Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2015, Page 46

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2015, Page 46
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 1. tbl. 91. árg. 201542 Bára Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í barnahjúkrun, lýsir hér bugðóttri leið sinni að núverandi starfi en með þrautseigju hefur henni tekist að koma ýmsu til leiðar sem gagnast langveikum börnum og fjölskyldum þeirra. Fleiri greinar um störf sérfræðinga í hjúkrun munu birtast á þessu ári. Hjúkrun og læknisfræði byggist á hefðum. Flest heilbrigðisstarfsfólk verður þess vart á sínum fyrstu árum í starfi á heilbrigðisstofnunum. Sem hjúkrunar­ fræðingur á Barnaspítala Hringsins varð ég alltaf jafnhissa þegar ég spurði: Af hverju er þetta gert svona en ekki hinseginn, af hverju er starfseminni ekki breytt í takt við tíðarandann og þarfir sjúklinganna hafðar að leiðarljósi? Þá kom nær alltaf sama svarið: Af því að þetta hefur alltaf verið gert svona. Reynslan hefur sýnt mér að mikilvægt er að vera með opinn huga og tilbúinn að Bára Sigurjónsdóttir, bara@leidarljos.is skoða nýja hluti, takast á við breytingar og jafnvel horfa til þess að starfa sjálfstætt utan veggja sjúkrahúsa ef aðstæður kalla eftir því. Þannig er mín saga sem sérfræðings í barnahjúkrun sem ég mun núna stikla á stóru um í þessari grein. Vissulega breytist ýmislegt með árunum og ákveðin þróun á sér stað. Þegar ég lít yfir mitt sérsvið innan barnahjúkrunar, hjúkrun langveikra barna og fjölskyldna, hef ég orðið vitni að því á minni starfs­ ævi að alvarlega langveik börn, sem áður lifðu sitt æviskeið og nánast bjuggu á ungbarnadeild Barnaspítala Hringsins, eru nú öll komin heim í faðm fjölskyldunnar. Þar þurfa foreldrarnir að bera hitann og þungann af allri umönnun þeirra. Eftir að námi lauk réð ég mig á þáverandi ungbarnadeild barnaspítalans. Þar voru mikið veiku börnin sem ekki komust heim og áhugi minn beindist fljótt að þeim og hvernig mætti hlúa betur að þessum fjölskyldum. Í þá daga var afar takmörkuð aðstaða fyrir foreldra til að vera hjá börnum sínum og ekki í boði að fara með þau heim með viðunandi aðstoð. Man ég enn þá eftir hvað mér fannst það mikil sigur að hafa náð að koma einum ungum dreng, sem aldrei var útskrifaður, heim í einn sólarhring með miklum viðbúnaði. Eftir á að hyggja held ég að áhugi minn á heimahjúkrun hafi vaknað um þetta leyti. Nokkrum árum síðar, þegar ég var orðin reynslunni ríkari, bauðst mér að ganga til liðs við brautryðjendur í heimahjúkrun barna, þær Guðrúnu Ragnarsdóttur, deildarstjóra í Rjóðri, og Kristínu Vigfúsdóttur, sem verktaki í heimahjúkrun barna sem þá var á vegum Tryggingastofnunar ríkisins. Um líkt leyti hófst sú viðleitni á barnaspítalanum að reyna að koma langveikum börnum heim. Það reyndist mikilvægt að samstarfsfólk mitt á ungbarnadeildinni þekkti mig og bar traust til minna starfa og varð það til þess að greiða fyrir að fleiri börn fengu að fara heim með stuðningi heimahjúkrunar. Að sama skapi fann ég enn betur til þess að sú þjónusta, sem veitt var á deildinni, hentaði ekki nógu vel fjölskyldum langveikra barna. Hvað var til ráða? Eftir að hafa vakið máls á skoðunum mínum og sýnt málefninu áhuga bauðst mér að vinna í þverfaglegum hópi að tillögum um úrbætur. Við lögðum fram góðar tillögur en einhverra hluta vegna náðu þær ekki fram og lítil sem engin breyting varð á starfseminni. FRUMKVÖÐLASTARF Í HJÚKRUN – HORFT FRAM Á VEGINN

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.