Skírnir - 01.09.2000, Síða 179
SKÍRNIR
ÍSLAND OG UMHEIMURINN 1580-1630
415
lendingar hafi byrjað að sigla til íslands og reka þar verslun á síðasta ára-
tug 14. aldar.12 Björn Þorsteinsson, brautryðjandinn í rannsóknum á
ensk-íslenskum samskiptum, var sammála Þorkeli „varlega áætlað“, eins
og hann orðaði það.13 Eins og Björn sagði sannar það auðvitað ekki að
ensk skip hafi ekki siglt hingað fyrr, og nefnir hann sagnir um siglingar
Englendinga á 13. og 14. öld en telur „margt vafasamt við þær“.14 I annál
um fiskveiðar Englendinga við ísland, sem Sir Joseph Banks lét semja fyr-
ir bresk stjórnvöld árið 1813, er innflutningur skreiðar til Englands fyrst
skráður árið 1290 án þess að tekið sé fram hvaðan hún kom. Við árið 1312
segir hins vegar að borgin Hull, stofnuð af Játvarði 115 árum fyrr, hafi þá
fyrst farið að blómstra vegna fiskveiða við Island „from whence they had
the whole Trade of Stock fish into England".15 Banks virðist ekki styðj-
ast við sömu heimildir og Björn nefnir og er því alltaf von til þess að eldri
og áður óþekktar heimildir um upphaf Islandssiglinga Englendinga eigi
eftir að koma í leitirnar. Siglingarnar fóru stöðugt vaxandi og taldi Björn
líklegt að á 15. öld hefðu á annað hundrað duggur siglt árlega milli Eng-
lands og Islands þegar mest var. „Slíkar siglingar voru nýjungar í verald-
arsögunni“, fullyrti hann.16 Siglt var frá helstu hafnarborgum á austur-
strönd Englands, en einnig frá Bristol.
Englendingar komu ekki einungis til að veiða heldur einnig til að
stunda verslun og líktust skip þeirra „fljótandi krambúðum".17 Þeir urðu
aðalviðskiptaþjóð Islendinga, og var nú landið á nýju hagsvæði, Atlants-
hafssvæðinu, en þar drottnuðu Englendingar í krafti sjóveldis.18 Eins og
gefur að skilja vöktu Islandssiglingar Englendinga lítinn fögnuð hjá
Danakonungi, og voru erindrekar hans á sífelldum þönum yfir Norður-
sjó til að kæra veru Englendinga við Islandsstrendur og freista þess að
semja við Englandskonung. Oft tókust samningar en entust lítt. Danir
höfðu ekki bolmagn til að reka Englendinga af miðunum. Játvarður IV
(ríkti 1461-1483) gekk meira að segja svo langt að tala um Island sem
terra nostra (okkar land).19
12 Þorkell Jóhannesson 1928:72. Jón Jóhannesson taldi þá hins vegar vera þýska
(1958:11, 158).
13 Hann gaf út doktorsritgerð sína Enska öldin í sögu Islendinga árið 1970, en
fyrsta grein hans á þessu sviði birtist í Skírni árið 1950. Sjá ennfremur Björn
Þorsteinsson og Guðrúnu Ásu Grímsdóttur 1990:13.
14 Björn Þorsteinsson 1970:24, 31 neðanmáls.
15 „Some notes relative to the ancient State of Iceland, drawn up with a view to
explain its importance as a Fishing Station at the present time, with compara-
tive Statements relative to Newfoundland". [1813.]
16 Björn Þorsteinsson 1976:16.
17 Björn Þorsteinsson 1976:16.
18 Björn Þorsteinsson 1969:33.
19 Björn Þorsteinsson 1970:178 neðanmáls.