Skírnir - 01.09.2006, Blaðsíða 28
Crymogaea er að mestu leyti húmanískt verk, enda höfundur-
inn mótaður af verki Jeans Bodin, Methodus historica (París,
1566).22 Íslandssaga Arngríms endurspeglar að ýmsu leyti viðhorf
Qualiscunque Descriptio Islandiae, en á svo lærðan hátt að ólíku
er saman að jafna. Eins og í Brevis Commentarius er hann harð-
orður í garð Haralds hárfagra sem varð ekki aðeins kóngur held-
ur svipti þegna sína réttindum og eignum, var kúgari eða týrann
(17–18=88–90). Þó var þetta aðeins áfangi, segir Arngrímur, á veg-
ferð stjórnarfars og stjórnarforma, frá fámennis- og höfðingjaveldi
til skrílræðis og loks til einveldis konungs. Hér notast Arngrímur
ljóslega við klassískar hugmyndir um þróun stjórnarfarsins frá
einni stjórnskipun til annarrar, stjórnarfarslega markhyggju, sem
hann á einnig eftir að nota til að útskýra fall þjóðveldisins og
byggir alfarið á verki Bodins. Ofríki Haralds hafði þau áhrif að
öðlingar Noregs flúðu landið, margir til Íslands. Allt er enn í sam-
ræmi við miðaldafrásagnir. Haraldur var ekki aðeins kóngur held-
ur týrann. Þannig einvald var leyfilegt að forðast, segir Arngrím-
ur á sama stað og vísar til Bodins.
Arngrímur fjallar í alllöngu máli um stjórnskipan þjóðveldis-
ins. Hann ræðir í þaula hvort hugtakið eigi betur við stjórnarfar
þjóðveldisins, res publica eða civitas. Bakhjarlinn er Bodin og nið-
urstaðan sú að bæði hugtökin dugi.23 Þannig hefur hann komið
þjóðveldinu fyrir í sögulegu og lærðu samhengi. Hann útskýrir
hvar valdið (imperium) var að finna hjá Íslendingum.24 Landnem-
svavar hrafn svavarsson274 skírnir
22 Ég vísa til síðari útgáfu, Jean Bodin (1650). Verkið hefur verið þýtt á ensku
(Bodin (1966)), og er jafnframt vísað til blaðsíðutals þeirrar þýðingar. Um
húmaníska þætti í sagnaritun Arngríms og gríðarlega skuld hans við Methodus
eftir Jean Bodin, sjá Jakob Benediktsson (1957: 45–61).
23 „Nú tekur við skipulag þjóðveldisins og stjórnarfar, en af því mun verða ljóst
hvort vér notum heitin þjóðveldi [res publica] eða ríki [civitas] of djarflega eða
ranglega, þar sem Íslendingar eiga ekki borgir. En því mun Joh. Bodinus svara
í minn stað (Method. hist. 6 kap.)“ (58=151).
24 Fullveldishugtakið (summum imperium) er mikilvægt í riti Bodins (175–83=
172–79), þótt hann geri dýpri grein fyrir hugmyndum sínum í stærsta verki sínu
Les Six Livres de la République (París: Du Puys, 1576 [á latínu 1587]). Arngrím-
ur virðist ekki nota það, þótt hann noti imperium, og segist hafa eftir Bodin, „að
ríkið er ekkert annað en mergð fjölskyldna eða félagshópa sem er undirgefin
einni og sömu valdstjórn [sub unum et idem imperium subjecta]“ (59=152).
Skírnir haust nota-1 13.11.2006 15:55 Page 274