Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.12.2007, Page 56

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.12.2007, Page 56
Árið 1993 kom út grein um niðurstöður samráðsfundar um næringarástand og næringarnám aldraðra á öldrunarstofnunum á íslandi þar sem geint var frá almennum leiðum til að meta næringarástand og næringarnám (Inga Þórsdóttir o.fl., 1993). í þeirri rannsókn, sem hér er lýst, eru gildismetnar aðferðir, bæði íslenskar og erlendar, lagðar til grundvallar skimun eftir vannæringu og áhættu á vannæringu meðal aldraðra sem vel hentar hérlendis. Rannsóknir hafa sýnt að með því að grípa inn í aðstæður aldraðra, sem eiga á hættu að verða vannærðir eða eru það nú þegar, má oft bæta líðan og heilsufar. Rannsókn Pedersen (2005) sýndi að með einstaklingsmiðaðri hjúkrun og með þátttöku sjúklingsins er hægt að auka prótein- og hitaeiningainntöku aldraðra sjúklinga sem fara í liðskiptaaðgerðir og auka þannig batahorfur þeirra. Áhersla er þá lögð á að meta þarfir við innlögn, veita sjúklingum kennslu og upplýsingar, gera hjúkrunaráætlun og veita einstaklingsmiðaða hjúkrun (Pedersen, 2005). í rannsókn Robinson, Vollmer og Hermes (2003) mældist marktækt minni þreyta og slappleiki meðal aldraðra, sem höfðu áverka eða máttminnkun í fótum, þégar þeir fengu næringarmeðferð með aukaskömmtum af próteini og kolvetnum ásamt hvíld, hreyfingu og slökun. Af framangreindu má sjá að ýmislegt er hægt að gera ef meðferðaraðilar eru meðvitaðir um áhættuþætti sjúklinga og ástand þeirra. Ýmsir þættir í heilsufari aldraðra auka hættu á vannæringu, s.s. erfiðleikar við tjáskipti, skert sjón og heyrn, rugl, heilabilun og þunglyndi (Copeman, 2000). Á hjúkrunarheimilum þarf sérstaklega að huga að þeim hópi sem er með heilabilun enda hefur meirihluti íbúanna, eða 70%, einhver einkenni heilabilunar (Heilbrigðisráðuneytið, 2006). Vaxandi einkenni heilabilunar gera einstaklingnum æ erfiðara að matast vegna þess að hann tapar getu til að borða sjálfur, setja mat upp í sig, tyggja og kyngja (Berkhout o.fl., 1998). Því er mikilvægt að starfsfólk leiti allra leiða til að auðvelda einstaklingnum að nærast, s.s. með því að bjóða honum mat, sem honum hefur þótt góður, og mat sem hægt er að tína upp í sig milli mála. Hafa þarf þó í huga að að því getur komið að líkamlegt og andlegt ástand aldraðs einstaklings er orðið það bágborið að ekkert er hægt að gera við vaxandi vannæringu. Erlendis hefur nokkuð verið gert af því að setja upp PEG-sondu (percutaneous endoscopic gastrostomy) hjá heilabiluðum sjúklingum. Slík meðferð hefur verið umdeild og hafa fræðimenn bent á að slík aðgerð geti lengt dauðastríð einstaklingsins (Jones, 2007; Pennington, 2002). Rannsóknir hafa einnig sýnt að PEG-sonda eykur ekki endilega lífslíkur þessara einstaklinga (Murphy og Lipman, 2003) og getur enn fremur haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsu þeirra (Finucane o.fl., 1999). Hinn raunverulegi valkostur er því að auðvelda öldruðum sjúklingum með öllum tiltækum ráðum að borða en þegar það er ekki lengur hægt að tryggja þeim vellíðan. Þegar hugað er að breytingum á mataræði aldraðra er vert að hafa í huga að orkuþörf minnkar oft með hærri aldri vegna rýrnunar á vöðvamassa en aldraðir þurfa að meðaltali um 1600 hitaeiningar ádag. Þar sem orkuþörf minnkar þarf fæðan að vera þeim mun næringarríkari (Nordic Nutrition Recommendations [NNRj, 2004). Próteinþörf aldraðra getur til að mynda aukist við bráð veikindi, skurðaðgerðir eða sár (Biolo o.fl., 1997). Vegna hjartasjúkdóma ættu aldraðir eins og aðrir að forðast harða fitu, sem getur hækkað kólesteról, en jafnframt að borða nægilegt magn fæðu sem inniheldur trefjaefni (NNR, 2004). Hjúkrun aldraðra felur m.a. í sér að stuðla að því að þeir drekki nægilega mikinn vökva en þorstatilfinning minnkar með aldri (Ebersole o.fl., 2005). Algengt er að aldraða skorti nægilegt magn af D- og B-12 - vítamínum og ættu þeir að taka það inn auk kalks ef mjólkurmatur er af skornum skammti í fæðuvalinu til að koma í veg fyrir beinþynningu (Ebersole o.fl., 2005; NNR, 2004). Um aldraða gilda í raun almennar ráðleggingar um mataræði: reglulegir matmálstímar og fjölbreytt fæðuval úr öllum fæðuflokkum, þ.e. ávextir, grænmeti og kartöflur, kornvörur (brauð og grautar), mjólkurmatur, fiskur og kjöt. Þar sem margir aldraðir skjólstæðingar okkar eru lystarlitlir er betra að máltíðir séu fleiri og smærri (a.m.k. fimm máltíðir á dag) en fáar og stórar (sjá töflu 4). Fjölbreytt fæðuval eykur líkur á að líkaminn fái nauðsynleg næringarefni. Ráðleggingar Manneldisráðs og Lýðheilsustöðvar fela í sér annars vegar ráðlagða dagskammta einstakra næringarefna, en matseðlar stofnana eiga að styðjast við þá við samsetningu fæðisins, og hins vegar ráðleggingar um mataræði, ábendingar og æskilega samsetningu fæðunnar (Lýðheilsustöð; 2006). Árið 2001 var gefinn út bæklingurinn Maturfyrir aldraða sem hjúkrunarheilmili geta stuðst við, en hann verður endurútgefinn á árinu 2007. Þar eru meðal annars tillögur að vikumatseðlum, upplýsingar um fæði með breytta áferð (maukfæði) o.fl. (Manneldisráð íslands, 2001). Þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, mikið veikur eða vannærður einstaklingur eða sykursjúkur á í hlut, er mælt með að hjúkrunarfólk leiti aðstoðar næringarráðgjafa. í töflu 4 er yfirlit yfir sérstök atriði sem varða næringu aldraðra sjúlkinga og íbúa á öldrunarstofnunum. Þættir í skipulagi og þjónustu hjúkrunarheimila skipta einnig máli og hafa áhrif á hversu vel íbúar nærast. Má þar nefna tímasetningu matartíma, tímaskort á matmálstímum (Copeman, 2000), einfalt mataræði og skort á fagmenntuðu starfsfólki (Copeman, 2000; Crogan og Shultz, 2000). Góð næring er mikilvægur þáttur í hjúkrunarmeðferð. Það að borða felur ekki eingöngu í sér það að næra líkamann heldur er það einnig mjög félagsleg athöfn. Því hafa aðstæður, umhverfi og félagsskapur mikið að segja um það hvernig maturinn smakkast og hversu vel aldraður einstaklingur nærist (Herzberg, 1997). Mikilvægt er að allir starfsmenn, ekki síður þeir sem eru faglærðir, taki þátt í að aðstoða við máltíðir og að tryggt sé að ávallt sé nægt starfsfólk á matmálstímum, bæði á dagvakt og kvöldvakt. Enn fremur er mikilvægt að fræða alla starfsmenn um hvað getur hindrað aldraða í að nærast vel, hvað hægt er að gera til bóta og hversu mikilvæg næring er fyrir heilsu og lífsgæði (Crogan og Shultz, 2000). Lokaorð Ljóst er að hætta á vannæringu aldraðra á öldrunardeildum er veruleg. Til að fylgjast með ástandinu og geta gripið inn í það er nauðsynlegt að skima reglulega eftir vannæringu. Hér hefur verið útbúið hentugt skimunartæki til að greina vannæringu 54 Tímarit hjúkrunarfræðinga - 5. tbl. 83. árg. 2007

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.