur með einstökum atriðum. Það er því ekki
hægt að sópa undir teppi þeim hluta hennar sem er vafasamur, eða
jafnvel augljóslega fáránlegur, og halda að slíkur frádráttur dugi
einn og sér til að fá fram staðgóða fræðikenningu. Ef ekki er hægt