Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.08.2000, Blaðsíða 12
misskilnings um hvenær eigi að nota neyðargetnaðarvörn.
Rannsókn Schering frá 1994 sýndi að aðeins 22% vissu
hvenær rétti tíminn væri til að taka inn lyfið (sjá í
Goldsmith, 1995). Nefnir Glasier að sumar konur haldi að
það verði að taka lyfið strax eftir samfarir, annars verki það
ekki. Sérstaklega reyndist heitið pillan daginn eftir (morn-
ing-after pill) villandi hvað þetta snertir (Glasier, 1995). í
þessum tilvikum má gera ráð fyrir að konurnar hafi litið svo
á að þær væru orðnar of seinar til þess að gera ráðstafanir
ef meira en sólarhringur leið frá samförunum.
Þó að þekking þeirra, sem eiga að veita þjónustu
varðandi neyðargetnaðarvörn, hafi batnað sýna nýlegar
rannsóknir að margir heilbrigðisstarfsmenn hafa enn ekki
nægjanlega vitneskju um lyfið, t.d. um aukaverkanir og
tímatakmarkanir þess (Burton og Savage, 1990). Fram
kom í rannsókn Grossman og Grossman (1994) á ávís-
unum helstu hópa lækna í Bandaríkjunum á neyðar-
getnaðarvörn að þeir veittu mjög takmarkaða fræðslu um
hana. Náði rannsóknin til 294 lækna. í Ijós kom að í 90%
tilvika sögðust læknarnir ekki eða sjaldan ræða við skjól-
stæðinga sína um neyðargetnaðarvörnina og aðeins 10%
þeirra sögðust hafa fræðsluefni um hana til að afhenda
skjólstæðingum sínum.
Neikvæð viðhorf
Talið er að rekja megi hindranir í notkun neyðargetnaðar-
varnar að einhverju leyti til siðferðilegra gilda gagnvart
kynhegðun fólks. Hugleiðingar hafa verið um það að
neyðargetnaðarvörn gæti valdið kæruleysi í kynlífi (Glasier,
1995). Það teldist gott að nota getnaðarvarnir fyrir kynmök
en ekki að nota þær eftir á (Belfield og Walsh, 1995).
Hætta væri á því að konur og ekki síst ungar stúlkur yrðu
kærulausar í kynllfi ef þær gætu bjargað málum við daginn
eftir. í Ijósi þessa kæruleysis mundi aukast hætta á smiti af
völdum kynsjúkdóma. Eins gæti þetta aukna frjálsræði í
getnaðarvörnum leitt til þess að konur/stúlkur mundu
eingöngu nota neyðargetnaðarvörn. Þeim væri því ekki
treystandi til að nota neyðargetnaðarvamir á skynsam-
legan hátt. Segja má að viðhorfin endurspegli það að
konur séu óvirkir og ósjálfstæðir einstaklingar.
Misskilnings hefur gætt í því að margir hafa talið þessa
aðferð fela í sér fóstureyðingu. Það er hins vegar stað-
reynd að neyðargetnaðarvörn hefur áhrif áður en eggið
festist í leginu en ekki eftir að það er búið að taka sér
bólfestu þar. Samkvæmt þeirri skilgreiningu að þungun
hefjist við það að frjóvgað egg festist í leginu þá er notkun
neyðargetnaðarvarnar ekki fóstureyðing (Grimes, 1997).
Þau viðhorf hafa komið fram að neyðargetnaðarvöm yrði
ofnotuð. Það er skoðun Glasier (1995) að þó að allar konur
vissu um tilvist neyðargetnaðarvamar og hvar ætti að
nálgast hana þá mundu margar þeirra ekki nota hana. Að
sögn Kettings (1995) hefur verið gott aðgengi að neyðar-
getnaðarvörn í Hollandi. Telur hann að eftirspurn hafi náð
136
nokkru jafnvægi og sé lítil. Aðeins um ein af hverjum
hundrað konum, sem séu kynferðislega virkar, biðji árlega
um neyðargetnaðarvörn. Það er því ekki talið líklegt að allar
konur æði af stað til að ná sér í neyðargetnaðarvöm þó hún
sé gerð aðgengileg. Hins vegar sé mjög eðlilegt að hver
kona geti metið það sjálf hvenær hún þarf nauðsynlega á
henni að halda. Fram kom í rannsókn Grossman og
Grossman (1994) að heimilislæknar ávísuðu að meðaltali
1,8 sinnum á ári á neyðargetnaðarvörn en læknar á
slysadeildum 5,8 sinnum á ári. Þessi hærri tíðni á slysa-
deildum var einkum vegna nauðgunarmála. Meðalfjöldi
ávísana lækna var 3,4 á ári. Það er álit rannsakenda að þó
að rannsóknin hafi ekki náð til nema 294 lækna gefi niður-
stöður vísbendingu um að sjaldan sé skrifað upp á neyðar-
getnaðarvörn. Ein skýring á þessum lága fjölda ávísana stafi
líklega af því að Matvæla- og lyfjaeftirlitið í Bandaríkjunum
(Food and Drug Administration (FDA)) hafi ekki verið búið að
leggja blessun sína yfir lyfið á þessum tíma. Höfundar telja
að þessar fáu ávísanir sýni hversu almenningur hafi þá verið
illa upplýstur um þessa leið til getnaðarvamar.
Einnig virðist hafa ríkt misskilningur um að notkun
neyðargetnaðarvarna mundi draga úr notkun öruggra
getnaðarvarna. Skosk rannsókn sýndi hins vegar að greitt
aðgengi að neyðargetnaðarvörn drægi ekki úr notkun
venjuiegra getnaðarvarna. Rannsóknin náði til tveggja
hópa kvenna, alls 500 kvenna, sem notuðu getnaðar-
varnir. Annar hópurinn fékk aðeins upplýsingar um neyðar-
getnaðarvörn en hinn hópurinn fékk sömu upplýsingar
ásamt neyðargetnaðarvarnarpillum sem konurnar gátu
gripið til þegar á þurfti að halda. Ekki reyndist marktækur
munur á hópunum varðandi notkun venjulegra getnaðar-
varna. Sá hópur, sem hafði fengið bæði upplýsingar og
neyðargetnaðarvarnarpillur, notaði neyðargetnaðarvörn
ekki meira en hinn hópurinn (Glasier og Baird, 1998).
Viðkvæmt málefni
Gera má ráð fyrir að á undanförnum áratugum hafi verið
einhver vitneskja meðal fólks um neyðargetnaðarvörn þó
óljós væri. Þrátt fyrir að einhverjar konur hafi væntanlega
vitað um neyðargetnaðarvörnina hafa þær kannski hikað
við að leita til læknis með erindi um yfirvofandi óvelkomna
þungun vegna þess að málið væri í eðli sínu mjög við-
kvæmt (Belfield og Walsh, 1995; Glasier, 1995). Þær hafa
kannski ekki viljað opinbera persónulega kynlífsreynslu
sína og eiga kannski í vændum að fá gagnrýnið augnaráð
og skilaboð um að þær hafi gert eitthvað rangt. Glasier
(1995) getur þess að flestum þyki erfitt að ræða um kynlíf
sitt og einkum þegar ræða þarf um ákveðna þætti samfar-
anna. Konum finnist oft mikil skömm að hafa haft óvarðar
samfarir eða að smokkur hafi brugðist. Belfield og Walsh
(1995) geta þess að margar konur hafi áhyggjur af því að
trúnaðar sé ekki gætt. Þær séu kvíðnar yfir því að við-
kvæm einkamál spyrjist út.
Tímarit hjúkrunarfræðinga • 3. tbl. 76. árg. 2000