Skírnir - 01.09.2000, Side 200
436
NJÖRÐUR P. NJARÐVÍK
SKÍRNIR
um ísland og íslendinga eins og Fjölnismenn, heldur um Norðurlönd öll
sem menningarlega heild. Grímur líkist Fjölnismönnum að því leyti að
hann telur „að fornnorrænar bókmenntir geti gengið í endurnýjun lífdaga
í skáldskap nútímans" (bls. 125), en „Grímur hugsar hið þjóðlega í stærra
samhengi en Fjölnismenn; það nær ekki aðeins til Islendinga heldur
Norðurlandabúa allra“ (bls. 126). Sveinn Yngvi lítur því á Grím Thom-
sen sem norrænt skáld, fyrst og fremst, og rekur á sannfærandi hátt (bls.
129-31) hvernig yrkisefni hans eru oftar sótt í konungasögur og fornald-
arsögur Norðurlanda en Islendingasögur. Síðan segir (bls. 129): „Velji
Grímur efni úr íslendingasögum til að leggja út af í ljóðum sínum þá eru
það yfirleitt atburðir og sögur sem gerast erlendis, á Norðurlöndum." I
beinu framhaldi greinir Sveinn Yngvi tvö kvæði Gríms um Hákon Hlaða-
jarl, kvæðin Jarlsníð, sem hann byggir á Þorleifs þætti jarlaskálds, og Há-
kon jarl, sem styðst við frásögn Jómsvíkingasögu, en augljós eru einnig
áhrif frá túlkun Snorra í Heimskringlu. Sýnt er hvernig Grímur vinnur á
sjálfstæðan hátt úr þessu efni og leggur fram persónulega túlkun. Ekki
einasta að hann hafi samúð með Hákoni, sem fær ekki beinlínis fögur um-
mæli í hinum fornu ritum, heldur birtist hann í síðara kvæði Gríms „í
hlutverki hetju sem heldur fast við fornar dyggðir; hann er eins konar
Atlas hinnar norrænu heimsmyndar sem er að hruni komin og heldur
beinlínis uppi hinu forna en fallandi heimstré" (bls. 135). Höfundur
hnykkir á þessu í lok kaflans (bls. 136-37) er hann segir: „I Hákoni jarli
greinir Grímur einstakling í heimi sem er á hvörfum; hann hallast til þess
gamla, heldur uppi gildum fyrri tíðar, og það verður honum að falli.“ Og
hann bætir við að í Rímum af Búa Andríðssyni og Fríði Dofradóttur yrki
skáldið einnig „um heim sem er á hvörfum, en þar er forneskjan þó með
jákvæðum formerkjum og bjart yfir fulltrúum heiðninnar, enda þótt það
sé fyrirsjáanlegt að hin forna heimsmynd muni líða undir lok. Það er ekki
tilviljun að Grímur yrkir um þetta efni í hverju kvæðinu á eftir öðru.
Sjálfur var hann maður gamla tímans að því leyti að hann var oft með
hugann við norræna fornöld og gríska" (bls. 137).
Grímur Thomsen var að ýmsu leyti einkennilegur maður, og sem skáld
og fræðimaður virkar hann stundum líkt og þversögn. Hann má kalla
fyrsta lærða bókmenntafræðing okkar. Hann skrifaði verðlaunaritgerð
um franska samtímaljóðagerð, Om den nyfranske poesi (1843) og meist-
araprófsritgerð í samtímabókmenntum um Byron (1845) - og hlaut fyrir
doktorsnafnbót 1854. Hann verður því að teljast hafa haft yfirburðaþekk-
ingu á samtímabókmenntum evrópskum og nýjum straumum og stefnum
í ljóðagerð. Samt sjást furðulítil merki þess í ljóðagerð hans sjálfs - ef til
vill vegna þess að hann orti meginhluta kvæða sinna á efri árum, þegar
hann virðist hafa hneigst æ meir til íhaldssemi. Á þessu eru að vísu und-
antekningar eins og t.d. í hinni undurfögru Haustvísu, sem birtir mjög
svo nútímalegt myndmál. En máski er undarlegast af öllu að svo lærður