Náttúrufræðingurinn

Årgang

Náttúrufræðingurinn - 2016, Side 80

Náttúrufræðingurinn - 2016, Side 80
Náttúrufræðingurinn 152 Í kaflanum um landgrunnið, sem nær frá neðri mörkum fjöru út á 200 m dýpi er stuttur kafli um botnþörunga en langmest er af þeim við sunnan- og suðvestanvert landið. Tegundir voru 269 um aldamótin en á þessari öld virðist útbreiðslusvæði sumra þeirra vera að stækka. Rammagrein um kalkþörunga er áhugaverð. Þeir eru í sama áhættuflokki og kóralar gagnvart súrnun sjávar. Allar lífverur með kalk í skeljum eða húð eru sérlega viðkvæmar fyrir súrnuninni sem orsakast fyrst og fremst af auknum koltvísýringi í andrúmslofti. Í kaflanum um botndýr er fjallað um hryggleysingja og vitnað í hina yfirgripsmiklu rannsókn Botndýr á Íslandsmiðum sem hófst 1992. Hana vann alþjóðlegt teymi með þátttöku Íslendinga og var miðstöð þess í Sandgerði. Safnað var á landgrunninu og allt niður á 3000 m dýpi. Afrakstur var mikill – safnað var yfir 4,5 milljónum dýrum af rúmlega 2000 tegundum. Lýst hefur verið 46 nýjum tegundum og 845 tegundir fundust í fyrsta skipti við Ísland. Enn er ekki búið að vinna úr gögnunum né taka saman heildstætt rit. Snorri bendir á að svipað sé að segja um rannsóknir á grunnsævi sem oft hafa verið unnar í tengslum við umhverfismat. Niðurstöður má finna í skýrslum en rannsóknaraðferðir eru ekki nægilega vel samræmdar. Áhugaverð rammagrein er um miklar stofnsveiflur skollakopps og neikvæð áhrif á þaraskóga (bls. 130), en þessa varð fyrst vart 1993 í Eyjafirði. Minnst er á nýlega könnun sem gerð var á meira dýpi, eða 300–400 m, þar sem vel sjáanleg dýr voru mynduð og greind. Þar á meðal voru kóralsvæði skoðuð og kemur fram að líklega hafi mikið af þeim skemmst vegna togveiða. Mikið líf þrífst í kringum kóralana og er mikilvægt að vernda þessi svæði. Einnig er áhugavert að lesa um samspil sjávarstrauma og neðansjávarhryggjarins milli Grænlands og Íslands sem er um 1000 m hár (á 620 m dýpi að meðaltali) og heldur síðan áfram til Færeyja (á 480 m dýpi). Búsvæðin norðan hryggjarins eru köld og tegundasnauð en mun hlýrri og tegundaauðugari búsvæði eru að finna sunnan við hrygginn. Í kaflanum um nytjategundir hryggleysingja er lýst útbreiðslu og lífsháttum rækju, humars, hörpudisks og kúfskeljar og sagt frá veiðum. Sumir stofnarnir hafa verið ofveiddir (rækja, hörpudiskur) en aðrir blómstra í hlýrri sjó (humar). Kúfskelin er lítið nýtt. Áhugavert er að vita að líklega verður hún allra dýra elst, eða yfir 500 ára.5 Næsti kafli fjallar um botnfiska. Þar kemur fram að rannsóknir á fiskum í þaraskógunum eru mjög takmarkaðar en aftur á móti hafa miklar upplýsingar fengist í vor- og haustralli Hafrannsóknastofnunar sem hófust 1985. Um aldamótin voru útbreiddustu tegundirnar (af alls 169) skrápflúra og þorskur en mest var af ýsu og spærlingi. Rannsóknir sýna líka að í sjónum standa yfir breytingar á tegundasamsetningu og útbreiðslu, líklega vegna hækkandi hita. Í rammagrein kemur fram að stofnerfðafræðilegar rannsóknir bendi sterklega til að íslenski þorskurinn skiptist upp í a.m.k. tvo stofna sem eru að ýmsu leyti ólíkir, t.d. hvað varðar aðlögun að hitastigi og gönguhegðun. Í sérkafla um þorsk er ýtarleg umfjöllun um þennan mikilvæga fisk – lífshætti hans, hvernig nytjar hafa haft áhrif á stofninn, og hversu nauðsynlegt er að skilja hvað aldursbundin hegðun hrygna og lífslíkur seiða undan misstórum hrygnum þýða fyrir afkomu stofnsins. Í stuttum kafla um nýtingu sjávarafla er sögulegt ágrip um sjávarútveg og markmið fiskveiðistjórnunar, og má þar sjá línurit um afla síðustu 100 árin. Fjallað er um hvali og hvalveiðar og seli og selveiðar í sérkafla um sjávarspendýr. Þar er góð tafla um stofnstærðir hvalategunda (bls. 148). Áhersla er lögð á meint áhrif hvala á fiskistofna og gerð er grein fyrir fæðu hvalanna í því samhengi. Áætlað hefur verið að hvalir éti jafnmikið af fiski hér við land og metafli okkar hefur verið á ársgrunni, eða um 2 milljónir tonna. Sérfræðingar í líkanasmíð hafa komist að mismunandi niðurstöðum, en ekki ríkir einhugur um forsendur líkananna og þekkingu vantar. Er því erfitt að segja til um hvað gerist í vistkerfunum. Hópar sérfræðinga áætluðu 2010 að í N-Atlantshafi skiptist heildarafrán á fiskum þannig að fiskar éti 50–75%, menn 10–40%, hvalir 5–20% og sjófuglar 3–5%. Sjö tegundir hreifadýra hafa fundist við landið en aðeins landselur og útselur kæpa. Báðir stofnar hafa minnkað mikið síðustu 25 árin og hafa veiðar, dráp vegna ætlaðra neikvæðra áhrifa hringorma og truflun af mannavöldum líklega átt mestan þátt í því. Rammagrein um seli og hringorma (bls. 153) er upplýsandi og sýnir að nauðsynlegt er að styðjast ætíð við vísindaleg rök og vitneskju auk siðferðilegra sjónarmiða þegar um er að ræða dráp á dýrum í því skyni að ,stjórnaʻ gangi vistkerfanna. Í síðasta kaflanum um lífríki sjávar er fjallað um sjófuglana. Til þeirra teljast 30 tegundir úr fimm ættum og er talið að fjöldi einstaklinga síðsumars sé 15–18 milljónir. Skýringarmynd á bls. 157 sýnir vel hvernig sjófuglar tengja vistkerfi lands og sjávar. Snorri greinir frá niðurstöðum fæðurannsókna á skörfum og bjargfuglum (svartfuglar, rita og fýll) en lítið er vitað um fæðu annarra sjófugla. Þekking á stofnstærðarbreytingum er brotakennd vegna takmarkaðra rannsókna, enda erfitt um vik við slíkar rannsóknir. Dílaskörfum hefur fjölgað en topp– skörfum fækkað. Mávum hefur fækkað á þessari öld eftir öra fjölgun á þeirri síðustu (svartbaki fór að fækka mun fyrr). Stofnar bjargfugla hafa minnkað mikið á þessari öld. Góðar skýringarmyndir eru dregnar upp af þessum stofnbreytingum. Þar vantar þó lundann, langalgengasta svartfuglinn, því að gögn um heildar– fjölda lunda við landið eru ekki til. Ljóst er að lundanum hefur gengið illa að verpa og koma upp ungum í mörg ár. Fæðuskortur hefur greinilega haft mikil áhrif. Mikilvægt er að afla aukinnar þekkingar á breytingum á vistkerfi sjávar og viðbrögðum fuglanna við þeim. Kafli 4. Lífríki ferskvatns (bls. 164–235) Í þessum viðamikla kafla er byrjað á að flokka vötn og votlendi niður á sama hátt og Arnþór Garðarsson lagði til 1998.6 Í samræmi við það er fjallað um stöðuvötn, lífríki þeirra, líf á botni,

x

Náttúrufræðingurinn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Náttúrufræðingurinn
https://timarit.is/publication/337

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.