Skírnir - 01.09.2000, Síða 234
470
RÓBERT H. HARALDSSON
SKÍRNIR
í slíkum þáttum borga sjónvarpsstöðvar ungu fólki fyrir að búa saman
(oft á framandi slóðum) og síðan er fylgst með lífi þeirra og gerð um það
þáttaröð. Sjónvarpið býr til „raunveruleikann“ og sýnir hann svo. Hér
fær „leikið" efni næstum því sömu stöðu og íþróttakappleikir, ekki síst
bandarísk glímukeppni. Ákveðin þversögn birtist í þessum kringumstæð-
um og höfundar The Truman Show koma auga á hana. Þversögnin er sú
að eftir því sem kröfunni um raunverulegt sjónvarpsefni - sem er raun-
verulega satt og líkist lífi áhorfenda - er fylgt fastar eftir, þeim mun
óraunverulegri verða þeir sem fylgjast með sjónvarpsefninu, áhorfend-
urnir. Það er ekki svo að skilja að þeir verði veruleikasljóir eða veru-
leikafirrtir í þeim skilningi að hafa of margar myndir í höfðinu sem afbaka
raunveruleikann. Nei, þeir verða óraunverulegir í einfaldari og hversdags-
legri skilningi orðsins: Þeir eyða tímanum í að horfa á annarra manna líf
í sjónvarpinu, líf sem oft og tíðum er mjög svipað þeirra eigin lífi, ekki síst
að lengd. Og áhorfendurnir gera þetta í stað þess að lifa sínu eigin lífi. I
stað þess að vinna úr eigin ástamálum, horfa þeir á annan mann vinna úr
sínum ástamálum, og þeir gera það daginn út og inn, eins og sýnt er í The
Truman Show. Að þessu leyti eru þeir eins og sjónvarpsáhorfendur sem
fitna og komast úr líkamlegri æfingu með því að horfa á íþróttir. Við get-
um orðað vandann þannig: Eftir því sem sjónvarpsefnið verður raunveru-
legra verður líf áhorfendanna innantómara og merkingarlausara. Og það
er ekki hægt að leysa vanda þeirra með því að bæta myndirnar, laga afbak-
anirnar o.s.frv. Öðru nær. Eftir því sem myndirnar verða betri þeim mun
merkingarsnauðara og innantómara verður þeirra eigið líf. Við slíkum
áhorfendum blasir í lok myndarinnar verkefni sem er ekki ólíkt vanda
Trumans: Þeir þurfa að lifa sínu eigin lífi í veruleika sem þeir sjálfir taka
þátt í að móta. Þeir þurfa m.ö.o. að hætta að horfa á efni á borð við
Truman-þættina og gera það sem þeir eru að vona að Truman geri. Og
þetta er allt annar vandi en sá margþvældi heimspekilegi vandi um það
hvort myndir okkar af veruleikanum birti okkur veruleikann eins og
hann er eða hinn sanna heim.
Höfundar The Truman Show koma auga á þá staðreynd að einstak-
lingurinn kann að lifa fullkomlega merkingarsnauðu lífi jafnvel þótt
myndir (hugmyndir, kvikmyndir) hans fangi raunveruleikann, og jafnvel
þótt allt sé í stakasta lagi með þann búnað sem hann notar til að mynda
sér skoðanir um heiminn. Vandinn liggur einfaldlega ekki í vitsmununum
eða augunum. Hann stendur nær einstaklingnum og hjarta hans. Ótti og
leti kunna einfaldlega að valda því að einstaklingurinn lifir innantómu lífi.
Hann nennir ekki að standa upp frá sjónvarpinu, þorir ekki að lifa lífinu,
þorir ekki að gerast landkönnuður. Þetta er áréttað í The Truman Show.
Frá barnæsku hefur verið alið á hugleysi Trumans, sérstaklega ótta hans
við hafið og einnig sektarkennd vegna dauða föðurins. Grafið hefur ver-
ið undan sjálfstrausti hans og frumkvæði. Ekki er vafi á að Christof hef-