Skírnir - 01.09.2000, Síða 244
480
HALLDÓR BJÖRN RUNÓLFSSON
SKÍRNIR
í meðförum Huldu hvílir sæhesturinn á sporöskjulaga skildi máluð-
um í táknlitum hafsins. Hún fylgir fyrirmyndinni af stakri nærgætni en
gefur sér þó frjálsar hendur í litavali, enda voru kortin frá prentsmiðju
Orteliusar gefin út í margvíslegum tónum. Á einum stað tekur hún þó af
öll tvímæli um blendið kynferði skepnunnar með því að láta skína í kven-
mannsbrjóst undan gullnu faxinu. Það er ekki svo auðvelt að greina þessi
auðkenni á kortunum en það breytir því ekki að sæhesturinn á skildi
Huldu er kvenkyns. Ef til vill er hann nykur, skepna sem villti á sér heim-
ildir og gat þá verið viðsjál, svo sem Nennir, úr frásögn Arnljóts Ólafs-
sonar, sem hvarf með barnaskara á bakinu ofan í heimkynni sín, stöðu-
vatn skammt frá heimili barnanna.9
Þótt hestar og höfrungar væru í mörgum heimildum tengdir jákvæð-
um gildum þóttu þeir brigðular skepnur. Spegilmynd tveggja höfrunga á
sundi boðaði ekki aðeins framþróun heldur einnig afturför, og grár hest-
ur, eins og sæhestur Huldu, var sannkallaður feigðarboði. Sem táknmynd
tengd Mars og síðar Óðni vissi óvænt kraftbirting hrossa á styrjöld, svo
sem þegar þau vitjuðu manna í draumi. Engu að síður voru hestar sigur-
tákn píslarvotta á miðöldum og vængjaðir, svo sem hinn klassíski Pegasos,
voru þeir óbrigðulir merkisberar skáldlegs hugmyndaflugs.10
Fyrstu kirkjufeðurnir höfðu sérlega illan bifur á hestum. Þeir töldu þá
drambsama saurlífisseggi. Til að mynda báru þeir þeim á brýn að hneggja
ætíð ósiðlega í návist kvenna. Þannig var þarfasti þjónninn talinn boðberi
lægstu hvata, og sem slíkur var hann flokkaður með lagardýrum, ná-
tengdur rómversku guðunum Plútó og Neptúnusi. Honum var skipað á
bekk með höfrungum, hinum heiðnu fylgifiskum erótískra goða, sem afl-
vaka sjávarlöðurs og ölduróts. Samtímis var hann álitinn himneskt hreyfi-
afl sólarinnar og enn nýtur hann þeirra forréttinda að við hann er kennd
mælieining sú sem notuð er til að ákvarða afkastagetu véla.* 11
Frá sjónarmiði sálartáknfræði er hrossið göfugt dýr og gáfað. Þjóð-
trúin getur hæfileika hestsins til að ráðleggja knapanum heilt á ögurstund,
en jafnframt er hann fælin skepna og auðhvekkt. Þannig hafa freudísk
fræði stundum skilgreint samband hests og knapa sem togstreitu egós og
ids, eða sjálfs og frumhvata. Jung tengdi hrossið kvenlegu eðli, móðurleg-
um hvötum, og spurði sig hvort það stæði ekki fyrir töframátt mannsins,
hið móðurlega í fari okkar, einkum næmi og náttúrulegt innsæi.12
9 Sjá Þjóðsagnabókina, I. bindi. Sigurður Nordal tók saman, Reykjavík 1971, bls.
186-87.
10 Sjá kafla um hestinn og höfrunginn í tilvitnuðum ritum eftir Cirlot 1992 og
Biedermann 1992.
11 Sjá sömu rit, sömu kafla.
12 Sjá sömu rit, sömu kafla.