Skírnir - 01.09.2000, Blaðsíða 212
448
RÓBERT H. HARALDSSON
SKÍRNIR
kennslubók og spyrja hversu heildstæða mynd hún gefi af viðfangsefninu
og hversu líkleg hún sé til að vekja áhuga nemenda. Eins mætti vafalítið
leggja pólitískari mælikvarða á Heirn kvikmyndanna og spyrja hvort
varpað sé ljósi á þau efnahagslegu og pólitísku öfl sem stundum eru sögð
stýra vitundariðnaðinum. Þrátt fyrir þetta er sá mælikvarði sem hér er
notast við - um lestur og fræðilega, rökstudda umræðu - í senn traustari
en þessir mælikvarðar (þeir hvíla á honum að einhverju leyti) og almenn-
ari (hann nær til fleiri greina í þessari bók og bókum með svipaðan metn-
að).
Nær Heimur kvikmyndanna máli samkvæmt þessum mælikvarða?
Veitir bókin nýja sýn til einstakra kvikmyndaverka eða kvikmynda-
greina? Eru athugasemdir og fullyrðingar um kvikmyndir studdar ítar-
legum athugunum? Eru í bókinni mörg dæmi um heilsteyptan og ítarleg-
an lestur á tilteknum kvikmyndum? Svörin við þessum spurningum eru
neikvæð. Höfundum tekst sjaldan að greiða manni nýja leið að tiltekinni
kvikmynd, hvað þá að þeim takist að setja fram heildstæða túlkun á kvik-
mynd eða kvikmyndagrein. í mjög mörgum tilvikum er raunar langt í frá
að þetta takist. Og algengt er að mikið sé fullyrt og staðhæft án gaumgæfi-
legra athugana á kvikmyndum. Skemmst er frá því að segja að Heimur
kvikmyndanna olli mér vonbrigðum að þessu leyti. Höfundar fara yfir-
leitt alltof hratt yfir sögu, dvelja stutt (eða ekki) við einstakar kvikmynd-
ir og verja litlum tíma til að rökstyðja mikilvægar fullyrðingar, eða at-
hugasemdir, með athugunum á einstökum myndskotum, -skeiðum eða
heilum kvikmyndum. Með þessu er ég ekki einungis að segja að greina-
höfundar standist sjaldnast samanburð við ofangreinda meistara sem sýnt
hafa mikla leikni í að lesa, túlka og skrifa um kvikmyndir. Þeir gera það
ekki; ósanngjarnt væri að gera svo miklar kröfur til þeirra, ekki síst ef lit-
ið er til þess hve fjölbreyttan bakgrunn þeir hafa og ólík áhugamál. Hér á
eftir mun ég ræða um það hversu litlir tilburðir eða tilraunir eru í þessa
átt og ég mun líka, og ekki síður, leitast við að gera grein fyrir helstu
ástæðum þessa. Fyrst er þó vert að skoða dæmi þess í bókinni þegar lest-
ur eða túlkun á kvikmynd heppnast vel.
Sé ofangreindur mælikvarði notaður stendur upp úr grein Torfa H.
Tuliniusar, „Adam og Eva í Júragarðinum". Þar beitir hann aðferðum
bókmenntafræðinnar (einkum frásagnarfræðinnar) til að setja fram heild-
stæða og rökstudda túlkun á ævintýramynd Stevens Spielberg, Jurassic
Park (1993) sem byggð er á skáldsögu Michaels Crichton. Vafalítið láta
margir áhorfendur sér nægja að skoða Jurassic Park einfaldlega sem
skemmtun, eða yfirborðslega ævintýramynd. I grein sinni færir Torfi hins
vegar rök fyrir því að lesa megi myndina „sem freudíska dæmisögu um
það sem gerist þegar skrímsli fortíðarinnar eru endurvakin [...]“ (472) og
hann heldur því einnig fram að kvikmyndin túlki „einkum viðbrögð karla
við þeim breytingum sem eru að verða á stöðu þeirra", ótta „þeirra við að