Skírnir - 01.09.2000, Side 167
SKÍRNIR
ORÐ, ORÐ, ORÐ ...
403
Þetta ætti að vera nóg til að sýna að kenningar Rolands Barthes,
hvort sem menn fallast á þær eða ekki, geta þegar allt kemur til alls
ekki varpað neinu ljósi á þau orðasambönd sem hér er verið að
fjalla um.
Eftir að hafa rýnt í þær þrjár skilgreiningar sem Arnar gefur á
orðinu „mýta“ verðum við sem sé að álykta að engin þeirra eigi
hér við, og ég þekki alls enga aðra fræðilega skilgreiningu sem gæti
hjálpað okkur úr vandanum. Við erum sem sé enn í sama farinu og
í byrjun, og virðist nú örvænt að hægt sé að komast lengra og
finna einhverja skynsamlega merkingu í umræddum orðasam-
böndum. Þó er kannske til ein Krýsuvíkurleið sem hægt væri að
reyna. I grein Davíðs Loga er svo að sjá að orðið „mýta“ hafi
ákveðið samheiti, því að hann talar bæði um „mýtuna um tengsl
þjóðar og tungu“ og um „ímynduð tengsl þjóðar og tungu“27 og
virðist þetta tvennt hafa sömu merkingu, eða a.m.k. mjög svipaða.
Síðara hugtakið skýrir hann reyndar ekki frekar, en það hafði
Arnar Guðmundsson þegar gert að vissu leyti, því að hann talar
um „ímyndað samfélag“ og skilgreinir „grundvallaratriði" þess á
þann hátt að það eigi sér „landamæri, skilgreiningu á því hverjir
séu innan samfélagsins og hverjir utan þess“.28 Hann bætir svo við
langri þulu um það sem menn geti miðað við þegar slík landamæri
séu dregin, og blandast þar saman allsundurlaus atriði, svo sem
„trúarbrögð" og „hernaðarleg nauðsyn“ og margt þar á milli. Þar
sem orðið „mýta“ er tökuorð úr grísku er orðasambandið
„ímyndað samfélag“ hins vegar þýðingarlán úr ensku „imagined
community“, og mun enska orðasambandið eiga einhvern hluta
velgengni sinnar því að þakka að það er titill á hinu þekkta riti
Benedicts Andersons. Þar er að finna aðra skilgreiningu á því sem
hér er lykilorðið. Samfélag er sem sé „ímyndað" þegar það er svo
stórt að þeir sem það mynda geta ekki þekkst innbyrðis eða jafn-
vel frétt hver af öðrum, en hafa þó hver um sig einhverja hugmynd
um samfélagið sem sérstaka heild.29 Þau sem eru minni eru „raun-
27 Það er undirtitill greinar hans í Skírni 1995.
28 Arnar Guðmundsson, ívitnuð grein, bls. 98.
29 Benedict Anderson, ívitnað rit, bls. 15.