Bændablaðið - 28.05.2015, Blaðsíða 20
20 Bændablaðið | Fimmtudagur 28. maí 2015
Stapasel í Borgarfirði:
Búskapur hafinn á ný eftir 69 ára hlé
Búskapur lagðist af fyrir 69
árum á jörðinni Stapaseli í
Stafholtstungum í Borgarfirði. Þar
er nú að hefjast landbúnaður á ný,
þó ekki sé það með hefðbundnum
hætti.
Félagið Selskógar ehf., sem er
í eigu hjónanna Ingu Norðdahl og
Daníels Þórarinssonar, festi kaup
á jörðinni árið 2011 til að stunda
þar skógrækt. Sótt var um aðild að
Vesturlandsskógum en niðurskurður
í fjárframlögum olli því að ekki var
hægt að samþykkja Selskóga inn í
verkefnið fyrr en á síðasta sumri.
Það var strax ljóst að
ýmislegt þurfti að gera áður en
skógræktarvinna gæti hafist á
jörðinni og var biðtíminn nýttur
til að sinna þeim verkefnum.
Byrjað var á vegarlagningu því
gamli sveitavegurinn var orðinn
allt að því ófær, reist var lítið
íbúðarhús og nú hefur vélaskemma
bæst við. Síðastliðið haust var
skógræktarsvæðið á jörðinni kortlagt
og fyrstu plöntur væntanlegar í
sumar.
Stapaselsjörðin er 267 hektarar að
stærð og mikið til vaxin kjarri. Tún
voru því ekki stór á gamla bænum,
en trúlega hafa menn þá nýtt sér
kjarrbeit og eins beitt á mýrargróður.
Seldi hlut sinn í fyrirtæki og
keypti jörð
Daníel segir að það hafi lengi verið
sinn draumur að fara út í skógrækt.
„Það stóð þannig á árið 2011
að konan, sem var búin að vera
flugfreyja í fjölda ára, samdi um
að láta af störfum ásamt nokkrum
öðrum vinnufélögum sínum. Þá
fór ég að velta fyrir mér hvort ég
ætti ekki að fara að huga að því að
hætta sjálfur í mínu starfi sem einn
af eigendum í fyrirtækinu Ísfelli.
Ég tilkynnti svo félögum mínum
að ég hefði áhuga á að selja og
gerði það. Út úr þessari sölu kom
svolítið af peningum sem við létum
í þetta verkefni. Það má þó segja að
viðskiptahugmyndin sem hefur síðan
þróast í þessu hafi orðið til smátt og
smátt. Hún var alls ekki fullmótuð
þegar við keyptum jörðina.“
Byrja á að rækta beinvaxið birki
„Hér ætlum við nú að fara að planta
bæði í samstarfi við Vesturlandsskóga
og á okkar eigin vegum. Við leggjum
áherslu á beinvaxið birki af Emblu
og Kofoed-kvæni frá Þorsteini
Tómassyni plöntuerfðafræðingi.
Mig langar að leggja svolitla
áherslu á það til að breyta ásýnd
skógarins smátt og smátt,“ segir
Daníel. Hann telur að þetta birki geti
orðið 10 metrar eða meira á hæð.
Sérfræðingar hafi ráðlagt þeim að
auk birkisins skuli þau gróðursetja
greni, furu og lerki. Heppilegasti
hluti jarðarinnar til skógræktar er
talinn norðurhluti hennar í námunda
við gamla bæjarstæðið.
„Við tökum undir það 25 hektara
til að byrja með en það mun taka
einhvern tíma að klára það vegna
lítils framboðs af plöntum.“
Daníel telur að auk skógræktar
sé líklega góður grundvöllur til
að rækta ýmiss konar villt ber á
jörðinni, en þar er nú þegar mikið
bláberja- og aðalbláberjaland.
Moldarblöndun
Samhliða skógræktinni er boðið
upp á sölu á gæðamold, sauðataði,
sandi, vikri og jafnvel að sérblanda
moldina eftir óskum kaupenda.
Frjósöm mold skiptir sköpum í
ræktun, t.d. matjurta og allra trjáa,
ekki síst ávaxtatrjáa, sem nú eru
mjög vinsæl. Kaupendur geta sjálfir
sótt moldina eða Selskógar komið
með hana. Sturtukerra fyrirtækisins
kemur þá í góðar þarfir, en hún getur
borið um 2,5 tonn og sturtað á þrjá
vegu. Moldin í landi Stapasels er
talin mjög sérstök „sphagnum“
mýrarmold og á uppruna að rekja
allt aftur til síðasta jökulskeiðs.
Verktaka í smáum stíl
Ætlunin er að bjóða einnig upp
á verktakaþjónustu í smáum stíl.
Selskógar hafa fjárfest í smágröfu,
sturtukerru og trjákurlara í þessu
skyni. Oft er erfitt að komast að til
að grafa við sumarhús. Smágrafa
er þá lausnin ef grafa þarf fyrir
nýrri gangstétt, bílastæði, stækkun
á pallinum, nýrri rotþró o.þ.h.
Smágrafa á gúmmíbeltum veldur
minnstu raski og skemmdum á
gróðri. Birkiskógurinn hefur vaxið
gríðarlega á síðustu árum og er sums
staðar farinn að þrengja að opnu rými
við sumarhús. Selskógar sjá um að
grisja og snyrta skóginn og kurla
trén á staðnum. Kurlið er gott efni
í göngustíga.
Jólatré, býflugur og hænur
Ýmislegt fleira er á döfinni í
Stapaseli. Í fyrrasumar hófust
tilraunir með ræktun á jólatrjám
af tegundunum Normannsþin og
Glæsiþin, sem munu vera algengustu
tegundir jólatrjáa í heiminum. Of
snemmt er að smá um árangurinn er
ætlunin er að bæta við einum árgangi
í sumar og síðan áfram ef ræktunin
lukkast. Nágrönnum gefst tækifæri
til að kaupa nokkrar plöntur til að
rækta sín eigin jólatré. Það ætti ekki
að taka nema 7–8 ár. Þinirnir eru
ágætlega skuggþolnir en gott skjól
er nauðsynlegt.
Þá er ætlunin að vera með býflugur
í sumar. Daníel er um þessar mundir á
námskeiði til að læra býflugnafræðin
og fær í framhaldinu lítið bú frá
Álandseyjum. Barnabörnin bíða
spennt hvort hunang verði í boði
ásamt bláberjasultunni í haust.
Það er ekkert almennilegt
sveitaheimili án hænsna. Nokkrar
landnámshænur munu vonandi nema
land í Stapaseli í sumar til að gleðja
ungviðið og vekja þá eldri af værum
blundi og minna á að nú er kominn
tími til að sveifla haka og rækta nýjan
skóg.
Altmúligmaður eða -kona óskast
Þó að þau hjón Daníel og Inga ætli
sér að taka sjálf til hendinni eru
verkefnin fyrirsjáanlega það mikil
að leita verður eftir starfskrafti. Sá
eða sú þarf helst að geta allt, plantað
trjám, unnið á smágröfu og traktor,
gefið hænunum og allt þar á milli.
Áhugasamir mega gjarnan hafa
samband á netfanginu danielth@
nett.is. /HKr./DÞ
Hjónin Inga Norðdahl og Daníel Þórarinsson hafa komið sér upp myndarlegu íbúðarhúsi og vélageymslu sunnarlega á Stapaselsjörðinni en gamli bærinn var nálægt norðurjaðri landareignar-
Mynd / HKr.
Daníel Þórarinsson og Inga Norðdahl við glænýja véla- og verkfærageymslu á Stapaselsjörðinni. Mynd / HKr.
Gamli bærinn stóð töluvert norðar í landinu en nýju húsin þeirra Daníels og
Ingu og eru þar bara rústir eftir. Þessi mynd af gamla bænum er tekin til suðurs
Ábúendur í Stapaseli til 1946: Sigríður Guðmundsdóttir (15.11.1891–29.4.1982)
og Magnús Finnsson (12.5.1884–4.9.1946) Magnús lést nákvæmlega ári áður
en Daníel Þórarinsson fæddist.
Fjölskylda Jóhannesar Jónssonar og Ingibjargar Sveinsdóttur í Stapaseli.
ætíð mikla tryggð við Stapasel. Börnin sem sjást á myndinni gróðursettu
löngu síðar fjölda trjáa í Stapaseli til minningar um foreldra sína. Þau tré eru
í dag orðin stór og stæðileg. Talið frá vinstri: Jón, Jóhannes Jónsson bóndi,
Ólafur, Helga, Sveinn, Guðrún, Ingibjörg Sveinsdóttir húsfreyja, Eysteinn.
Yngsta systirin, Auður, var ófædd.