Skólavarðan - 01.12.2012, Qupperneq 22
22
Skólavarðan 2. tbl. 2012
Staða símenntunar kennara er ólík eftir skólastigum
• Hver leikskólastjóri ber ábyrgð á gerð símenntunaráætlunar
í sínum skóla og sækja leikskólakennarar símenntun
til ýmissa aðila. Samkvæmt kjarasamningi FL er enginn
tiltekinn tími innan vinnutíma leikskólakennara ætlaður til
endur- og símenntunar. Tækifæri til þátttöku er því algjörlega
háð samkomulagi milli leikskólakennara og yfirmanna og
fjármagninu sem skólinn hefur til umráða hverju sinni.
• Formleg endurmenntun grunnskólakennara nær aftur til
1988 en með kjarasamningi aðila frá 2001 færðist ábyrgð á
ráðstöfun símenntunarhluta grunnskólakennara meira til
skólastjórnenda en áður var. Símenntun grunnskólakennara
má skipta í tvo meginþætti. Annars vegar þá sem eru
nauðsynlegir fyrir skólann og hins vegar þá sem kennari
metur æskilega eða nauðsynlega fyrir sig. Skulu kennarar
skilgreina þarfir sínar fyrir endurmenntun og kynna
skólastjóra. Skólaskrifstofur, skólar og aðrir sem standa fyrir
námskeiðahaldi geta sótt um styrki til Endurmenntunarsjóðs
grunnskóla. Kennarar geta sótt styrki til símenntunar í
Vonarsjóð.
• Samstarfsnefnd um endurmenntun framhaldsskólakennara
hefur starfað frá 1987 og Endurmenntun HÍ séð um rekstur
og framkvæmd námskeiða í samvinnu við fagfélög þeirra.
Að auki skipuleggur sjálf nefndin námskeið og hefur t.d.
boðið upp á tuttugu áfanga til eininga á meistarastigi
fyrir starfandi kennara. Þessi námstilboð eru ýmist
kennslufræðileg eða fagtengd.
• Í kjarasamningum tónlistarskólakennara frá 2001 segir
að hver tónlistarskóli skuli setja sér áætlun um símenntun
kennara í skólanámskrá. Námskeið skulu tengjast störfum
tónlistarskólakennarans og nýtast honum í starfi. Að
auki verja tónlistarskólakennarar að hámarki 150 klst.
til undirbúnings- og símenntunar utan starfstíma skóla
og geta sótt styrki vegna þess til starfsmenntunarsjóðs
tónlistarskólakennara.
Þrjú skref í ferli hvers starfsmanns
Stefna samstarfsnefndarinnar er að horfa á þrjú skref í
starfsþróun hvers starfsmanns, í fyrsta lagi grunnnám til
starfsréttinda, sem lýkur nú með meistaragráðu, í öðru lagi
móttaka og stuðningur við kennara sem eru að taka sín
fyrstu skref í starfi og loks símenntun eða starfsþróun eftir að
grunnnámi lýkur. Talið er að þessi nálgun ýti undir að horft
sé á starfsþróun kennara sem samfellu og að þessir þrír þættir
myndi eina heild.
Erindisbréf og upplýsingaveita
Skólavarðan spurði Katrínu Jakobsdóttur hver yrðu næstu
skref ráðuneytisins til að ýta fagráðinu úr vör. Hún sagðist
myndu óska eftir tilnefningum hjá þeim sem skipa eiga ráðið,
í framhaldinu yrði ráðið skipað með formlegu erindisbréfi.
„Ég á svo von á því að ráðið taki til starfa eigi síðar en um
áramót. Ég vinn að því að tryggja fjármagn þannig að unnt
verði að halda utan um starfsemi ráðsins hér í mennta- og
menningarmálaráðuneytinu en eðlilega skýrist það ekki fyrr
en við lokaafgreiðslu fjárlaga á Alþingi.“
Í bígerð er að stofna vef sem yrði upplýsingaveita um
símenntunar- og fræðslutilboð, ætluð kennurum. Ritstjórn
upplýsingaveitu var mynduð en meginhlutverk hennar var
að leggja drög að stofnun upplýsingaveitu en dregist hefur
úr hömlu að koma henni á laggirnar. Ætlunin er að veitan
verði undir stjórn nýja fagráðsins, en ritstjórn mun sjá um
framkvæmd verkefna. Skólavarðan spurði ráðherra hvað væri
að frétta af upplýsingaveitunni og svaraði hún því til að þegar
fagráðið tekur til starfa fari væntanlega fljótlega að skýrast línur
um hvenær við getum átt von á því að upplýsingaveitan verði
sett á laggirnar. „Ég er sannfærð um að stofnun fagráðsins er
mikilvægur áfangi í starfsþróunarmálum kennara.“ sagði Katrín
Jakobsdóttir að lokum.
Skýrsla nefndar um endurskipulagningu endurmenntunar
kennara er aðgengileg á vef KÍ www.ki.is
málþing
„Ég á svo von á því að ráðið taki til
starfa eigi síðar en um áramót og
þá fara fljótlega að skýrast línur
um hvenær upplýsingaveita um
símenntunar- og fræðsluframboð
verði sett á laggirnar. Ég er sannfærð
um að þetta er mikilvægur áfangi í
starfsþróunarmálum kennara.“
Hvað er starfsþróun?
Með hugtakinu starfsþróun er átt við faglega færni og
þróun sem kennarar og skólastjórnendur byggja upp
með því að bæta stöðugt við fræðilega þekkingu sína,
reynslu og færni. Hugtakið felur í sér mun fleira en
það að sækja námskeið eða að stunda formlegt nám
eins og vill loða við skilning á hugtakinu símenntun.
Þar má nefna rannsóknir á eigin starfi, þátttöku í
þróunarverkefnum, að sækja ráðstefnur, að lesa sér
til og fara í skólaheimsóknir. Formlaust nám eins og
samtöl við samstarfsmenn, lestur fræðirita, notkun
fjölmiðla og netmiðla eru hluti af starfsþróun.
Gert er ráð fyrir að orðið starfsþróun leysi orðið
símenntun af hólmi smám saman.
Málstofa kennara um fagmál. Ljósmynd: GG