Morgunblaðið - 29.10.2016, Síða 56
56 UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 29. OKTÓBER 2016
Þekkir einhver orðið lárpera? Örugglega eru margir sem hafaekki hugmynd um hvað orðið merkir og hafa jafnvel aldreiheyrt það. Aðrir spyrja hvers vegna ekki megi nota orðiðavocado sem er þjált og gott orð yfir lárperu?
Suma daga þykir mér íslenskan tefja fyrir í íslensku samfélagi og
kosta okkur heil ósköp. Það þarf að íslenska nafnið á hverju nýju
kryddi og ávöxtum, þýða allar reglugerðir frá Brussel, íslenska lykla-
borð, tölvumálið og kennslubækur, kenna innflytjendum tungumálið
og hugsið ykkur hvað mætti gera við allan þann pening hjá RUV sem
fer í að texta og talsetja. Já, suma daga hallast ég að því að það sé eins
og hver önnur þráhyggja að halda við tungumáli sem færri en milljón
manns eiga að móðurmáli.
Daginn sem ég er alveg að gefast upp á íslenskunni verður á vegi
mínum bókin Íslenskar
fléttur og þá renna á mig
tvær grímur. Engja-
skófarætt er fyrsti kaflinn
sem ég les. Þar er sagt frá
blikskóf, klettaskóf, þélu-
skóf og glitskóf sem eru lýs-
andi og falleg orð. Náttúru-
fræðingar hafa eytt ómældum tíma í að finna íslensk orð yfir heiti allra
tegunda. Sveppirnir heita allir íslenskum nöfnum eins og smálubbi og
kúalubbi sem hljóma kunnuglega en mókempa, ilmglætingur og lyng-
trektla ylja mér um hjartarætur. Mikið eru þetta fallegri orð og
skemmtilegri en latnesku heitin sem ekki er nokkur leið að muna. Og
hvað með öll ljóðin og náttúrulýsingarnar? Hvernig ætlar fólk að tala
um íslenska náttúru á öðru tungumáli? Hvað með goluna sem strýkur
kinn, lækinn sem hoppar og hjalar og smávinina fögru sem eru foldar
skart í ljóði Jónasar?
Vitandi það að sumir íslenskir unglingar kæmu mun betur út úr
Pisaprófinu fengju þeir að leysa verkefnin á ensku en á íslensku, þá
hugsa ég um hvað gerist næstu ár. Verður íslenska tungumál mál-
hreinsunarsinna og sérvitringa eða verður hún aðalmál unga fólksins
líka? Við höfum þráast við að tala íslensku frá landnámi þrátt fyrir að
hafa verið undir hæl Dana í margar aldir, lifað við fátækt, hafís og eld-
gos, setið uppi með her í landinu í marga áratugi og þolað innrás ensku
á öllum sviðum í sjónvarpi og fjölmiðlum. Fyrst íslenskan lifir enn trúi
ég því að hún muni standa allt af sér um ókomin ár ef, já það er eitt ef,
ef við viljum það sjálf.
Að þessu sögðu ætla ég að þráast við og nota íslensku hvar sem því
verður við komið. Það krefst þess að ég lesi á íslensku, ég tali hægar,
hugsi meira og leiti stundum að íslenskum orðum. Í staðinn fyrir re-
sept nota ég orðið lyfseðill sem er miklu þjálla orð og gagnsærra, vista
öll mín skjöl í stað þess að seiva, reyni að finna íslenskt orð sem nær
yfir merkingu orðsins koncept og hleð niður efni í stað þess að dávn-
lóda. Í matvörubúðinni spyr ég svo brosandi um lárperu og gef mér
tíma til að skýra uppruna orðsins og merkingu ef á þarf að halda.
Þekkir einhver
orðið lárpera?
Tungutak
Lilja Magnúsdóttir
liljam@simnet.is
Á íslensku Bjúgaldin, lárpera og loðber.
Línurnar í þingkosningunum sem fram fara ídag eru alveg skýrar eftir fund stjórnarand-stöðuflokkanna í fyrradag. Að honum lokn-um kom fram, að Píratar, VG, Samfylking
og Björt Framtíð, stefna á myndun ríkisstjórnar í
kjölfar kosninganna. Það er í sjálfu sér jákvætt að það
liggi fyrir. Kjósendur vita þá að hverju þeir ganga.
Áhrif slíkrar stjórnarmyndunar verða m.a. þau að
slík ríkisstjórn mun efna til þjóðaratkvæðagreiðslu,
annaðhvort næsta vor eða samhliða sveitarstjórnar-
kosningum vorið 2018 um það hvort halda beri áfram
viðræðum við Evrópusambandið um aðild Íslands.
Núverandi ríkisstjórn og stjórnarflokkar geta sjálf-
um sér um kennt vegna þess að þeir ganga frá málinu
hálfkláruðu og hafa skilið þennan möguleika eftir fyr-
ir aðildarsinnaða ríkisstjórn.
Hið rétta er auðvitað að efna til þjóðaratkvæða-
greiðslu um það hvort þjóðin vilji aðild að Evrópusam-
bandinu eða ekki, en hún var aldrei spurð sumarið
2009. Sá flokkur hugsanlegrar vinstristjórnar sem
verður knúinn til að horfast í augu við sjálfan sig, þeg-
ar að þessu kemur er Vinstri grænir.
Þeir gengu til þingkosninganna 2009
með skýra yfirlýsingu um að aðild Ís-
lands að ESB kæmi ekki til greina en
sviku þau loforð til að tryggja sér aðild
að ríkisstjórn með Samfylkingu. Taki
Vinstri grænir þátt í þeim leik á næstu
misserum að efna til þjóðaratkvæða-
greiðslu um hvort halda skuli áfram
viðræðum eru verulegar líkur á að það
leiði til klofnings flokksins.
Annað stórt mál, sem augljóst er að
ríkisstjórn af þessu tagi mun taka upp
og leitast við að lögleiða er að breyta gjaldtöku vegna
nýtingar auðlindarinnar í hafinu á þann veg að í stað
veiðigjalda verði veiðiheimildir boðnar upp. Þetta
álitamál hefur verið til umræðu frá því að vinstri-
stjórn Steingríms Hermannssonar gaf framsal veiði-
heimilda frjálst árið 1990 og skapaði með þeirri
ákvörðun aðstæður til þess að fyrstu milljarðamær-
ingarnir á Íslandi yrðu til.
Við Morgunblaðsmenn þeirra tíma tókum upp bar-
áttu fyrir því að veiðigjöld yrðu tekin upp á sama tíma
og Alþýðuflokkurinn barðist fyrir uppboðsleiðinni. Við
höfðum m.a. áhyggjur af því að síðarnefnda leiðin yrði
til þess að allar veiðiheimildir söfnuðust á hendur ör-
fárra fyrirtækja í sjávarútvegi. Eftir miklar svipt-
ingar gerði landsfundur Sjálfstæðisflokksins auðlinda-
gjöld að grundvallarstefnu sinni en framkvæmdin
varð hins vegar á þann veg að þau voru augljóslega of
lág. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hækkaði þau
verulega og það mikið að ástæða var til að ætla að þá
væri gengið of nærri litlum útgerðum og meðal-
stórum.
Það eru meiriháttar mistök hjá útgerðarmönnum að
hafa ekki notað síðustu ár til að ná samkomulagi um
veiðigjöld sem þorri þjóðarinnar væri sáttur við. Af-
leiðingin, verði af myndun ríkisstjórnar Pírata og
vinstriflokkanna, verður sú að stórstríð er framundan
um uppboðsleiðina. Líklegt má telja að slík ríkisstjórn
muni framfylgja þeim hugmyndum, sem fram komu í
undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar um að auka
framlög til heilbrigðismála upp í 11% af vergri lands-
framleiðslu og lækka verulega gjaldtöku á sjúkling-
um. Um þetta markmið er tæpast pólitískur ágrein-
ingur en hið skrýtna er að núverandi stjórnarflokkar
skuli ekki hafa stigið fyrstu skrefin í átt til þess á
þessu hausti, sem þeir höfðu augljóslega tækifæri til
og hefðu þar með slegið vopn úr höndum vinstriflokk-
anna.
Auk heilbrigðismála hafa málefni aldraðra og ör-
yrkja verið helzt á dagskrá kosningabaráttunnar. Þeir
flokkar sem mundu standa að hugsanlegri ríkisstjórn
Pírata og vinstriflokkanna hafa lofað
miklu í þeim efnum. Þó er ljóst að það
verður erfitt að gera hvort tveggja í senn
að standa við þau fyrirheit og endurreisa
heilbrigðiskerfið. Sjálfur skil ég ekki
hvers vegna ástæða er talin til að greiða
þeim í hópi aldraðra bætur frá almanna-
tryggingum, sem hafa viðunandi lífeyri úr
lífeyrissjóðum en fram kom í Fréttatím-
anum að fjöldi þeirra, sem missi svo-
nefndan grunnlífeyri vegna nýorðinna
lagabreytinga sé um 4.200 manns.
Auk þessara málefna, sem öll hafa verið
til umræðu í kosningabaráttunni er ljóst að endur-
skipulagning fjármálakerfisins hlýtur að komast á
dagskrá á nýju kjörtímabili. Þau mál hafa of lítið verið
til umræðu. Þó er ljóst að bankakerfið er alltof stórt
og tekur of mikið til sín. Það er ekkert vit í að ræða
nýja einkavæðingu bankanna áður en grundvallar-
ákvarðanir hafa verið teknar um aðlögun þessa kerfis
að íslenzkum veruleika. Það snýst m.a. um aðskilnað
viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.
En athyglin hlýtur líka að beinast að lífeyrissjóð-
unum. Annars vegar að því að tryggja með lögum rétt
félagsmanna lífeyrissjóðanna til að kjósa sjálfir
stjórnir sjóðanna í stað þeirrar fámennisstjórnar, sem
þar ríkir nú og skapar augljósa hættu á eins konar
„ólígarkíi“ milli vinnuveitenda, verkalýðshreyfingar,
æðstu starfsmanna sjóðanna og æðstu starfsmanna
banka og annarra fjármálafyrirtækja.
Og hins vegar að þeim augljósu hagsmuna-
árekstrum sem felast í ráðandi eignaraðild lífeyris-
sjóða að fyrirtækjum, sem eiga að vera í samkeppni
sín í milli en eru það tæpast eins og eignaraðild þeirra
hefur þróast.
Þetta síðastnefnda mál hefur því miður ekki verið
til umræðu í kosningabaráttunni að því marki að auð-
velt sé að átta sig á skoðanamun á milli flokka þegar
að þessum stóra þætti í viðskiptalífi okkar kemur.
Línurnar eru skýrar
Það hefur of lítið
verið rætt um
endurskipulagn-
ingu fjármála-
kerfisins í kosn-
ingabaráttunni.
Af innlendum
vettvangi …
Styrmir Gunnarsson
styrmir@styrmir.is
Þeir Ólafur Björnsson prófessorog Steinn Steinarr skáld voru
mágar: Steinn var kvæntur Ásthildi,
systur Ólafs. Vart gat ólíkari menn.
Ólafur var virðulegur í fasi, talaði
hægt og dró seiminn, ætíð hófsamur,
prófessor í hagfræði og þingmaður
Sjálfstæðisflokksins. Steinn var
smávaxinn, kaldhæðinn, en tilfinn-
ingaríkur, róttækur á yngri árum,
en var að vísu rekinn úr komm-
únistaflokki Íslands, stundaði orð-
fimar öfgar, hafði sjaldnast fasta
vinnu og bjó um skeið með konu
sinni í bragga, þótt ekki væri bein-
línis hægt að kalla hann utangarðs-
mann, því að hann átti marga vini og
velunnara.
Ég er að skrifa æviágrip Ólafs fyr-
ir tímaritið Andvara og ræddi þess
vegna við menn, sem þekktu báða,
þar á meðal við Ólaf Ólafsson land-
lækni, náfrænda Ólafs. „Þeim Steini
kom ágætlega saman,“ sagði Ólafur.
„Ólafi lynti við alla.“ Og þótt ein-
kennilegt megi virðast, tengdi fleira
þá saman en Ásthildur. Ólafur hafði
verið róttækur í skoðunum ungur og
meðal annars sest í stjórn sósíalista-
félags í Kaupmannahöfn haustið
1936. En árið var ekki liðið, þegar
Ólafur skipti um skoðun. Hafði hann
kynnst ritum austurrísku hagfræð-
inganna Lúðvíks von Mises og Frið-
riks Hayeks, en þeir leiddu rök að
því, að miðstýrður áætlunarbúskap-
ur, þar sem ríkið ætti allt fjármagn
og tæki ákvarðanir um ráðstöfun
þess, fengi ekki staðist til lengdar,
því að þar skorti nauðsynlegar upp-
lýsingar til útreikninga og mats á
möguleikum.
Steinn snerist hins vegar gegn
sósíalismanum eftir fræga ferð til
Rússlands sumarið 1956. Blöskraði
honum stjórnarfarið, skorturinn,
einstefnan. „Ég held, að það sé eins
konar ofbeldi, ruddalegt, andlaust
og ómannúðlegt,“ sagði hann við ís-
lensk blöð. Í kvæði, sem Steinn orti
um sósíalismann, var niðurstaðan:
„Með hálfum sannleika berst ég
gegn algerri lygi.“ Það spillir ekki
fyrir, að þessi vísuorð eru fengin frá
Arthur Koestler. Þau geyma í sér
kjarna þeirrar efahyggju, sem er
undirstaða frjálshyggjunnar. Eng-
inn veit allt, og þess vegna má eng-
inn öðlast allt vald. Við hljótum að
leita sannleikans og hafa það jafnan,
sem sannara reynist, en Stórisann-
leikur er ekki til. Ólafur hafði komist
að sömu niðurstöðu löngu áður af
lestri fræðirita. Þessir ólíku menn
höfnuðu báðir hinni algeru lygi.
Sannleiksástin sameinaði þá.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is
Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð
Ólíkir mágar – og þó!Sameinar það besta í rafsuðu
Smiðjuvegi 66 • Kópavogi • 580 5800 • www.landvelar.isFuruvöllum 3 • Akureyri • 461 2288