Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.08.2000, Blaðsíða 28
feðrum barna með sérþarfir upplýsingar um viðkomandi
sjúkdóm og meðferð hans með hjálp Internetsins og voru
niðurstöður kynntar á ráðstefnunni. Rannsakendur: David N.
Ekstrom, P. Gilleaudeau, E. Pottoore, J. Shepard.
Hvers vegna fara ungar konur í brjóstastækkun?
Brjóstastækkunaraðgerðum hefur farið fjölgandi hér á
landi á undanförnum árum. Viðhorf almennings sem og
heilbrigðisstétta til slíkra aðgerða eru mjög blendin og því
þótti full ástæða til að kynnast nánar hvað lægi að baki
ákvörðun um að fara í slíka aðgerð. í rannsókn á nokkrum
íslenskum konum, sem höfðu farið í brjóstastækkun,
kemur fram að þarna eru ýmsar ástæður að baki en
jafnframt að konunum fannst aðgerðin nauðsynleg til að
bæta líf sitt. Rannsakendur: Kristín Sigurðardóttir, G.
Ólafsdóttir, H. Þorgilsdóttir.
Minni árangur af endurhæfingu eftir hjartauppskurð hjá
konum en körlum
Uppbygging endurhæfingar eftir hjartauppskurð hefur
hingað til að mestu verið miðuð við karla enda mun
algengara að karlar fari í slíka aðgerð. Könnun á árangri
slíkrar meðferðar hjá konum sýndi að endurhæfing, sem
miðast við þarfir karla, hefur ekki tilætluð áhrif hjá konum
og að nauðsynlegt er að vera með kynbundna endur-
hæfingarmeðferð eigi konur að hafa jafnmikið gagn af
henni og karlar. Rannsakandi: Bengt Fridlund.
Líðan eftir legnám
Margar konur óttast legnám jafnvel þótt þær fái að vita að
við það losni þær við verki og miklar blæðingar. Margar telja
að það muni leiða til breytinga sem þær geta ekki sætt sig
við, m.a. að þetta hafi áhrif á kynlíf þeirra, og kjósa því heldur
að þjást. En nýleg íslensk rannsókn á líðan kvenna, sem farið
hafa í legnám, sýnir að eftir aðgerðina finna þær mikinn mun
á líðan sinni til hins betra. Rannsakendur: Bryndís Þorvalds-
dóttir, Margrét Pálsdóttir, Súsanna Davíðsdóttir.
Ungar konur og þunglyndi
Hvers vegna verða ungar konur þunglyndar? í íslenskri rann-
sókn er talað við íslenskar konur sem þjáðst hafa af þung-
lyndi, þær m.a. spurðar hverjar þær sjálfar telji vera ástæð-
una fyrir þunglyndi, hvort koma hefði mátt í veg fyrir það og
þá hvernig. Rannsóknin sýnir að konur, sem orðið hafa fyrir
miklum áföllum og búa við álag, eiga á hættu að verða
þunglyndar. Konurnar töldu að ef þær hefðu fengið stuðning
á þeim tíma sem fyrstu einkenni fóru að gera vart við sig
hefði sjúkdómurinn líklega ekki náð að þróast þar til hann var
orðinn alvarlegur. Rannsakendur: Þórunn Guðmundsdóttir,
Kolbrún M. Haukdal Jónsdóttir, Valgerður Hermannsdóttir.
Er miðlun mikilla upplýsinga alltaf til góðs?
Sjúklingar hafa gjarnan kvartað yfir því að fá ekki nægilega
miklar upplýsingar um ástand sitt. En hefur það betri áhrif
að veita sjúklingum ýtarlegar upplýsingar um meðferð áður
en þeir fara í hættulegar aðgerðir? Rannsókn, sem miðaði
að því að fá svar við þessari spurningu, gefur vísbendingu
um að svo sé ekki. Rannsakendur: Marjolein J. van Vliet,
M. Grypdonck, J.A.M. Winnubst, F.L. van Zuuren.
Einsemd ungs fólks
Áhyggjuefni er að ungt fólk virðist í vaxandi mæli vera
einmana en getur einsemdin verið af hinu góða? Kannað
var hjá ungu fólki hvaða áhrif einsemd hefði á líf þess,
hvernig það skynjaði einmanaleikann og hvernig einmana-
leiki tengist heilsufari þessa fólks. í Ijós kom að tala má um
einmanaleika sem hefur slæm áhrif en einnig einmanaieika
sem getur leitt til nokkurs þroska. Því má líta svo á að
einmanaleiki geti haft góðar afleiðingar. Rannsakendur:
Lisbet Lindholm, Unni Lindström, Ebba Granström.
Árangur „kinaesthetic" hreyfimeðferðar
Sjúklingar sem hafa farið í hjartauppskurð eiga við ákveðin
öndunarvandamál að glíma í kjölfar uppskurðarins.
Ákveðinni tækni er beitt til að hjálpa þeim en ef
hjúkrunarfræðingar beita ,,kinaesthetic“ hreyfimeðferð virð-
ist hægt að ná enn betri árangri. Rannsakendur: Anna
Maria Eisenschink, H. Bauder, E. Kirchner.
Álag og áhrif á líf aðstandenda Alzheimersjúklinga
Búast má við að sjúklingum með Alzheimersjúkdóm fjölgi
mjög á komandi árum. Þessi erfiði sjúkdómur hefur ekki
síst áhrif á aðstandendur slíkra sjúklinga. Mikilvægt er að
öðlast þekkingu og skilning á þeim áhrifum sem
sjúkdómurinn hefur á þá sem einkum annast þessa
sjúklinga, þ.e. aðstandendur. Rannsóknir, sem farið hafa
fram á því sviði sýna að þarna er málefni sem taka þarf
föstum tökum í heilbrigðiskerfinu. Rannsakendur: Ercole
Vellone, F. Micci, J. Sansoni, N. Sinapi og C. Cattel.
Hægt að kynna sér nánar
Á bókasafni Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga er hægt
að skoða dagskrá ráðstefnunnar og ef einhver hefði áhuga
á að fá meira að vita um rannsóknirnar eru þarna allar
upplýsingar um hvernig hægt er að nálgast höfundana.
Auðveldara er auðvitað að kynnast nánar íslensku rann-
sóknunum og vafalaust væri hægt að fá höfunda þeirra til
að koma á fundi og flytja erindi ef þess væri óskað.
Þá má kannski koma aftur að upphafsorðunum, þ.e.
hvort rannsóknir komi á einhvern hátt inn í dagleg störf
hjúkrunarfræðinga. Þegar ég var að funda með undirbún-
ingsnefnd ráðstefnunnar þar sem við vorum að skipuleggja
kynningarefnið sagði Anna Birna að leggja þyrfti áherslu á
að rannsóknir hjúkrunarfræðinga ættu stærstan þátt í því
að framfarir og þróun yrðu í starfinu. En til að þær nýjungar
og þekking, sem rannsóknirnar leiða af sér, nýtist f starfinu
þarf að sjálfsögðu að kynna þær. Ráðstefna eins og þessi
WENR-ráðstefna er stór þáttur í því.
152
Tímarit hjúkrunarfræðinga • 3. tbl. 76. árg. 2000