Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1991, Page 79
MÚLAÞING
77
Um skuldasöfnun mun ekki hafa verið að ræða. Þegar Jón Hallgríms-
son á Torfastöðum, formaður pöntunarfélagsins, fór til Ameríku vorið
1903 bað hann bróður sinn, Sigurjón Hallgrímsson í Ytri-Hlíð fyrir
félagið. Sigurjón hefur að líkindum verið varamaður hans.
Þetta sama sumar boðaði Jón Jónsson frá Sleðbrjót til almenns
fundar á Vopnafirði. Hann lagði þar fram erindi frá sr. Einari Þórðar-
syni í Hofteigi og Jóni á Sleðbrjót, þar sem þeir leggja til að pöntunar-
félaginu verði breytt í kaupfélag með opna sölubúð og félagssvæðið
verði það sama og áður.
Ólafur Davíðsson verslunarstjóri 1893-1904, bróðir Valdimars hjá
Örum og Wulff, var á þessum fundi og reri óspart undir að þessi tillaga
yrði felld. Til andsvara voru Sigurjón í Ytri-Hlíð o.fl. Fundur þessi var
allheitur, en tillagan var fellt og allt sat við sama. Ýmsar ástæður voru
fyrir því að ekki var að þessu ráði horfið, m.a. það að bændur austan
fjalls höfðu lítinn þátt tekið í starfsemi pöntunarfélagsins.
Grímur Laxdal kaupmaður, sem þá var farinn að versla fyrir eigin
reikning, leigði nú nokkurn hluta af húsi félagsins og hóf verslun þar.
Hinn 17.1. 1905 brann húsið til kaldra kola með öllu sem í því var.
Brunnu þar öll áhöld, bækur og skjöl, sem félagið átti. Sögu pöntunar-
félagsins var þar með lokið. Húsið mun hafa verið vátryggt fyrir
bankaskuldum, a.m.k. munu menn almennt ekki hafa orðið fyrir fjár-
hagstjóni þegar félagið leystist upp, að öðru leyti en því, að þeir sem
áttu hlutabréf í húsinu misstu hlutafé sitt.
III. Árin 1905-1918.
Margt bar til þess að bændur í Vopnafirði guggnuðu í baráttunni
fyrir sinni eigin verslun upp úr aldamótunum síðustu. Bæði var það, að
þeir misstu þegar verst gegndi foringja sinn Jakob Helgason, sem þeir
trúðu á og treystu, einnig voru þá verstu harðindaár, sem beygðu
menn svo, að sumir gáfust upp og fóru til Ameríku.
Margir bændur voru líka það skuldugir hjá verslun Örum og Wulff,
að þeir gátu sig ekki þaðan hreyft. Líka má geta þess, að verslun á
Vopnafirði hafði nú stórbatnað við að þeir Louis Zöllner og Jón
Vídalín settu þar upp stóra verslun um aldamótin og var Grímur
Laxdal frá Húsavík þar fyrst verslunarstjóri. Þeir keyptu hús og lóðar-
réttindi Vigfúsar Sigfússonar kaupmanns, þegar hann flutti til Akur-
eyrar 1898, og reistu þar stórt verslunar- og íbúðarhús. Seldu þeir nú
allar vörur mun ódýrari en áður hafði þekkst, gáfu prósentur af
vöruúttekt o.fl. fríðindi og færðu upp innlendar vörur.