Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1991, Blaðsíða 45
MÚLAÞING
43
fer sögum af neinum beinafundi í þúfunni. Það er altítt, að ríkjandi
sögupersónur eins og Bersi á Bessastöðum, draga að sér aðrar minni
háttar, ef svo má segja, þannig að menn tengja saman í munnmælum,
jafnvel persónur sem hafa lifað á staðnum með margra alda bili.
Nunnuþúfur, Skriðuklaustri
Rögnvaldur Erlingsson frá Víðivöllum segist hafa heyrt í æsku sinni,
sagt frá tveimur þúfum framan við bæinn á Skriðuklaustri, líklega í
svonefndum Stórahring, þar sem hús bústjórans er nú. Áttu þær að
vera kenndar við nunnur tvær í klaustrinu, sem urðu uppvísar að því
að brjóta reglur klaustursins, og voru líflátnar og dysjaðar þarna.
Þúfnanna er ekki getið í örnefnaskrá Skriðuklausturs, né í öðrum
heimildum.
Eins og flestum er kunnugt, var munkaklaustur á Skriðuklaustri á
fyrri helmingi 16. aldar, og því varla líklegt að þar hafi dvalið nunnur.
Slíkt skolast þó auðveldlega til í heimi þjóðsagnanna. Geta má þess,
að sá merki fræðimaður Daniel Bruun, ræðir um jarðgöng, sem áttu að
hafa legið milli bæjar og kirkju á Klaustri, „til afnota fyrir nunnurnar“.
(3).
Svipað dæmi er frá Möðruvöllum í Hörgárdal, en þar hét kotbýli
nokkurt í túninu, Nunnuhóll, enda þótt þar væri munkaklaustur.
Leiði Jóns hraks, Skriðuklaustri
Jón hrak (eða flak) er þjóðsöguleg persóna, sem um eru skráðar
ýmsar sögur í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (I. bindi, bls. 226-27 og 3.
bindi bls. 307-08). Eru þær flestar af norðurhelmingi landsins, og er
getið um kirkjugarðana í Múla í Aðaldal og Þönglabakka í Fjörðum í
því sambandi, en sumar sögurnar eru óstaðsettar. Þær byggjast allar
kringum hina alkunnu vísu, sem til er í ýmsum gerðum, en sumir hafa
svona:
Kalt er við kórbak
kúrir þar Jón hrak.
Ýtar snúa austur og vestur
allir nema Jón hrak.
í 1. bindi Þjóðsagna Jóns Árnasonar er auk þess sagan: „Leiðið í
Skriðuklausturskirkjugarði“, rituð af Þórarni Jónssyni stúdent frá
Skriðuklaustri 1860.
Þar segir af Jóni nokkrum Einarssyni, vinnumanni á Skriðuklaustri