Skírnir - 01.09.2000, Page 227
SKÍRNIR
AÐ SJÁ KVIKMYND
463
stök áhersla á það í myndinni að Edward kynnist vændiskonunni Vivian
af slysni þegar hann villist niður á Hollywood Boulevard (götu stjarnanna
og vændiskvennanna). Fyrir klaufaskap stöðvar hann lánsbílinn sem hann
ekur, en kann illa á, nálægt Vivian og hún tekur það eðlilega sem merki
um hugsanleg viðskipti. Hann spyr Vivian aftur á móti til vegar og endar
á því að borga henni tuttugu dollara fyrir að lóðsa sig til hótelsins. Ekk-
ert í myndinni gefur til kynna að Edward laðist að vændiskonum eða
þurfi á þjónustu þeirra að halda. Það er undirstrikað í myndinni að hann
nýtur kvenhylli og er m.a. sagður eftirsóttastur piparsveina.
I framhaldinu setur Dagný fram freudíska skýringu:
Allur líkami Vivian verður blæti, hún verður blæti Edwards, það fall-
osígildi sem staðfestir að hann er sá sem á og hefur, hann hefur yfir-
unnið geldinguna og hefur það sem aðra vantar. Þegar Vivian svífur
stórglæsileg inn í anddyrið á Hilton hótelinu í þröngum módelkjól
með stóran hatt hvíla aðdáunaraugu allra á henni. Hún er orðin veru-
lega eigulegur hlutur með fagurfræðilegt gildi í stað þess notagildis
sem hórustígvélin sögðu frá. (671, leturbreyting mín)
Fyrir utan það að vera langsótt er einnig þessi lýsing ónákvæm. Mér virð-
ist nefnilega augljóst að ýmis augu sem hvíla á Vivian þegar hún gengur
um anddyri The Regent Beverly Wilshire hótelsins séu vinaraugu þeirra
sem líta á hana sem persónu en ekki eigulegan hlut. En vændiskonur og
fallega klæddar konur eru persónur og geta auðvitað heillað karlmenn
sem slíkar. Á þetta t.d. við um hótelstjórann og lyftustrákinn. Báðum
tekst tiltölulega snemma að sjá í Vivian eitthvað annað en illa klædda og
síðan vel klædda vændiskonu. Þetta er ekki lítil ónákvæmni hjá Dagnýju
enda er hér komið eitt grundvallarstef myndarinnar. Með beinum og
óbeinum hætti varpar myndin aftur og aftur fram þessari spurningu:
Hver er fær um að sjá Vivian sem eitthvað annað en mellu (vel eða illa
klædda) og hver er ekki fær um það? Lögfræðingur Edwards og konurn-
ar í verslun á Rodeo Drive sem Vivian lítur inn í virðast ófær um að líta á
hana sem annað en dýra eða ódýra mellu. Líkt og Dagný horfa þau ekki
á annað en föt hennar og starf, svörtu stígvélin og minipilsið eða rauða
kjólinn og demantana. Öðrum tekst hins vegar að sjá innri mann Vivian.
Edward virðist takast þetta - hann reynir a.m.k. ekki að niðurlægja hana
vegna fatanna eða starfsins. í einu af síðustu atriðum myndarinnar - þeg-
ar hann hefur boðið henni íbúð, peninga og greiðslukort - segir hann
raunar sjálfur að hann hafi aldrei komið fram við hana eins og hóru. Hún
svarar þá: „Þú varst að enda við að gera það“, en hann er á bak og burt,
og þarf enn tíma til að átta sig á hlutunum, sem hann gerir að lokum.
Síðasta dæmið sem skoðað verður hér um það hvernig kenning eða
hugmyndafræði byrgir höfundi sýn til ákveðinnar kvikmyndar er flókn-
ara og margræðara en hin. Það kemur úr grein Sigríðar Þorgeirsdóttur