Orð og tunga - 01.06.2009, Page 43
Ásta Svavarsdóttir og Veturliði Óskarsson: Annarleg sprek ...
33
en riti því hlutfall þeirra er hæst í öðrum ritmálshluta textasafnsins,
reyndar þeim hluta sem geymir persónuleg og óformleg skrif sem að
jafnaði standa nær daglegu tali en formlegt ritmál. Umfang aðkomu-
orða í texta virðist því fremur ráðast af málsniði og stíl en miðlinum
sem slíkum.
Ýmislegt fleira en eðli textans getur haft áhrif á fjölda og tíðni að-
komuorða; t.d. er því oft haldið fram að ungt fólk noti fremur erlend
orð en þeir sem eldri eru. Hluti af áðurnefndu textasafni, þ.e.a.s. dag-
bókarfærslur sem voru uppistaðan í óformlega ritmálshlutanum, hef-
ur verið athugaður með tilliti til aldurs þeirra sem skrifuðu textann.
Þá var umfang og einkenni orða sem komin eru úr ensku borið saman
milli aldursflokka (Ásta Svavarsdóttir 2004b). í ljós kom að slík orð eru
talsvert algengari í textum yngri skrifaranna en þeirra eldri — hlutfall
þeirra er um 0,8% lesmálsorða hjá þeim sem eru undir fertugu en ein-
ungis um 0,4% hjá fólki yfir fertugu. Hlutfallið verður þó að teljast
lágt hjá báðum hópum; það jafngildir því að átta af hverjum þúsund
orðum í textum yngri skrifaranna séu ættuð úr ensku að ýmiss konar
nöfnum meðtöldum.
Niðurstöður rannsókna sem hér hafa verið raktar sýna að hæp-
ið væri að tala um „holskeflu" erlendra áhrifa þótt þær bendi vissu-
lega til þess að hlutfall þeirra fari vaxandi. Hins vegar má ljóst vera
að umfang orða af erlendum uppruna er mjög mismikið í íslenskum
textum og tali. Mun meira ber á slíkum orðum við óformlegar aðstæð-
ur, bæði í tali og riti, en í málnotkun við formlegri aðstæður og ungt
fólk notar þau í ríkara mæli en þeir sem komnir eru yfir miðjan ald-
ur. Þannig fæst t.d. allt önnur mynd af málinu ef eingöngu er litið til
óformlegra samskipta milli ungs fólks þegar það talar eða skrifar um
popptónlist eða tölvuleiki en ef einungis er horft á ritstjórnargreinar
eða fréttir í Morgunblaðinu. Hæpið er að líta á annað hvort sem full-
trúa fyrir íslenskt nútímamál í heild sinni, slík dæmi eru í besta falli
fulltrúar fyrir málnotkun í textum af svipuðu tagi. Munur textateg-
unda að þessu leyti er heldur ekki nýr af nálinni. Síðla árs 1921 skrif-
aði Halldór Laxness vini sínum Þórbergi Þórðarsyni bréf frá útlöndum
þar sem m.a. má finna þennan kafla (sbr. Pétur Gunnarsson 2007:128;
skáletrun greinarhöfunda):
báðar [greinarnar eru] hripaðar niður í logandi bráð og þó
einkum sú síðari, um trachomið, hún er til orðin í ógur-
legri inspiration út af hneykslinu heima í Reykjavík. Hvar