Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.12.2010, Síða 17

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.12.2010, Síða 17
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 5. tbl. 86. árg. 2010 13 Björg Júlíana greindist fyrst með brjóstakrabbamein árið 2004 og gekk þá í gegnum lyfjameðferð og geisla og þetta reyndi mjög á hana. Hún þoldi illa lyfjameðferðina og varð mikið veik. Sjálf segist Björg hafa verið heppin því meinið var staðbundið og þess vegna þótti ekki ástæða til að taka allt brjóstið. Björg fann sjálf hnúð í brjóstinu en hún hefur tamið sér reglubundna sjálfsskoðun. „Ég pantaði tíma á Leitarstöðinni um leið og ég fann hnúð í brjóstinu. Áður hafði ég oft fengið blöðrur í brjóstin og farið nokkrum sinnum á Leitarstöðina út af því. Í þetta skiptið fann ég að hnúðurinn var öðruvísi og var sár viðkomu. Ég bjó mig því undir að fá slæm tíðindi þótt maður viti aldrei hvers kyns meinið er,“ útskýrir Björg, en tvær systur hennar og ein systurdóttir hafa greinst með krabbamein. Erfið lyfjameðferð „Til þess að minnka krabbameinið fyrir skurðaðgerðina var ég sett í lyfjameðferð en eftir fjögur skipti var ég að niðurlotum komin. Þá var tekin sú ákvörðun að hætta lyfjameðferð og skera strax. Lyfjameðferðin og geislarnir, sem fylgdu í kjölfarið, gengu mjög nærri mér og ég var langt niðri. Eftir tíu mánuði fór ég þó aftur að vinna þó heilsan hafi ekki verið upp á marga fiska,“ segir Björg sem starfaði á þessum tíma hjá Landsbankanum. „Ég reyndi að gera ýmislegt til að ná heilsunni aftur en það tók mig langan tíma. Ég var ekki nógu dugleg að kynna mér sjálf þá möguleika sem ég hafði til endurhæfingar,“ segir hún enn fremur. „Ég hafði ekki hugmynd um hvað væri í boði fyrir mig fyrr en ég fór að sækja sundleikfimi hjá endurhæfingardeild á Grensási en þar frétti ég að ég ætti rétt á iðjuþjálfun og sjúkraleikfimi á Borgarspítalanum. Þá var komið fram á sumar og sumarleyfi stóðu sem hæst. Það gerði mér þó mjög gott andlega að fara þangað loksins þegar úr því gat orðið. Þjálfunin, sem ég fékk þar, gerði mér mjög gott og ég er ánægð með að hafa drifið mig í hana. Mér fannst ég samt ekki vera neinn sjúklingur þótt ég væri frekar lasburða. Eflaust hefði ég getað spurt meira og kynnt mér hlutina betur en ég hafði ekki orku til þess.“ Andlegt áfall Á þessum tíma vann eiginmaður Bjargar mikið erlendis og því ekki alltaf til staðar fyrir hana. „Það var mjög erfitt,“ segir hún. Börnin hennar tvö voru í háskólanámi og hún reyndi að gæta þess að valda þeim ekki of miklum áhyggjum og gerði því minna úr veikindum sínum en efni stóðu til. „Auðvitað voru allir áhyggjufullir mín vegna en ég var dugleg að segja að mér liði vel og allt gengi samkvæmt óskum. Ég var hins vegar hundveik og meira eða minna rúmliggjandi. Ég gerði mér ekki grein fyrir því á þessum tíma að andlega hliðin var ekki heldur upp á það besta. Ég skil það núna að einhver partur af þessum miklu veikindum mínum fyrir fimm árum hefur trúlega verið andlegt áfall.“ Það var síðan í apríl á þessu ári sem Björg fann hnúð í hinu brjóstinu. „Ég bjó mig undir það versta,“ segir hún. „Ég pantaði tíma á Leitarstöðinni og mér var strax sagt að þetta væri slæmt.“ Þegar Björg er spurð hvort hún hafi orðið hrædd neitar hún því. „Ég var tiltölulega róleg yfir þessu, að minnsta kosti í fyrstu, fullviss um að ég yrði í öruggum höndum Sigurðar Björnssonar krabbameinslæknis og hjúkrunarfræðinganna sem ég þekkti frá fyrri meðferð. Ég taldi mig líka hafa fundið meinið fljótt þar sem ég hef alltaf verið dugleg að þreifa brjóstin og fann því breytingar strax. Ég tel ákaflega mikilvægt fyrir konur að þekkja líkama sinn og fylgjast vel með öllum breytingum. Æxlið var tekið í hvelli og mér fannst læknar bregðast mjög skjótt og vel við,“ segir hún. „Og aftur var ég heppin. Meinið var staðbundið eins og í fyrra skiptið.“ Björg er mikil hetja og lætur ekki hlutina koma sér úr jafnvægi. Hún segir þó að þegar ný lyfjameðferð hófst hafi þyrmt yfir hana. „Það var ekki fyrr en ég var komin í sama herbergið og fimm árum áður að ég gerði mér grein fyrir því sem var að gerast. Sigurður Björnsson, læknirinn minn, hafði á orði hversu mikið æðruleysi ég sýndi þessu en líklegast hefur það frekar verið afneitun,“ segir hún. „Ég átti að hætta á krabbameinslyfjunum, sem ég hef verið á í fimm ár, í ágúst sl. og hafði hlakkað mjög til þess. Það fylgja ýmsar aukaverkanir þessum lyfjum, til dæmis verður hárið rytjulegt og stirðleiki í öllum liðum. Ég náði ekki að hætta á lyfjunum. Að sjálfsögðu er mikið áfall að greinast með alvarlegan sjúkdóm en þá er spurningin hvernig maður ákveður að vinna úr því.“ Með skugga sér við hlið Björg segir að það hafi verið allt öðruvísi fyrir sig að greinast í seinna skiptið. Nú var eiginmaðurinn heima og gat stutt hana og meðferðin var auðveldari en í fyrra skiptið. „Ég fékk ekki sömu lyf enda ekki um sama krabbamein að ræða. Ég veit líka núna að það að greinast með krabbamein er ekki dauðadómur. Í fyrra skiptið taldi ég mig vera dauðvona. Systir mín og systurdóttir létust báðar úr krabbameini í sömu vikunni 2002. Það var erfið reynsla og hafði áhrif á mig. Nú veit ég að margir læknast og ná sér að fullu.“ Björg viðurkennir þó að hún telji að enginn sem greinst hefur með krabbamein geti með fullri hreinskilni sagt að hann óttist ekki að þetta taki sig upp aftur. Því miður búi sá ótti alltaf undir. „Sigurður Björnsson orðar þetta svo að það fylgi manni alltaf þessi skuggi. Sumir geta ýtt þessu alveg frá sér en aðrir hugsa mikið um þennan skugga. Ég hef kosið að líta svo á að þetta sé búið og ég trúi því. Það skiptir öllu máli að hafa jákvæða hugsun. Ég hef alltaf verið dálítil Pollíanna í mér og reyni að líta á björtu hliðarnar. Ég hef mikið álit á Sigurði, lækninum mínum, því ég tel hann vera lækni af hugsjón sem sinnir andlegu hlið sjúklinganna jafnt sem hinni líkamlegu. Sigurður lætur sér annt um sjúklinga sína og sýnir það í verki. Ég gæti nefnt fjölmörg dæmi um það,“ segir Björg. Betri upplýsingar Björg segist vilja benda fagfólki á að það væri mjög ákjósanlegt ef hægt væri að breyta því ferli sem viðgengst þegar sjúklingur greinist með krabbamein. „Læknirinn lýsir þeirri meðferð sem í vændum er og að hluti hennar sé að missa hárið eftir um það bil hálfan mánuð. Hann upplýsir að hann muni senda beiðni til Sjúkratrygginga um styrk til kaupa á hárkollu. Að mínu mati og eftir þá reynslu, sem ég hef öðlast, teldi

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.