Bændablaðið - 28.05.2015, Blaðsíða 16

Bændablaðið - 28.05.2015, Blaðsíða 16
16 Bændablaðið | Fimmtudagur 28. maí 2015 Margar áhugasamar fréttir af undrum náttúrunnar komast sjaldan eða aldrei í fjölmiðla. Daglegt þras um fjármál, stjórnmál og önnur óáhugaverð mál njóta þar meiri vinsælda. Ein af þeim spurningum sem undirritaður hefur varpað fram á ritstjórnarfundi Bændablaðsins er af hverju það rigndi stundum froskum en aldrei halakörtum? Heimurinn er fullur af undrum, fólk lyftist upp af jörðinni og flýgur, undarleg ljós sjást á himnum og fregnir um fljúgandi furðuhluti eru nánast daglegar úti í heimi. Allt án haldbærra skýringa. Árið 1874 fæddist drengur sem fékk nafnið Charles Hoy Fort. Hann átti síðar eftir að verða ókrýndur konungur rómantískrar náttúrufræði og safna sögum um furðufyrirbæri náttúrunnar og gefa út á bók. Áhugi Fort á furðusögum er af svipuðum meiði og þjóðsagnasöfnun Jóns Árnasonar og Sigfúsar Sigfússonar. Fort hafði í sjálfu sér engan áhuga á því sem í dag er kallað yfirnáttúruleg fyrirbæri eða dulsálarfræði. Hann taldi að öll fyrirbæri væru náttúruleg og að þau ætti að skýra. Hann var óvæginn í gagnrýni sinni á „svokallaða vísindamenn“ eins og Fort kallaði marga menntaða samtímamenn sína. Fort taldi þá sniðganga allt sem þeir gætu ekki skýrt út frá eigin reynslu og ekki hafa hugmyndaflug til að líta á heiminn nema frá einu sjónarhorni, múlbundna af þröngsýni og fordómum. Sjálfur sagðist Fort trúa öllu og engu, allt væri breytingum háð og ekkert væri eins og það sýndist. Fort safnaði ótrúlegum fjölda furðusagna enda sat hann á bókasöfnum í New York og London í tuttugu og sjö ár og leitaði fanga. Hann hefur til dæmis eftir dagblaðinu New York World 25. mars 1883 að dóttir Jesse Miller í Greenville hafi nokkrum sinnum lyfst upp af stofugólfinu heima hjá sér og „flogið“ út í garð. Um svipað leyti greinir tímaritið Cosmos frá því að mikið af fiskum hafi fallið af himni í Norfork í Virginíu-ríki. Nature segir frá því að árið 1880 hafi hópur fólks í Þýskalandi séð upplýstar verur svífa á himninum. Fort trúði því staðfastlega að verur frá öðrum heimum heimsæktu jörðina annað kastið og hann hefur það eftir Scientific American að í júlí 1882 hafi fjöldi manna í Líbanon séð einkennilegan hlut á himni. Þegar hluturinn hvarf komu tvö þríhyrningslaga loftför í staðinn og flugu lágt yfir jörðinni. Ein furðulegasta sagan í safni hans segir frá hundi sem talaði mannamál en leystist síðan upp í grænan reyk. Fort gerir enga athugasemd við að hundurinn skuli tala en hann setur spurningarmerki við að hann hafi leyst upp í grænum reyk. Gagnrýnendur Forts segja að hann hafi verið bjánalega trúgjarn og sjaldnast dregið sannleiksgildi sagnanna sem hann safnaði í efa og lagt sig fram um að koma slæmu orði á vísindi og notið þess að niðurlægja vísindamenn sem hann kallaði hina nýju prestastétt. Í dag trúa margir Íslendingar á álfa, drauga og skrímsli svo eitthvað sé nefnt. Eru þetta yfirnáttúruleg fyrirbæri eða einfaldlega náttúrundur eins og meyfæðing Maríu og ýmissa kvenkynshákarla sem fæða afkvæmi án frjóvgunar karldýra. . /VH Hundur leysist upp í grænum reyk Félagar í Hestamannafélaginu Létti endurbyggja rétt á Kaupangsbökkum STEKKUR Vaskir félagar úr Hestamanna- félaginu Létti á Akureyri hafa frá því í fyrrahaust unnið ötullega að því að endurbyggja rétt á jörð sinni Kaupangsbökkum. Réttin bætir mjög aðstöðu fyrir bæði hross og menn sem þarna fara um, en Kaupangsbakkar er sá áfangastaður á norðanverðu landinu sem hvað flestir hestamenn staldra við á. Þaðan liggur leið fram í jörð meðfram bökkum Eyjafjarðarár sem og einnig leið austur yfir Bíldsárskarð og yfir Vaðlaheiði. Sigfús Helgason, félagi í Létti, segir að hugmyndin um að endurbæta réttina hafi kviknað fyrir alvöru síðastliðið haust þegar hestamenn komu úr ferðalagi úr Þingeyjarsýslu og enduðu líkt og áður á Kaupangsbökkum. „Það má segja að frá því hugmyndin fór á flug á haustdögum 2014 hafi mikið verið reiknað, teiknað, mokað, smíðað, borað og skrúfað,“ segir Sigfús. Allmargir Léttisfélagar hafa lagt hönd á plóg og unnið að kappi á liðnum vetri. Næsta skref að bæta aðstöðu innandyra „Það var löngu tímabært að hefja endurbætur á þeim mannvirkjum sem þarna standa,“ segir Sigfús. Nú í vor og á komandi sumri er fyrirhugað að setja það á veggi sem enn standa eftir af þeim gömlu húsum sem enn standa og koma þar upp aðstöðu innandyra, svo hestamenn geti yljað sér á heitum kaffisopa. „Með þessum framkvæmdum erum við núlifandi hestamenn í Létti að halda á lofti og heiðra minningu þeirra félaga okkar sem hófu verkið, þakka um leið fyrir okkur og skila jörðinni sem okkur þykir svo vænt um til ungu kynslóðarinnar í félaginu.“ Þrískipt rétt um 550 fm að stærð Sigfús segir að þær framkvæmdir sem staðið hafa yfir og haldið verður áfram við muni koma þeim sem leið eiga um bakka Eyjafjarðarár vel. Réttin er þrískipt, tveir aðskildir dilkar sem hvor um sig er 150 fm að stærð og um 250 fm hólf vestan hennar, eða samtals um 550 fm. Notaðir eru rafmagnsstaurar og 12 mm vír þræddur í gegn, en sams konar efni var notað í rétt sem stendur austan við Fosshól. Hestamannafélagið Léttir hafði forgöngu um þá myndarlegu framkvæmd. Mikil framkvæmdagleði hjá Léttismönnum Á næstu dögum verður enn ein réttin, svipuð þeirri og stendur á Kaupangsbökkum, byggð upp í Hlíðarholtshverfi, hesthúsahverfi á Akureyri. „Það er hverju orði sannara að það er mikill framkvæmdahugur og kraftur í Léttisfélögum og þær framkvæmdir sem við höfum standið fyrir bæta alla aðstöðu fyrir hestamenn hér um slóðir til mikilla muna,“ segir Sigfús Helgason. /MÞÞ Myndir / Sigfús Helgason. -
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.