Bændablaðið - 28.05.2015, Blaðsíða 4
4 Bændablaðið | Fimmtudagur 28. maí 2015
Landnámshænan komin
á veggspjald
Bændasamtökin hafa um árabil
gefið út litaveggspjöld af íslensku
búfé. Í fyrrahaust kom út nýtt
spjald með geitinni og nú er
landnámshænan komin á prent.
Alls eru myndirnar 26 talsins
með hönum, hænum og ungum við
ýmsar aðstæður. Á myndunum má
sjá fjölbreytta liti, aldur, kambgerðir
og fleira.
Ljósmyndir tóku þau Jón
Eiríksson, Brynhildur Inga
Einarsdóttir, Jóhanna G. Harðardóttir
og Áskell Þórisson. Textagerð var á
hendi Jóhönnu G. Harðardóttur og
Ólafs R. Dýrmundssonar. Textar eru
bæði á íslensku og ensku og henta því
vel fyrir ferðamenn jafnt sem innlent
áhugafólk um landnámshænuna.
Uppsetningu og prentun annaðist
Oddi.
Nýja hænsnaveggspjaldið er
fáanlegt hjá Bændasamtökunum og
í ýmsum verslunum. Tvær stærðir
eru í boði, A3 og stór veggspjöld í
stærðinni 61 x 87 cm. Minni gerðin
kostar 900 kr. og sú stærri 1.500 kr.
Tekið er við pöntunum í netfangið
jl@bondi.is eða í síma 563-0300.
Fréttir
Ari Edwald hefur verið ráðinn
forstjóri Mjólkursamsölunnar og
hefur störf 1. júlí næstkomandi.
Einar Sigurðsson mun láta af
störfum á sama tíma.
Í fréttatilkynningu frá MS
segir að Ari hafi áður starfað í
stjórnunarstörfum og hafi meðal
annars verið forstjóri 365 miðla frá lok
árs 2005 til ársins 2014. Þar áður hafði
hann starfað sem framkvæmdastjóri
Samtaka atvinnulífsins frá árinu 1999.
Þá var hann jafnframt aðstoðarmaður
dóms- og kirkjumálaráðherra og
aðstoðarmaður sjávarútvegsráðherra.
Ari er með stúdentspróf frá
Menntaskólanum við Sund frá 1983,
lögfræðipróf frá Háskóla Íslands
1988 og MBA í rekstrarhagfræði
frá University of San Francisco,
McLaren School of Business 1991.
Ari Edwald nýr forstjóri MS
Prentun: Oddi umhverfisvottuð prentsmiðja
Íslenska landnámshænan
Hvítur hani með topp, myndarlegan blöðrukamb og síða sepa.
White rooster with crest, thick peacomb and long wattles.
Brún hæna með ljósari bringu og háls. Stór toppur.
Brown hen with lighter chest and hackle. Large crest.
Stálpaður hanaungi. Ljósgrár með gula vængi og bakfjaðrir, grátt
stél og ljósgula fætur. Á eftir að breytast talsvert fyrir fullorðinsaldur.
Young rooster, light gray with yellow wings and saddle, darker gray tail
and yellow shanks.
Ungur svartur og rauður hani með einfaldan kamb og síða sepa.
Ljós goggur.
Young black and red rooster with long wattles and large single comb.
Light yellow beak.
Ljósmyndir: Áskell Þórisson, Brynhildur Inga Einarsdóttir,
Jóhanna G. Harðardóttir, Jón Eiríksson.
Textar: Jóhanna G. Harðardóttir,
Ólafur R. Dýrmundsson.
Útgefandi: Bændasamtök ÍslandsB Æ N D A S A M T Ö K
Í S L A N D S
www.bondi.is
Hvít unghæna með svartan kraga og stél.
Svartdröfnóttur fjaðurhamur.
Black mottled white hen. Black cape and tail.
Svarbrún hæna með rauða bringu.
Myndarlegur toppur og goggur svartur.
Brownish black hen with red chest. Black beak and crest.
Fullorðinn hani, með ljósan haus og einfaldan kamb.
Hálsfjaðrir mynda dökkan kraga.
Breið, gul bringa og læri, rauðgylltur á baki og dökkt stél.
Mature rooster. Yellow head and single comb.
Broad, yellow chest, golden red back feathers and black tail.
Svart- og hvítyrjóttur hani með þrjár hænur á priki.
Black and white speckled rooster with his three ladies.
Hópur af dagsgömlum ungum.
Margir litir og margvísleg útlitseinkenni.
Day old baby chicks, many different colours and patterns.
Dagsgamlir ungar.
One day old baby chicks in various colours.
Appelsínugul unghæna með blátt í stéli og vængjum. Ljósgrænir
fætur og einfaldur kambur. Topplaus.
Young palamino gold hen with some blue in tail and wings. Light green
shanks, single comb and no crest.
Átta ára hvít hæna með ljósa fætur og gogg og fölan kamb.
Eight years old white hen with light beak and shanks. Pale comb.
Ljósgrá (blá) unghæna með bryddaðar fjaðrir.
Goggur grár og einfaldur kambur.
Light gray (blue) young hen with laced feathers.
Gray beak and single comb.
Hópur í haga. Fremst er ljósdröfnótt hæna,
en aftan við hana er þrílít brún hæna.
Morning walk. Light, mottled hen in front, tricolour brown hen behind.
Brúnyrjótt hæna með rauðan haus og kraga á göngu með unga sína.
Speckled brown hen with reddish hackle and her baby chicks.
Hvítur hani með gylltan kraga og gyllt í vængjum og á baki.
Blöðrukambur og stakar svartar fjarðir í fjaðurham.
White rooster with golden cape. Gold feathers cover most of the body with
a few single black feathers. White tail and peacomb.
Svart- og hvítdröfnótt hæna, með svartan topp en hvítt stél.
Black and white mottled hen. Black crest and white tail.
Svört hæna með græna slikju eða „olíubrák“ á baki og rauða
bringu. Svartur goggur en ljósir fætur.
Black hen with lustrous green sheen. Black beak, light yellow shanks.
Nýklaktir ungar, annar svartur með hvíta bringu,
dökkan gogg og fætur, hinn gulur með ljósan gogg og fætur.
Baby chicks; one black with white crest and black shanks and beak.
The other yellow with light beak and shanks.
Brún hæna með rauða bringu og svartan topp.
Ljósir fætur og goggur og stór einfaldur kambur.
Brown hen with red chest and light beak and shanks. Large single comb.
Ljósgul hæna, flikrótt með gulan haus og lítinn topp.
Gráir fætur og goggur.
Yellow speckled hen, yellow head and small crest. Gray shanks and beak.
Guldröfnótt hæna með dekkra stél og vængenda.
Hár toppur, gulir fætur og goggur. Blöðrukambur.
Mottled gold hen, with some dark wing feathers and tail. Peacomb.
Rauðdröfnótt hæna í varpkassa.
Bringa rauðleit en með hvítu, svörtu og gulu í fjöðrum.
Red mottled hen in nesting box. Plumage mottled in white, black and
yellow. Red chest.
Svartur hani með gular hálsfjaðrir, rauðan topp
og sjaldgæfan, klofinn krónukamb.
Speckled black rooster, hackle and crest yellow and red.
Rare V-shaped comb.
Svart- og brúndröfnótt hæna með blöðrukamb og ljósa fætur.
Mottled black and brown hen. Peacomb and light shanks.
Gráflikrótt hæna með ljósgulan haus. Lafandi kambur, gulir fætur.
Gray speckled hen, yellow head and shanks and floppy comb.
The Iceland Breed of Chicken
Formaður Beint frá býli gagnrýnir starfshætti og óbilgirni Matvælastofnunar:
Mun að óbreyttu ganga að
heimavinnslu dauðri
Stofnunin mun ganga að
heimavinnslu á Íslandi dauðri.
Hún hefur gert okkur lífið leitt,
reyndar mun meira en það,“ segir
Guðmundur Jón Guðmundsson,
formaður samtakanna Beint frá
býli og bóndi í Holtseli í Eyjafirði.
Hann skaut föstum skotum að
Matvælastofnun, MAST, á aðalfundi
samtakanna sem haldinn var í
Skjaldarvík í Hörgársveit nýverið.
Guðmundur sagði félagið
standa á krossgötum, reksturinn
væri erfiður og þurft hefði að
leita ásjár til Landssambanda
bæði kúa- og sauðfjárbænda til
að takast á við verkefni tengdum
heimasölu og vinnslu. Framlag
frá atvinnuvegaráðuneytinu upp á
2 milljónir króna rétt dygði til að
standa straum af lögfræðikostnaði
sem orðið hefði til í samskiptum við
MAST. „Þetta framlag sem kemur
frá ríkinu hefur að mestu farið í að
draga svör út úr Matvælastofnun,
sem líka heyrir undir ríkið.“
Sóun á fjármunum
Hvorki hefði gengið né rekið að
fá nauðsynleg svör eða úrskurði í
álitamálum frá stofnuninni nema
með aðstoð lögfræðinga. „Mér finnst
það sóun á þeim litlu fjámunum
sem félagið hefur til ráðstöfunar,
að eyða þeim með þessum hætti.
Farsælla væri að þeir nýttust til að
vinna að því að efla heimavinnslu og
koma upp bændamörkuðum,“ segir
Guðmundur.
Nefndi Guðmundur að MAST
hefði tekið við eftirliti með
mjólkurvinnslu smáframleiðenda
á liðnu ári og þeim hefði í
kjölfarið verið gert að uppfylla að
grunni til sömu kröfur og stærri
vinnslur. Slík krafa væri bæði
óraunhæf og kostnaðarsöm fyrir
smáframleiðendur með einn til tvo
starfsmenn. Stofnunin færi nú einnig
offari í afskiptum af smásölu bænda
á kjöti, sem þó kæmi fullunnið
og forpakkað úr sláturhúsi eða
kjötvinnslum.
Guðmundur segir að MAST hafi
með afskiptum sínum og óbilgirni
komið í veg fyrir alla möguleika
á framleiðslu og vinnslu afurða úr
sauða- og geitamjólk hér á landi.
Þannig hafi stofnunin gert kröfu um
að skimað væri eftir fúkkalyfjum í
hverjum mjöltum. Dýralæknar
afhentu þau lyf og ætti að vera hægur
vandi að fylgjast með hvort slíkt væri
í notkun á býlum, meta áhættu og
haga viðbrögðum og eftirfylgni í
samræmi við það. Dæmi væru þess
að framleiðandi hefði þyrft að greiða
fyrir sýnatöku, þó svo að fyrir lægi
að engin fúkkalyf hefðu verið notuð
á býlinu mánuðum saman.
Verður eins og einræðisríki
Vandamálið í hnotskurn telur
Guðmundur vera að stofnun á borð
við MAST verði eins og einræðisríki
sem komist upp með að taka ekki
tillit til þess sem er að gerast í
þjóðfélaginu og hagi sér á svipaðan
hátt og aðrir sem glími við alvarlega
tilvistarkreppu. Margir séu þvingaðir
til að kaupa þjónustu af stofnuninni,
þeir þori ekki að mótmæla þeirri
meðferð sem þeir fá af ótta við
afleiðingarnar.
Sami aðili, þ.e. MAST, sér um
skoðun, ákveður hvort hlutirnir séu
í lagi, gerir kröfur um úrbætur ef
þörf er á, upplýsir í sumum tilvikum
ekki um rétt þess sem til skoðunar
er, ákveður úrbótafrest, dæmir um
árangurinn, kveður upp dóm og
refsar ef með þar. „Ég veit ekki
um annað kerfi þar sem sami aðili
er með alla þætti á sinni könnu, frá
skoðun til ákæru og lokadóms,“ segir
Guðmundur. /MÞÞ
Guðmundur Jón Guðmundsson, formaður samtakanna Beint frá býli og bóndi
Frjósamt fé á Hallbjarnarstöðum í Skriðdal:
Fimm vetra ærin Fimman bar fimm lömbum
– öll lifðu og eru spræk en þrjú lambanna voru vanin undir aðrar ær
„Við höfum kallað hana Fimmuna
núna síðustu daga og ætli það
festist ekki við hana,“ segir
Jón Runólfur Jónsson, bóndi á
Hallbjarnarstöðum í Skriðdal,
en þar bar á dögunum ær fimm
lömbum sem öll lifðu. Slíkt gerist
af og til en er fremur fátítt.
Ærin, sem áður hafði einungis
númer en hefur nú fengið nafnið
Fimman, er 5 vetra og mjög frjósöm,
hefur undanfarin ár borið þremur til
fjórum lömbum. Jón og kona hans,
Marta Kristín Sigurbergsdóttir,
keyptu sig inn í rekstur búsins á
Hallbjarnarstöðum fyrir um einu
ári og eru þar með um 220 kindur.
Sauðburður hefur gengið vel það sem
af er, en hann stendur enn yfir, um
einn þriðji eftir að sögn Jóns.
„Við verðum við sauðburð fram
yfir mánaðamót,“ segir hann. Kalt
hefur verið í vor og gróður lítill, en
þó er eitthvað byrjað að hleypt fé út.
Þrjú af lömbum Fimmunnar hafa
verið vanin undir aðrar ær og gekk
það vel. /MÞÞ