Morgunblaðið - 24.05.2018, Qupperneq 74
74 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 24. MAÍ 2018
VIÐTAL
Einar Falur Ingólfsson
efi@mbl.is
„Í ljósmyndunum er ég alltaf að
fjalla um tímann og breytingar, og
þá einkum áhrif af hnattrænni hlýn-
un. Til að sýna tímann í myndum
þarf að mynda sömu staðina aftur
og aftur og þess vegna held ég
áfram að koma til Íslands,“ segir
þýski ljósmyndarinn Olaf Otto Bec-
ker þegar ég hitti hann á Ásbrú, þar
sem áður var innan girðingar á
svæði varnarliðsins við Keflavík-
urflugvöll. Ég er kominn að sækja
Becker, sem er að skila húsbíl sem
hann hafði haft á leigu undanfarna
viku, meðan hann ferðaðist um og
ljósmyndaði. Og þarna við skemm-
urnar sem við bíðum við meðan Bec-
ker bíður afgreiðslu með bílinn get
ég líka séð hvernig tíminn hefur lið-
ið; ég kom síðast þarna snemma á
níunda áratugnum þegar ég var
fréttaritari í Keflavík og þá voru
þetta verkstæði hjá varnarliðinu.
Það var þá.
Olaf Otto Becker er einn virtasti
landslagsljósmyndari Evrópu í dag.
Ég ætlaði að aka honum til Reykja-
víkur, þar sem síðar þennan sama
dag var opnuð í Ljósmyndasafni
Reykjavíkur sýning á verkum hans,
Ís og land – Ljósmyndir frá Íslandi
og Grænlandi 1999-2017; sýningin
sem mun standa í sumar og allir
áhugamenn um ljósmyndun og nátt-
úru þurfa að sjá, og líka þeir sem
hafa áhuga á markvissri og vandaðri
heimildaskráningu og því hvernig
sjá má hvernig tíminn líður.
Verk Becker eru sýnd um allar
trissur þessi árin. Stór sýning á
verkum hans er í Amsterdam og
önnur var nýverið í Boston. Eftir að
hafa myndað á Íslandi þessa viku
var hann á leið heim til Þýskalands í
tvo daga, þaðan til Noregs að
mynda í nokkra daga, þaðan ætlaði
hann að fljúga til Bretlands að opna
sýningu og svo fara aftur til Noregs
að mynda – áður en hann færi til
New York að vera viðstaddur opnun
gallerísýningar með verkum sínum.
Virt þýsk bókaforlög hafa gefið út
röð áhrifamikilla bóka með verkum
Becker og hafa allar hlotið mikið lof
og unnið til verðlauna; fyrst gaf
Schaden út Undir the Nordic Light
(2005), með myndum frá Íslandi.
Síðan hefur Hatje Cantz verið út-
gefandi ljósmyndarans og gaf fyrst
út Broken Line (2007) með ljós-
myndum frá 4.000 km siglingu ljós-
myndarans með vesturströnd
Grænlands; myndirnar í Above
Zero (2009) voru einnig teknar á
Grænlandsísnum og skrá bráðnun
jöklanna; í Under the Nordic Light
– A Journey Through Time / Ice-
land 1999-2011 fjallar hann aftur um
Ísland; í Reading the Landscape
(2014) beinir Becker sjónum að
áhrifum hlýnunar og ágangi manna
á frumskóga hitabeltisins og þá er
nýútkomin bókin Ilulissat: Sculptu-
res of Change – Greenland 2003–
2017, hvar hann beinir sjónum að
bráðnandi ís við Grænland.
Þar til nýlega tók Becker allar
sínar myndir á stóra blaðfilmu-
myndavél með 8x10 tommu blað-
filmum – 20x25 cm að stærð. Vinnu-
ferlið krefst aga og skýrrar sýnar,
og það er hægt og kostnaðarsamt
ferli en útkoman getur verið ægi-
fagrar og ofurskarpar ljósmyndir
sem henta vel túlkun listamannsins.
Stundum gríðarleg breyting
„Ég náði í þessari ferð að mynda
aftur nokkra staði sem ég myndaði
fyrst fyrir átján árum,“ segir Olof
Otto Becker þegar við leggjum af
stað til Reykjavíkur og hann rifjar
upp góða viku við ljósmyndum. „Í
bókinni Under the Nordic Light má
sjá nokkur myndapör sem ég mynd-
aði með tíu ára millibili og nú náði
ég að heimsækja suma þeirra staða
einu sinni enn. Stundum sést ekki
mikil breyting en á öðrum gríðarleg,
ekki síst í jöklamyndunum. Eins má
sjá tímann líða í myndum sem ég
hef tekið af tveimur náungum á
mótorhjólum, Stefáni og Ragnari.
Fyrst þegar ég myndaði þá voru
þeir 14 og 15 ára. Næst myndaði ég
þá 24 og 25 ára, á sama stað en á
nýjum mótorhjólum. Nú myndaði ég
þá á sunnudaginn var, 30 og 31 árs,
enn á sama stað og á nýjum hjólum.
Og að auki tók ég mynd af þeim
með fjölskyldunni; annar á eig-
inkonu og sjö mánaða dóttur og
hinn konu og sjö ára dóttur sem ég
myndaði með þeim. Þannig heldur
lífið áfram. Á meðan jöklarnir hörfa
fjölgar fólkinu og það eldist. Þetta
er sagan um breytingar sem ég er
að segja í verkum mínum og ég hef
nú fylgst með þessum breytingum
hér á landi í nær tuttugu ár. Og ég
mun halda því áfram, kem ekki ár-
lega að mynda en kannski næst eftir
þrjú, fjögur ár.“
Becker bætir við að hann hafi
áhuga á þeim ummerkjum sem við
mennirnir skiljum eftir okkur á
landinu og í náttúrunni, ummerkj-
um sem sýni tímann líða. „Hnatt-
ræn hlýnun orsakar breytingar og
til að sýna þær þarf að skoða staði á
löngum tíma, hvort sem ég geri það
með myndavél eða vísindamenn eru
að verki. Ef maður kemur aftur og
aftur að sama jökli má sjá breyting-
arnar – og vísindamenn fræða okk-
ur um þetta ástand. Breytingarnar
tengjast líka þeim takmarkaða tíma
sem hvert okkar fær hér á jörðinni
en við erum þó ábyrg fyrir gerðum
okkar á þeim tíma. Við verðum að
hugsa um kynslóðirnar sem taka við
af okkur – við megum ekki nota all-
ar auðlindirnar fyrir okkur hér og
nú, það er fráleit græðgi því lífið
heldur áfram.
En ég hef ekki bara myndað
breytingar sem hafa orðið af völdum
náttúrunnar hér á landi því ég kom
líka eftir efnahagshrunið og mynd-
aði þá byggingar sem hætt hafði
verið að reisa í miðjum klíðum. Í
síðustu Íslandsbókinni og á sýning-
unni má sjá slík pör, sem ég mynd-
aði eftir hrun. Og nú fór ég enn og
aftur á þá staði. Sum húsin hafa að-
eins breyst örlítið síðan 2011 – í einu
á fólkið líka enn sama bílinn. Nú
hefur verið lokið við önnur, eins og
húsið sem ég myndaði þaklaust árin
2010 og 2011. Árið 2014 eignaðist ný
fjölskylda það, setti þak á veggina
og er flutt inn. Nú bankaði ég þar
upp á og fékk að mynda í stofunni,
sama sjónarhornið, og fyrir miðri
mynd er sonur hjónanna að læra
fyrir próf. Þegar ég kem aftur eftir
nokkur ár situr hann þar kannski
enn og að gera eitthvað allt annað.
Alltaf að fjalla um
tímann og breytingar
Olaf Otto Becker hefur myndað á Íslandi og á Grænlandi
Ljósmyndir/Olaf Otto Becker
Ægifegurð Ein hinna stóru ljósmynda eftir Olaf Otto Becker frá Grænlandi
á sýningunni í Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Ilulissat 01, 2016.
Endurtekið Tvö verka Becker tekin hér á landi með áratugs millibili „Stefán og Ragnar 07/2001“ og „Stefán og
Ragnar 07/2011“. Hann myndaði mennina í þriðja sinn á dögunum og nú með konum og börnum.
Vantar þig
lögfræðing?
Nú finnur þú það
sem þú leitar að á
FINNA.is
ÞÚ FINNUR ALLT Á FINNA.IS
VANTAR ÞIG PÍPARA?