Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.12.2010, Page 7

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.12.2010, Page 7
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 5. tbl. 86. árg. 2010 3 Umræður um heilbrigðisþjónustu hafa verið venju fremur miklar undanfarnar vikur og ekki komið til af góðu. Það þarf ekki að rekja hér þær miklu breytingar sem boðaðar eru á skipulagi heilbrigðisþjónustunnar í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011. Þegar þessi pistill er skrifaður hefur önnur umræða um fjárlagafrumvarpið ekki farið fram á Alþingi og því enn óljóst hvernig rekstrarárið, sem hefst eftir tæpar sjö vikur, verður. Þann 29. júní 2009 sendi stjórn FÍH þáverandi heilbrigðisráðherra, Álfheiði Ingadóttur, áherslur og tillögur stjórnar félagsins vegna þess niðurskurðar í heilbrigðisþjónustu sem þá var rætt um í kjölfar efnahagshrunsins. Áherslur félagsins þá voru að forgangsraða þurfi verk efnum heilbrigðisþjónustunnar, tryggja þurfi öryggi og gæði þjónustunnar, endur skoða þurfi greiðslufyrirkomulag í heilbrigðis kerfinu og huga að sameiningu stofnana til að gera þjónustuna markvissari. Stjórn FÍH lagði meðal annars til að: Heilbrigðisráðherra setji á fót fimm manna starfshóp sem taki að sér, í aðalstarfi, að gera áætlun um heil brigðis þjónustu hér á landi fram til 2015. Hópnum verði ætlað að leggja fram tillögur um niðurskurð í heilbrigðis kerfinu næstu þrjú árin þar sem m.a. yrði skoðað hvað skuli gera hvar, grunnþjónusta skilgreind og hvar skuli starfrækja sjúkrahús til framtíðar. Einnig hvaða þjónusta skuli greidd úr sjúkratryggingum, kostnaðar­ hlutdeild sjúklinga, einkarekstur í heil­ brigðisþjónustu og hvaða þjónustu heimilt verði að veita utan sjúkra­ tryggingakerfis. Því miður brást heilbrigðisráðherra í engu við þessum tillögum og ráðuneytið hefur ekki svarað þessu erindi félagsins. Þessar áherslur og tillögur eru ekki síður í gildi nú þegar harkalegur niðurskurður í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni hefur verið boðaður. Þær kerfisbreytingar, sem boðaðar eru í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011, þurfa mun meiri og allt annars konar undirbúning en verið hefur. Fjárlagafrumvarpið endurspeglar bæði heilbrigðisstefnu og byggðastefnu. Með lögum um heilbrigðisþjónustu, sem sett voru árið 2007, var sett fram stefna um verulegar breytingar á skipulagi heilbrigðisþjónustunnar þó lítil umræða yrði um þá stefnumörkun á þeim tíma. Þær breytingar, sem nú eru boðaðar, eru afsprengi þessarar stefnumörkunar þó gengið sé lengra og hraðar fram en viðunandi sé. Í samræmi við hin nýju heilbrigðislög var einsýnt að færa þyrfti til verkefni innan heilbrigðisþjónustunnar og fækka þeim stofnunum sem veita sérhæfða heilbrigðisþjónustu. Öllum kenningum um breytingastjórnun og mannauðsstjórnun hefur hins vegar verið kastað fyrir róða við undirbúning þessara breytinga nú. Forgangsröðun verkefna er grunnur að réttlátri og árangursríkri heilbrigðis­ þjónustu. Skilgreina þarf hvað felst í hugtakinu grunnþjónusta og hversu nálæg í ferðatíma slík þjónusta á að vera öllum landsmönnum. Taka þarf mið af skilgreiningum á fyrsta stigs, annars stigs og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu við forgangsröðunina. Hvað á að gera hvar? er grundvallarspurning sem ræða þarf og ná samfélagslegri sátt um. Meta þarf ávinning af heilbrigðisþjónustu með tilliti til kostnaðar samfélagsins og einstaklinganna og nota slíkt mat við forgangsröðun verkefna. Setja þarf upp faglega mælikvarða til að koma í veg fyrir ofþjónustu. Samfara aukinni áherslu á heilsugæslu þarf að auka verk­ og ábyrgðarsvið hjúkrunarfræðinga sem fyrsta meðferðaraðila innan heilsugæslunnar. Grundvallarbreytingar á heilbrigðisstefnu þarf að vinna markvisst og í samstarfi við þá aðila sem eiga hlut að þjónustunni. Greina þarf faglegan og fjárhagslegan ávinning af fyrirhuguðum breytingum áður en þær eru gerðar. Í því sambandi má benda á skýrslu sem unnin var fyrir Heimavarnarliðið, grasrótarsamtök íbúa sem vilja standa vörð um heilbrigðisþjónustu á norðanverðum Vestfjörðum. Í skýrslunni kemur fram að þó fjárveitingar til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða verði skornar niður um 185 milljónir, eins og fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir, mun það aðeins skila tæplega 30 milljón króna raunverulegum sparnaði fyrir ríkissjóð! Heilbrigðismál eru einnig byggðamál. Við þær efnahagslegu aðstæður, sem þjóðin glímir nú við, þarf að gæta sérstaklega að samfélagslegum áhrifum allra stjórnvaldsákvarðana. Aðgengi að öruggri heilbrigðisþjónustu er eitt grundvallaratriðið þegar fólk velur sér búsetu. Heilbrigðisstofnanir eru fjölmennir vinnustaðir í dreifbýli og samdráttur þar hefur mikil áhrif á lífskjör fólks. Taka þarf tillit til þessara þátta við undirbúning breytinga á heilbrigðisstefnu. Komið hefur fram að gangi áætlanir um niðurskurð í heilbrigðisþjónustu eftir, eins og boðað er í fjárlagafrumvarpinu, munu alls 456 missa vinnuna á landsbyggðinni, þar af 369 konur eða 81%. Í hagræðingar­ aðgerðum undanfarinna ára hafa stjórn­ endur heilbrigðisstofnana einkum skorið niður í stærsta rekstrarliðnum, það er í hjúkruninni. Landsbyggðarsjúkrahús eru og verða enn frekar eftir boðaðar breytingar fyrst og fremst hjúkrunar­ sjúkrahús. Það er því full ástæða til að vara við frekari niðurskurði á hjúkrunar­ sviðum þessara stofnana og ástæða til að hvetja Landlæknisembættið, sem eftirlitsaðila með gæðum og öryggi heil­ brigðisþjónustunnar, til að fylgjast náið með áhrifum niðurskurðarins á þjónustuna. Ég óska hjúkrunarfræðingum og fjöl­ skyldum þeirra gleðilegra jóla og heilla á komandi ári. Ég þakka gott samstarf á árinu sem er að líða. HEILBRIGÐISSTEFNA OG BYGGÐASTEFNA Formannspistill Elsa B. Friðfinnsdóttir. Hefur þú skolað í dag? FLUX 0,2% NaF flúormunnskol Fyrir fullorðna og börn eldri en 12 ára FLUX Junior 0,05% NaF flúormunnskol Fyrir börn 6–12 ára FLUX Klorhexidin 0,12% klórhexidín og 0,2% NaF Fyrir fullorðna og börn eldri en 12 ára Sterkar tennur, fallegt bros – það er Flux! Nýjung! Nánari upplýsingar um Flux flúormunnskol er að finna á vefsíðu Actavis, www.actavis.is. Einnig er að finna góðar upplýsingar um notkun flúors og almenna tannhirðu á vefsíðu Lýðheilsustöðvar, www.lydheilsustod.is H V ÍT A H Ú SI Ð / S ÍA / A C TA V IS 0 19 00 3

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.