Náttúrufræðingurinn

Volume

Náttúrufræðingurinn - 2016, Page 73

Náttúrufræðingurinn - 2016, Page 73
145 Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags breiðir og samsíða stallar sem liggja hornrétt á hallastefnuna, ekki ósvipað tröppum, með nokkurn veginn jöfnum bilum, og ganga næstum upp að klettaveggjunum fyrir ofan, að undanskildu mjóu belti næst þeim. Úr fjarlægð virðast þessar brekkur vera alsettar fjölda af samsíða stígum. Slíkar fellingar hef ég aðeins séð í lágum og snarbröttum hlíðum sem eru þaktar gróðri alveg upp að klettum og er lítið eða ekki raskað af grjóthruni. Dæmigerða fellingahlíð (d. Rynkeli) sá ég við bæinn Foss á Síðu. Jarðvegur í þessum brekkum er svarðkenndur (d. Mosebund) og tiltölulega þunnur, nema við brekkufótinn. Hvernig þessar fellingar hafa myndast er ég ekki fær um að útskýra þar sem ég hef hvergi séð neitt sem túlka má sem byrjunarstig. Í svo bröttum brekkum gæti maður e.t.v. búist við að eigin þyngd jarðvegsins, kannski í tengslum við snjóþyngd, hefði orsakað þessar fellingar á frumstigi gróðurþekjunnar, en líklega verður að taka aðra þætti með í reikninginn. Gróðurþekja stallanna er ekki sú sama alls staðar, þar sem þrepið er vaxið þursaskeggi, axhæru, vallhæru og grastegundum að framan, en að ofan er gras-blómlendi, þar sem hálíngresi, hrútaber, stúfa, blágresi, mjaðjurt, brennisóley, gulmaðra o.fl. eru ríkjandi.3 Þar sem ég hef skoðað stalla- brekkur er ekki svona áberandi munur á gróðri á fleti stallanna og hliðum, og algengast tel ég að grasgróður sé ásamt talsverðum mosaþófa ríkjandi á hvorutveggja, þó út af því geti brugðið. Getur það m.a. stafað af minni beit nú á tímum. Jarðsil í Pétursey í Mýrdal Skýring Sigurðar Þórarins- sonar 1981 Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur var allra manna gleggstur á ýmis fyrirbæri í landslagi og lét ekki sitt eftir liggja að kynna þau fyrir almenningi. Árið 1981 birtist grein hans „Sitthvað úr Suðurlandsferðum“ í tímaritinu Jökli, þar sem hann segir frá land- myndunum sem hann var vanur að skoða með jarðfræðinemum í fræðsluferðum um Suðurland. Eitt þeirra er það sem hann kallar „Jarðsil sunnan í Eynni há,“ þ.e. Pétursey í Mýrdal, sem raunar er ekki eyja heldur móbergsfell (284 m y.s.) er stendur stakt á sléttunni suðaustur af Sólheimum. Þjóðbrautin liggur norðan við fellið og sést stallabrekkan því ekki þaðan, en akvegur er suður fyrir fellið, að bænum Eyjarhólum, og þaðan blasir stallabrekkan við. Sigurður útskýrir fyrst það fyrirbæri sem í jarðfræði nefnist „solifluction“ og hann kallar jarðsil. Það tengist frosti í jarðvegi, en einkum þó tíðum skiptum frosts og þíðu. Hér er um að ræða hægt sig eða sil jarðvegs undan halla, svo hægt að ekki nemur nema 10–20 1. mynd. Stallabrekka (paldrar) við Foss á Síðu. Ljósm. Snorri Baldursson, ágúst 2016.

x

Náttúrufræðingurinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Náttúrufræðingurinn
https://timarit.is/publication/337

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.