Skagfirðingabók - 01.01.1994, Page 171
FLÓÐ í HÉRAÐSVÖTNUM
kom nokkru fyrir mitt minni. Ekki gátu þeir fyllilega ársett
flóð þetta. Þeir kölluðu haust þetta „flóðahaustið rnikla" eða
„haustið dæmalausa", sem hvort tveggja stefnir til þess, að
slíkt flóð að hausti til hafi ekki þekkzt í þeirra minni. Fyrir
löngu hefi ég slegið því föstu, að þetta hafi verið haustið 1887,
og eru fyrir því fulltraustar heimildir.2 Þá var einstök illviðra-
tíð, bæði hríðar og stórrigningar. I þessu haustflóði var róið á
pramma frá Mikley og alveg hér yfir að túni. Þeir sem mundu
og sáu bæði flóðin, vorflóðið 1925 og þetta haustflóð 1887,
jöfnuðu þeim saman að vatnsmagni. Þetta haustflóð skemmdi
stórkostlega með leirs og sands áburði engi öll hér fremra, sem
flætt gat yfir, en er frá leið varð þar ágætur grasvöxtur í mörg
ár. Þetta haust varð truflun mikil á haustgöngum vegna illviðra
og flóða í Silfrastaðaafrétt þó veðursæl sé. Hefur slíkt ekki kom-
ið fyrir síðan, nema haustið 1907, þá tepptust göngur um einn
dag vegna dimmviðris. Get ég vel um þetta borið, því að ég
hefi verið í göngum í Silfrastaðaafrétt síðan haustið 1906, að
einu hausti undanteknu.
Haustflóð mikið var líka 1902, eða þar um bil. Ekki man ég
glögglega eftir því flóði. Mun það hafa flætt nokkuð yfir bakka
hér fremra. Það flóð kallaði fullorðna fólkið „jökulhlaup". Vissi
ég ekki hvað það nafn merkti, en gizka á, að hlýindatíð hafi
verið um tíma, máske rignt eitthvað og þá einkum til öræfa.
Það heyrði ég líka minnzt á, er hlýviðri voru lengi á sumri, að
þá mundi verða mikið „jöklanám", þ.e. jöklar eyddust óvanalega
mikið eða gengju saman.3
2 í bréfabók sýslumanns er greint frá flóði seinnipartinn í maí 1887, en einkenni-
legt er, að sýslumaður skuli ekki minnast á haustflóð í skýrslu sinni. í Akur-
eyrarblöð er skrifað um skriðuföll í Heiðardal í Gönguskörðum og stórflóð í
Héraðsvötnum um haustið, en það virðist ekki hafa setið lengi í minni manna.
Ritstj.
3 Þórarinn Jónasson bóndi og oddviti í Hróarsdal sagði í samtali 27. júlí 1984, að
daginn áður hefði verið leirflód í Vötnunum. Leirflóð koma í sumarhitum
vegna leysingar úr jökli. Flóð af völdum rigningar eða hláku verða tærari. SPÍ.