Þjóðmál - 01.06.2013, Síða 55
54 Þjóðmál SUmAR 2013
svo mjög og hvernig stæði á því að lönd á
borð við Grikkland, Spán, Ítalíu, Portúgal
og Írland væru í þeim vanda sem þau væru
í þrátt fyrir evruna . Frummælandinn brást
ókvæða við og frussaði því út úr sér að
þessi lönd hefðu verið með svo lélega efna-
hagsstjórn og að ekki væri hægt að kenna
evrunni um þau vandræði, við ættum bara
að bera okkur saman við lönd á borð við
Þýska land, Finnland og önnur slík þar sem
efna hagsstjórnin væri siðsamlegri . Þessi
herramaður virtist ekki átta sig á augljósri
rök semdavillu í málflutningi sínum, þ .e . að
léleg efna hagsstjórn kemur niður á þjóðinni
hvort sem evra eða króna er gjaldmiðill
landsins . Hann notaði lélega efnahagsstjórn
fyrr greindra Evrópuríkja sem rökstuðning
fyrir því að þau væru ekki marktæk sem
mæli kvarði á ágæti evrunnar en jafnframt
notaði hann lélega efnahagsstjórn Íslands
sem rök stuðning fyrir því að taka upp evru!
Ég fór til Spánar áður en evran var tekin
upp þar og gat keypt hluti frekar ódýrt á
meðan á dvöl minni stóð . Næst þegar ég fór
þangað eftir að evran mætti á svæðið höfðu
vörur hækkað umtalsvert . Þetta er raun veru-
l eg hætta sem fylgir gjaldmiðilsbreyt ingu,
að þeir sem selja vörurnar hækki vöruverð
um leið og gjaldmiðillinn breytist . Þá verða
faldar vöruhækkanir sem koma við veskið
hjá öllum; þetta er hætta sem aðlögunar-
sinnar hafa ekkert nefnt .
Eitt af því sem heillar marga við evruna er
þessi „stöðugleiki“ sem henni fylgi . Kannski
er það rétt að henni fylgi viss stöðugleiki,
en er það alltaf gott? Eitt af vopnum
þjóðar er að gengi geti aðlagast í takt við
efnahagsaðstæður . Nú æpa einhverjir og tala
um að við það færist peningar frá venjulegu
fólki til dæmis yfir til útflutningsfyrirtækja .
Það má vera að einhverju marki sé það rétt,
þegar gengið fellur erum við í þeirri stöðu
að geta dreift byrðinni á milli fólks, þegar
vöruverð erlendis lækkar til útflutningsaðila
líkt og sjávarútvegsins þá þýðir það að þau
fyrirtæki verða að gera eitthvað til að taka
við högginu . Það felst meðal annars í því að
lækka laun handvirkt eða segja upp fólki,
segja upp þjónustu við önnur fyrirtæki sem
kostar það að þau þurfi að segja upp fólki
og þar fram eftir götunum . Það er hin kalda
staðreynd sem fylgir einnig evrunni, þar er
ekki bara að finna sólskin og hamingju, það
geta t .d . 26% Spánverja vottað, þar á meðal
50% ungs fólks þar í landi sem er án atvinnu .
Það er enginn að segja að með inngöngu í
ESB aukist atvinnuleysið, en upptaka evru
kann að ýta undir það .
Vaxtagulrótin
Lægri vextir eru eini kosturinn sem inn-gangan á að hafa í för með sér . Hugs-
an lega var þetta að einhverju leyti rétt, en
eins og staðan er í dag hefur skuldastaða
ríkja mikil áhrif á vaxtastöðu þeirra . Það
er því ekki alveg öruggt að innganga hafi í
för með sér lægri vexti á húsnæðislánum,
enda er ólíklegt að einhver sé að fara að lána
peninga til að tapa á því . Einhver þarf alltaf
að borga og það er neytandinn sem greiðir
fyrir . Það er rétt að hafa í huga, að þótt vextir
lækkuðu og aðlöguðust að svipuðu stigi til
að byrja með á upphafsárum evrunnar hefur
þetta breyst verulega á síðustu árum . Vextir
hafa færst í sundur og eru mjög mismunandi
eftir löndum, en það fer að miklu leyti eftir
skuldastöðunni . Það ber líka að hafa í huga
að þegar ríki eins og Grikkland og fleiri ríki
tóku upp evru lækkuðu vextir hjá þeim
því að þau fengu eins konar traust að láni
frá Þýskalandi . Þetta gerði það að verkum
að Grikkir gátu tekið meira að láni á betri
kjörum og skuldir þeirra ruku upp . Þetta
á við um fleiri ríki á evrusvæðinu sem nú
glíma við erfiða skuldastöðu . Þarna gerðu
markaðsmistök evrunnar það að verkum
að þessar jaðarþjóðir voru álitnir betri
skuldunautar en þau raunverulega voru og
lánshæfismat þeirra var fyrir vikið ofmetið .