Bændablaðið - 28.05.2015, Blaðsíða 39

Bændablaðið - 28.05.2015, Blaðsíða 39
39Bændablaðið | Fimmtudagur 28. maí 2015 Lesendabás Sælir eru hógværir … Bóndi góður! Við skulum bregða okkur af bæ. Hvert, má liggja milli hluta. Það hallar norður af og við blasir langur dalur, hlíðar háar og oft snarbrattar, undirlendi frá þeim um ása, engi og áreyrar. Til að sjá allur ræktaður, það skiptast á hirt tún og gulir kornakrar undir bjartri síðsumarsól. En ekki er allt sem sýnist. Við ökum niður í dalinn og uppgötvum að kornið er ekki neitt korn. Það er snarrótarsina þykk og þýfð með svo miklum punti að naumast sér í girðinguna á skurðbakkanum meðfram veginum. Alveg ónýtt land segir þú. „Svona fer þegar landið er ekki beitt. Þyrfti að brenna það eða nauðbeita með hrossum.“ Hrossastóð er reyndar það eina sem maður sér af nytjatilburðum á þessu fyrrum votlendi sem í ríkisstýrðu bjartsýniskasti var ræst fram til að verða kannski tún, eða alla vega miklu betri úthagi en áður var. Valllendi. Túnræktin var jú reynd, en þegar Bjargráðasjóður hafði bætt kalið í þrígang sá ríkið sitt óvænna og borgaði búendum styrk til að flytja ræktunina upp á ásana undir hlíðinni. Ræktarlandið er meira handan árinnar, raunar klofið þar af vegi, okkar megin af stæðilegri háspennulínu. Þetta hefur víst ekki allt verið ræktanlegt. Sums staðar hefur frostlyftingin orðið fyrri til og grjótið sprengt sundur lyngmóann. Þar skiptast á grjótmelar og mishá börð þar sem kindur hafa skjól og kroppa ósýnilegan gróður úr moldum milli mels og gróðurtorfu. Mun fleiri kindur eru uppi í hlíðum dalsins. Þær tipla fimlega um skriður milli gróðurtorfa og draga sem ná langleiðina upp hlíðina, efstu brúnir rofnar og leirlitir taumar þaðan niður í drögin. Þar fyrir ofan er ónefnd heiði. Víðfeðmt afréttarland sem Landgræðslan segir skelfilegt en bændurnir dásamlegt. Báðir hafa sýnt okkur myndir þaðan í Bændablaðinu, Landgræðslan af moldarbörðum, bændurnir af grænum flóum. En fjármargir eru þeir alla vega hérna, Það blasir við og hafa verið frá ómunatíð. Rífandi fallþungi hérna segir þú mér. Og hvað sem Landgræðslan segir eru þeir allir með gæðastýrða framleiðslu, vottaða af Landgræðslunni vel að merkja. Til sátta varð að bændurnir bæru landbótaáburð á ljóta landið undir hlíðinni og það hafa þeir greinilega gert af myndarskap. Líka heyrusl, vörubretti, kindaskrokka, gamla Zetora og það sem til féll þegar konan loksins gat rekið þá til að klippa víðinn sem skýlir garðinum kringum húsið á bænum. Annars staðar í þeim dal sést ekki sú gróðurtegund nema framan í klettum. Birkihríslur eru hins vegar á stöku stað. Einn bærinn heitir reyndar Birkihlíð, næst þar við er Rjúpnabrekka undir skriðurunninni hlíð. Svo eru Víðar, myndarlegasti bærinn í dalnum, heitir trúlega svo af því að einmitt þar fer dalurinn að víkka -- og nú sér bæði til sjávar og upp í tvo aðra dali, keimlíka þessum. Hér er greinilega búið með kýr, þær eru nú þegar komnar á kálbeit á vænum spildum í ríki snarrótarinnar. Njólinn stendur einn eftir á því sem þær hafa þegar bitið. Þarna er líka kornakur og skógrækt, blágræn jólatrjárækt með lerki í bland myndar teinóttan fleyg frá aflögðu heljarlöngu loðdýrahúsi upp yfir brekku sem ekki er gott að sjá hvort er gróin eður ei. Girðingin ekki alveg fjárheld… -„Gerir ekkert, beitin hefur aldrei skaðað neitt. Verra með gæsina. En þeir eru þó lausir við hreindýrin, þau eru skaðræði í landi“. Segir þú. Niður af bænum í átt til sjávar skiptist á votlendi, hálfdeigjur og vallendisholt. Fallegt land með snotrum læk og hrossum, Þeir eru ræktunarmenn á Víðum. Reyndar hefur stóðið troðið lækjarbakkann bölvanlega ef vel er gáð. Á öðrum hlutum þessa lands er sundurleit geldneytahjörð og það sem maður hélt úr fjarska að væru áburðarsekkir reynast vera brúkunarhrútar bæjarins, afgirtir á úrvalshaga, líklega gömlu túni. Við stönsum auðvitað þarna til að virða djásnin fyrir okkur. Þú horfir á þá, hefur vit á hrútum fyrir okkur báða. Ég horfi til baka inn dalinn. Þú: „Flottir!“ Ég: „Og fögur er hlíðin?“ Þú: „Þetta er fínt maður, alveg bara eins og heima! Og hér ertu þó laus við helvítis skóginn. Hvernig heldur þú að væri að smala þetta ef allt væri á kafi í birki?“ Þér gremst flónska mín sem vonlegt er. Hrútarnir eru jú andlit búsins hvarvetna, ekki landið. Er þetta hagkvæmt? Það er ekki ætlun mín að halda siðapredikun um landeyðingu af völdum beitar. Hún er þó staðreynd. En í ferðinni um íslenska dalinn sést harla sérstök landbúnaðarframkvæmd. Kjötframleiðsla fer fram á heiðum uppi, þar á meðal í brattlendi sem víða í veröldinni væri með öllu bannað að beita. Mjólkurframleiðsla algjörlega á þaulræktuðu landi, kýr sjást sjaldan núorðið utan túns eða kálakurs. Frjósamasti hluti landsins er orðinn sinu að bráð og naumast til nokkurra nytja. Er þetta hagkvæm og rétt framkvæmd landnotkun? Og hvers vegna er þetta svona? Svarið við því er hið sama og við þeirri spurningu sem oft heyrist; hvernig beit, jafnvel lítil beit geti valdið landeyðingu. Það getur verið langt svar, fræðilegt og torskilið. En stutta ófræðilega og auðskilda útgáfan er þessi: Beit breytir tegundasamsetningu gróðurflóru. Beitarlystugar tegundir hopa og við tekur gróður sem verst beit, – ef aðstæður leyfa. Ef aðstæður leyfa það ekki hverfur gróðurinn með einum eða öðrum hætti, á mislöngum tíma. Þessi viðbrögð lands við beit eru óháð því hvort hún er mikil eða lítil, hvort hún hefst vikunni fyrr eða seinna að vori eða hvort réttað er í ágústlok eða septemberbyrjun. Þau valda því að sumarhagar sauðfjár eru bestir ofan gróðurmarka beitarvarinna tegunda eins og snarrótar. Þau valda því almennt talað að graslendi eykst á kostnað annars úthagagróðurs, stundum til talsverðra hagabóta en með auðnir, skriður, jarðsil og torfumyndun sem aukaverkun. Og sinu. Því jafnvel á graslendi styrkir beitin samkeppnisstöðu beitarvarinna grastegunda á kostnað hinna. Því frjósamara sem landið er og nær sjó því betur gengur beitarfjandsamlegum gróðri að ná yfirhöndinni meðan árviss beitin heldur öðrum tegundum í skefjum. Eðlileg viðbrögð landbúnaðar við þessari tilhneigingu bithaga eru ekki að standa í linnulausu viðgerðastarfi á heiðum uppi með áburði, fræi, barðabroti og Guð má vita ekki hverju. Ekki heldur að gera bithaga háðan árvissri áburðargjöf eða þjappa fénaði í þrengslahólf fram á sumar til að uppfylla skilmála landbótaáætlana sem kannski eru fátt annað en ástlaus kaupmáli Landgræðslu ríkisins og bóndans. Markmiðið með slíku starfi á ekki að vera að geta áfram notað viðkvæmt land fremur en að þróa landbúnað á góðu frjósömu landi. Eðlileg viðbrögð eru þau sem hvarvetna eru notuð utan Íslands: Beitarstjórnun og skipulag landnotkunar. Beitarframkvæmd Íslendinga heitir síbeit. Hún felst í því að sömu dýrategund er haldið til beitar á sama árstíma og á sama landinu, hvíldarlaust árum, áratugum eða öldum saman. Hún er vissulega einföld í framkvæmd en hefur þann ágalla að hámarka áhættu og lágmarka afrakstur. Hún hefur orðið okkur dýrkeypt. Efnahagslega er úrelding frjósama landsins vegna rangrar beitarframkvæmdar og eyðing skóganna öllu meira tjón en uppblástur hins ófrjósama hálendis. Það sem að okkur bændum snýr í þessum efnum er fyrst og síðast að tryggja að notkun okkar á landi hafi ekki óafturkræfar afleiðingar, sjálfbær verður hún seint í ítrasta skilningi þess orðs. Leiðin til þess er endurheimt frjósama landsins og skipulagning landbúnaðar á því. Ræktunarbúskapur. Höfum í huga að beit á að framkvæma þannig að hún auki uppskeru landsins. Hún á að rækta. Bóndi góður! Í lögmálum Ísraelsríkis hins forna voru ákvæði um að hvíla skyldi land sjöunda hvert ár. Það með öðru veitti Ísraelsþjóð slíka efnalega yfirburði umfram síbeitandi nágranna að þeim var næstum útrýmt fyrir öfundarsakir. Að græða upp hrunið land er ekki okkar skylda fremur en annarra. Hún er allra. Við gerum því landi kannski mest gagn fyrir minnsta peninga og vinnu með því að láta það í friði. Ef við ætlum að leggja landgræðslustarfi lið skulum við gera það heiðarlega og án þess að vænta mikils í staðinn. Við Íslendingar eigum elstu stofnun veraldar sem sérhæfð er á þessu sviði; Landgræðslu ríkisins. Við höfum líka eignast fólk sem hefur varið starfsævi sinni, hugsjónum og tíma á þessum eða skyldum vettvangi. Öllu því fólki ber að sýna virðingu og þökk. Sérstaklega af okkur bændum. Virðum náttúruna og þiggjum gjafir hennar. Hún lætur ekki krefja sig um neitt hvorki með lagarefjum eða landamerkjaskrám. Það eina sem hún krefst er hógværð. Þeim hógværu verður landið gefið. Kári Þorgrímsson Garði, Mývatnssveit Fyrir skömmu síðan komst ég að því að nýlega var lagt fram á Alþingi frumvarp um innflutning á norsku holdanautasæði ætluðu til ræktunar á holdanautum á íslenskum bændabýlum án nokkurra sérstakra varúðarráðstafana. Gömlum veirufræðingi, sem varði drjúgum hluta af 40 ára starfsævi sinni í rannsóknir á innfluttum, banvænum smitsjúkdómum í íslensku sauðfé, varð ekki rótt við þessar fréttir og biður Bændablaðið að birta nokkur viðvörunarorð til kúabænda: 1. Það getur ekki verið að kúariðusýkillinn sem barst frá Bretlandi um alla Norður- Evrópu sé dauður. Riðusýklar eru lífseigustu sýklar sem við þekkjum. Venjulegar aðferðir við dauðhreinsun á öðrum sýklum duga alls ekki til að drepa riðusýkla. Suðuhita við háþrýsting þarf að lengja úr rúmum klukkutíma í 4½ tíma til að reyna að hreinsa riðusýkla af áhöldum við krufningu, og efnameðferð, sem dugar til að drepa marga aðra sýkla er gagnslaus. Hér á landi höfum við barist í heila öld við riðu í sauðfé. Þó að sýktum hjörðum hafi árum saman verið slátrað fljótlega eftir að fyrstu sjúkdómseinkenni sáust er sýkillinn hér enn. Riða, sem sýkir sauðfé hefur ekki svo vitað sé borist í menn. Engin merki hafa fundist um aukna tíðni taugasjúkdóma í fólki sem hér býr á riðusvæðum. Kúariða er öðruvísi. Kúariðusýkillinn smitar fólk, og af því smiti fá menn banvænan heilasjúkdóm, rétt eins og kýrnar. Þegar kúariðusýkillinn var virkastur í mörgum Evrópulöndum, rétt fyrir síðustu aldamót olli hann banvænum heilasjúkdómi í mönnum, rétt eins og í kúnum. Sjúklingarnir voru oftast börn eða ungt fólk, innan við þrítugt. Ástæðan fyrir smiti var oftast talinn illa eldaður skyndibiti eða skólamáltíð úr kjöti af sýktum einkennalausum nautgrip. Steikur úr kjöti af holdanautum þykir sumum fínast að steikja lítið. Af slíku kjöti úr einkennalausum sýktum nautgripum geta menn auðveldlega sýkst. Ég tel víst að kúabændur kæri sig ekki um að hafa slík dýr mjög nærri heimilum sínum eða í heimahögum. 2. Erlendar rannsóknir á riðu í kindum sýndu fyrir löngu síðan, að þar sem sýktar kindur báru á graslendi varð til miklu meiri smithætta en á öðru beitilandi, og var þarna kennt um hildunum og líkamsvessum frá fæðingu lambanna. Líklega gilda sömu lögmál um sýktar kýr hvort sem þær bera í fjósi eða úti í hag. Því tel ég rétt að íslenskir kúabændur séu upplýstir um þetta eðli riðusmits í sauðfé. + Íslenski kúastofninn hefur ekki borið í sér neina banvæna smitsjúkdóma enn þá. Hann hefur hingað til verið laus við hvítblæði, sem víða finnst í erlendum kúm, t.d. í Noregi. Hvítblæði í kúm er veirusýking, sem við ættum að reyna að halda frá landinu. Hvernig lýst ykkur, kúabændur, á að leggja heldur áherslu á að fóðra vel og vandleg fallega kálfa af íslensku, ósýktu kúakyni, og sjá hvort þið fáið ekki út úr þeirri tilraun ágætt holdanautskjöt, sem óhætt er að rækta heima hjá ykkur? Að mínu viti er vandinn ekki endilega í genunum, heldur kannski eins oft í uppeldinu. Margrét Guðnadóttir, veirufræðingur Viðvörun til kúabænda Margrét Guðnadóttir. Kári Þorgrímsson í girðingavinnu. Mynd / MÞÞ
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.