Þjóðmál - 01.09.2010, Blaðsíða 85
Þjóðmál HAUST 2010 83
Lítið álit hafði Gunnar líka á réttarkerfi
nasista . „Við hinn nasistíska hegningarrétt
fellur mér ekki,“ skrifaði hann Ólafi Thors
laust fyrir jól og ræddi ágallana svo nánar
í bréfi til Tómasar Jónssonar, eiginmanns
Sigríðar Thoroddsens:
Í fáum orðum má segja að hér sé varpað
fyrir borð flestum þeim grundvallarreglum
refsiréttarins sem okkur hafa verið innrættar
og sem eru uppistaðan í hegningarlöggjöf
flestra menningarlanda . Reglan nulla poena
sine lege [engin refsing án laga] er strikuð út
og analogíubannið afnumið [bann við að
beita lagaboði, sem lýtur að tilteknu efni, um
sambærileg tilvik]: Hér er ekki aðeins dæmt
eftir lögum heldur líka samkvæmt „gesundes
Volksempfinden“ [„heilbrigðri tilfinningu
fólksins“] og ef þetta tvennt rekst á ræður
hið síðarnefnda . Vernd einstaklinganna
gegn geðþótta ríkisvaldsins er engin enda
er það í samræmi við Weltanschauung
[lífsskoðun] nationalsozialismans sem segir
að einstaklingurinn hafi ekkert gildi, hann
fái fyrst þýðingu sem liður í þjóðarheildinni .
Allar refsingar eru þyngdar að mun .
Kröfunni um sakhæfi og saknæmi er ekki
fylgt stranglega, t .d . er því haldið fram að
geðveikum glæpamönnum eigi að refsa í
ýmsum tilfellum eins og heilbrigðir væru .
Yfirleitt lyktar þetta allt saman mikið af
militær-rétti og um margt horfið aftur til
harðýðgi og miskunnarleysis fyrri alda sem
maður hélt að væri yfirunnið .
Gunnar hafði óbeit á þessari grimmd og
lögleysu . Einræðið og „hið andlega ófrelsi“
sem ríkti á öllum sviðum samfélagsins sagði
hann jafnframt óþolandi og „háskalegt til
frambúðar“ . Engu að síður hreifst hann af
mörgum verkum nasistastjórnarinnar . „Hún
hefur aftur hafið þýsku þjóðina til jafnréttis
við aðrar þjóðir,“ sagði hann í skrifum sínum
til Ólafs Thors, „dregið stórkostlega úr
atvinnuleysinu og komið á aðdáunarverðri
röð og reglu og innanlandsfriði .“ Af
nasistum mætti ýmislegt læra – aga og
skipulag, einurð í baráttu við kommúnista
og eindregna þjóðernishyggju . „Hér fær
maður margar idéur,“ skrifaði Gunnar:
„Hver veit nema ég komi heim klyfjaður
frumlegum og nýjum hugmyndum .“ / . . . /
E nn sótti hann Café Unter den Linden á kvöldin en sat líka á Café König, frægu
kaffihúsi við breiðstrætið . Þar var mikið
teflt og tónlistin var yndisleg en mestri
upplifun varð Gunnar þó fyrir þegar hann
fór í óperuna og hlýddi á verk Verdis – Aida,
La Traviata og Il Trovatore: „Guð minn
almáttugur, Verdi, það er hið guðdómlega
gení . … Enginn kemst í hálfkvisti við Verdi,
allar þessar himnesku melódíur og aríur og
orchester-músíkin . Það eru engin orð til yfir
hrifningu mína .“
Gunnar féll í stafi yfir fegurðinni . En
í Þýska landi nasismans var illskan aldrei
langt undan . Í mars 1936 þrömmuðu her-
menn yfir í Rínarlönd, þann hluta ríkisins
sem átti að vera án vígbúnaðar samkvæmt
Versala samningunum í kjölfar fyrri heims-
styrjaldarinnar . Gunnar skrifaði heim á Frí-
kirkjuveg: „Hér er nú allt logandi í hrifningu
yfir hervæðingu Rínarlandanna og ræðu
Hitlers . Ég hlustaði á ræðuna í útvarpi og
hún var hreinasta meistaraverk . Vonandi
fær þetta ekki alvarlegar afleiðingar þó að
að ferð in hafi óneitanlega verið nokkuð
brutal .“
Snemma í apríl býr Gunnar Thoroddsen
sig svo til brottfarar frá Berlín . Þótt honum
hafi liðið ágætlega finnst honum borgin
hvorki falleg né geislandi af lífi . Ógnarstjórn
nasista er þrúgandi og foringjadýrkunin
yfirþyrmandi . „Nú vil ég sjá og finna
eitthvað nýtt,“ hugsar hann með sér . Leiðin
liggur senn heim til Reykjavíkur en fyrst
bíður hans annar áfangastaður: „Ég vil sjá
höfuðborg höfuðborganna, París, ó, hve ég
hlakka til þess .“