Skírnir - 01.09.2000, Page 197
SKÍRNIR
ARFUR OG UMBYLTING
433
hans sem taldar eru upp í heimildaskrá á bls. 384. í raun er ekki um mikl-
ar breytingar eða nýjungar að ræða, enda eru þessar ritsmíðar allar nýleg-
ar, nema kannski í köflunum „Rómantískur formskilningur" (bls. 73-78)
og „Að bera kennsl á bókmenntagrein: Um Hulduljóð“ (bls. 101-110).
Eins og titill MA-ritgerðarinnar ber með sér lýtur sú rannsókn einkum að
formlegum þáttum í ljóðagerð Jónasar og í Viðauka (bls. 315-64) greinir
höfundur nær alla bragarhætti Jónasar. Það er vitaskuld mikill fengur að
því að hafa fyrir sér á prenti alla bragarhætti Jónasar Hallgrímssonar.
Hins vegar er ritið Arfur og umbylting ekki bragfræðileg rannsókn, nema
að litlu leyti. Því hefði verið eðlilegra að svo nákvæm skilgreining á brag-
arháttum Jónasar hefði birst í sérstöku riti. Margir þessara bragarhátta
koma meginefni bókarinnar ekki við, eins og þegar hann yrkir tækifæris-
kvæði, til að mynda undir hætti Kalevala. Það snertir hvorki arf né um-
byltingu.
Nú má ekki skilja orð mín svo að ég sé að gagnrýna Svein Yngva fyrir
að taka á formlegum þáttum í ljóðagerð Jónasar. Hann gerir skýra grein
fyrir því hvernig hann hagnýtir sér eldri hætti og lagar þá í hendi sér, ef
svo má segja, til að henta nýju efni. Á bls. 64 bendir höfundur á að Jónas
„virðist ósnortinn af kenningasmíð og flókinni orðaröð margra hirð-
kvæða miðalda“ og telur ekki ólíklegt „að rímnakveðskapur samtímans
hafi fyllt Jónas andúð á slíkri málnotkun", en þeim mun meiri sé skyld-
leiki skáldamáls hans „við eddukvæði og þann einfaldleik sem löngum
hefur verið talinn aðal þeirra". Bent er á að Jónas taki „ýmislegt upp úr
skáldamáli eddukvæða" en þar skortir dæmi, sem ég hlýt að sakna. Jónas
Hallgrímsson sýnir frumleika og næma tilfinningu fyrir tengslum efnis
og forms, líkt og til dæmis þegar hann breytir bragformi innan sama
kvæðis eins og oft ber við meðal annars í sumum þekktustu kvæðum
hans, t.d. í ljóðunum Alþing hið nýja og Gunnarshólmi. Jónas er þó að
sjálfsögðu ekki frumkvöðull í því að beita fornum bragarháttum. Það
hafði hann fyrir sér í kvæðum og þýðingum Jóns Þorlákssonar og þó
kannski enn fremur í ljóðagerð Bjarna Thorarensen. Ég hygg reyndar að
Bjarni hafi haft geysimikil áhrif á Jónas, jafnvel meiri en oft er látið í
veðri vaka, og tekur það bæði til formgerðar og efnis. Hins vegar má það
rétt vera að Jónas hafi gengið lengra í að endurnýja hættina. Það kann
líka einfaldlega að stafa af því að Jónas nær lengra en önnur skáld 19. ald-
ar í því að yrkja á ljósu, tæru og oft ótrúlega einföldu máli með mjög
djúpri hugsun. Og það er sá eiginleiki, að mínu viti, sem gerir ljóð hans
mörg hver býsna nútímaleg. I þessu má líka ef til vill greina áhrif frá
Heinrich Heine.
Hins vegar fæ ég ekki varist þeirri hugsun að Sveinn Yngvi leggi full-
mikla áherslu á formið á ljóðum Jónasar í þessu riti, og má það vera fyrir
áhrif frá MA-ritgerðinni. Ég sakna stundum meiri greiningar á efninu. Sá
þáttur hefur vitaskuld haft miklu meiri áhrif á lesendur en formgerðin.