Skírnir - 01.09.2000, Blaðsíða 209
SKÍRNIR
AÐ SJÁ KVIKMYND
445
Öllum tilraunum til að bæta úr þessu mótsagnakennda ástandi ber því
að fagna og er Heimur kvikmyndanna sannarlega ein þeirra. Þetta er mik-
il bók vöxtum, um eitt þúsund blaðsíður í stóru broti (tvö og hálft kíló-
gramm), með 90 greinum eftir 73 höfunda og er henni skipt í fjóra hluta:
„Kvikmyndir þjóðlanda“ (20 greinar); „Kvikmyndir og samfélag" (17);
„Kvikmyndagreinar" (34); og „Island og kvikmyndir" (22). Bókin er
brotin þannig um að ytri spássía, um tveir fimmtu hlutar hverrar síðu, er
nýtt undir myndir (sjaldan færri en tvær í opnu, oft þrjár eða fjórar,
stundum fleiri) og skýringartexta. Eykur þetta gildi bókarinnar, gerir
hana læsilegri og eigulegri.
Það er ekki árennilegt verkefni að skrifa um svo viðamikla bók -
raunar ekki vandalaust að fjalla um hana sem eina bók - og álitamál
hvernig hægt er að leggja mat á hversu vel hefur til tekist, ekki síst með
það háleita markmið ritstjórans að mynda „með henni hefð í íslenskum
kvikmyndafræðum" (xii). Sú mælistika virðist þó í senn viðeigandi og
sanngjörn - og í samræmi við markmið aðstandenda bókarinnar - að
spyrja hversu vel hún sé fallin til þess að bæta læsi á kvikmyndir og hversu
vel hafi til tekist að hefja umræðu um kvikmyndir upp úr dægurþrasi og
órökstuddum smekks- og hleypidómum yfir í nákvæma, skipulega, vel
ígrundaða og rökstudda umræðu. Spurningin sem einkum verður höfð að
leiðarijósi hér er því sú hversu vel höfundar í Heimi kvikmyndanna greini
eða „lesi“ kvikmyndir. Tekst þeim að opna okkur nýja sýn til einstakra
kvikmynda, kvikmyndagreina og inn í heim kvikmyndanna?
Eitt sem hafa má til marks um að slíkt hafi tekist er að áhorfandinn
sjái nú ýmislegt sem fór framhjá honum þegar hann sá kvikmyndina í
fyrsta sinn eða hann sjái jafnvel heila grein kvikmynda, t.d. vestra eða
hasarmyndir, í nýju ljósi. Slíkur lestur getur birt óvæntar tengingar milli
myndskota eða -skeiða sem eru mikilvægar fyrir skilning á kvikmynd-
inni, hann getur beint athyglinni að því hvernig hreyfing myndavélarinn-
ar áréttar ákveðinn boðskap eða innihald. Og slík greining getur líka sýnt
hvernig kvikmynd á í samræðu við aðrar skyldar kvikmyndir eða við verk
úr öðrum listgreinum. Þannig getur góð túlkun grafið upp ný Iög merk-
ingar sem áhorfandinn hefur verið grunlaus um, en hún getur líka vísað
langt út fyrir sjálfa kvikmyndina og sýnt hvernig stuðlað er að viðhaldi
eða endurmati á ákveðnum fordómum eða kreddum í samfélaginu.
Órækasti vitnisburðurinn um að lestur á kvikmynd hafi heppnast er að
mann langi til að sjá viðkomandi kvikmynd eða sjá hana aftur. Af vel
heppnuðum erlendum dæmum um slíkan „lestur“ á kvikmynd eða kvik-
myndagrein má t.d. nefna skrif Robins Wood um Vertigo (1958), Psycho
(1960) og ýmsar aðrar myndir Hitchcocks;3 Georges M. Wilson um Lett-
3 Robin Wood, Hitchcock's Films Revisited, Columbia University Press: New
York 1989.