Skírnir - 01.09.2000, Síða 243
SKÍRNIR
MARGT BÝR í DJÚPUNUM
479
Dýrin í stað manna
Þegar Hulda Hákon féll fyrir sérkennilegri fánunni á Islandskorti Guð-
brands biskups, sem prýddi konfektkassann sem amma hennar hafði sent,
hafði hún þegar gert fjölda dýramynda, þar á meðal eitt fyrsta verk sitt,
en það sýnir hænur fljúga oddaflug líkt og gæsir. Sú hugmynd að lyfta
ófleygum fuglum til flugs er til marks um sérstæða notkun Huldu á dýr-
um í myndlist sinni. Hún hefur sagt svo frá að hún hafi ekki haft nægilegt
sjálfstraust til að mála fólk. Hún óttaðist að ef hún málaði konur yrði það
túlkað sem ótvíræð femínísk yfirlýsing. Eins þóttist hún viss um að fólk
mistúlkaði málverk af körlum ef hún spreytti sig á þess háttar myndefni.
Það var af þeim sökum sem hún kaus að mála Heiðu Berlín, þýskan fjár-
hund sem hún átti meðan hún bjó í New York. Fyrir Huldu var þessi
málleysingi sannkallaður bonus pater, góðborgarinn sem fylgdi settum
reglum út í æsar. Þannig áréttaði hún að dýrin í myndum hennar væru
staðgenglar okkar mannanna.7
Hið kynlega við sæhestinn úr uppdrætti Guðbrands biskups, sem
Hulda Hákon hefur mótað í leir og hleypt upp sem lágmynd með vatns-
kalki, eða svokölluðu hydrocal, er einmitt hve mennskur hann virðist
vera. Eins og áður sagði er hann kvenlegur með afbrigðum, ekki síst sök-
um þess hvernig hann ber framlappirnar líkt og hann væri spínettuleikari,
því að í stað venjulegra hófa hefur hann langar, hvassar klær með sundfit-
um. Á bókasafnssíðu Berkeley-háskóla er sæhesturinn á Guðbrandskort-
inu skilgreindur sem dreki. Það er von því að stór fluguggi sem að ýmsu
leyti líkist drekavæng fellur eins og slá eða herðaskjól frá hálsi yfir vinstri
upphandlegg.
Hitt er þó mun líklegra að sæhesturinn sé táknmynd höfrungs enda
kemur það heim og saman við staðsetningu hans á landakortinu, þar sem
hann lónar úti fyrir Reykjanesskaga. Þar eru enn mikil höfrungamið og
algengt að sjá torfur af höfrungum leika sér kringum báta með stökkum
og sporðaköstum. Höfrungum var löngum blandað saman við sæhesta
vegna þess að báðar skepnur voru helgaðar sjávarguðinum Póseidon. Þar
sem tveir gullinhærðir hestar drógu vagn guðsins eftir haffletinum mun
þeim hafa verið ruglað saman við höfrunga þá sem drógu vagn Galateu,
sjávargyðjunnar mágkonu hans, og höfrungana sem fylgdu ástargyðjunni
Afródítu þar sem hún steig úr löðri öldurótsins við eyna Kíþeru. Til forna
töldu menn höfrunginn hraðskreiðustu skepnu undirdjúpanna.8
7 Sjá tilvitnað rit um listakonuna, bls. 16.
8 Sjá kafla um hestinn og höfrunginn í J. E. Cirlot: Diccionario de símbolos. 9. útg.,
Barcelona 1992 (sbr. enska þýðingu H. Reads á sömu bók, A Dictionary of Sym-
bols, London 1962) og í H. Biedermann: Dictionary of Symbolism, New York
1992, í þýðingu J. Hulberts.