Jökull - 01.01.2012, Blaðsíða 198
Svínafellsjökull fellur í suðvesturátt frá kolli Öræfajökuls, út úr 5 km breiðri nær hringlaga skál sem afmarkast
af Hrútsfjallstindum (1870 m) í norðri og ísaskilum á Jökulbaki, Tjaldskarði og Snæbreið en af Hvannadals-
hnúk (2110 m) og Tindaborg í suðri. Inni í skálinni er ís allt að 150 m þykkur og út úr henni fellur um 1400
m langur og 700 m hár ísfoss (frá 1380 m niður í 680 m hæð). Neðan fossins grær jökullinn aftur saman og
skríður fram 8 km langan dal, víða um 1 km breiðan, en fremst er jaðarinn um 1700 m, milli Hafrafells og
Svínafellsheiðar. Undir miðjum dalnum hefur jökullinn grafið sig niður fyrir sjávarmál og er allt að 200 m
þykkur. Á daljöklinum neðan við ísfossinn myndast reglubundnar svigður, ein hvert ár; telja má um 50 á nærri
8 km löngum jöklinum sem bendir til þess að jökullinn skríði að meðaltali um 160 m á ári. Svínafellsjökull
hefur hopað um 650 til 700 m frá lokum 19. aldar. Suðaustan við skálina í upptökum Svínafellsjökuls er hin
virka askja Öræfajökuls og á börmum hennar Hvannadalshnúkur, Sveinstindur og Sveinsgnýpur, Hnappar
og Rótarfjallshnúkur. Svínafell er upp af bæjarþyrpingunni Svínafelli (t.h.), handan þess sést í Falljökul
og Virkisjökul. Undan þeim kom jökulhlaup við gosið 1362. Því gosi lýsti Sigurður Þórarinsson fyrstur
ítarlega (1958). Framan Svínafellsjökuls vitna háir jökulgarðar um stöðu hans í lok litlu ísaldar (1890). Þá
reis sporðurinn 40–60 m yfir þá skammt innan við Svínafellsheiði. Á sama tíma náðu Skaftafellsjökull (ekki
í mynd) og Svínafellsjökull saman framan Hafrafells (t.v.). Svínafellsá rennur frá jöklinum, suður gegnum
jökulgarðana. Neðst á myndinni sést Freysnes þar sem nú er Hótel Skaftafell, en skammt að baki er Stóralda,
sem Sigurður Þórarinsson (1956) sýndi með gjóskulagarannsóknum að væri eldri en gosið í Öræfajökli 1362.
Þegar jöklar voru í hámarki náði Svínafellsjökull langleiðina að Stóröldu. Ummerkin sjást vel innan við ölduna.
Nær jökli sýna smærri garðar skrykkjótt hop jökulsins á 20. öld. – The outlet glaciers Svínafellsjökull (front),
Falljökul and Virkisjökull (to the right) all drain ice from the Öræfajökull central volcano. Jökulhlaups came
down the Falljökull and Virkisjökull valleys during the 1362 Öræfajökull eruption. Parallel moraines in the
forefield of Svínafellsjökull testify its retreat from the end of the Little Ice Age, close to 1890 AD. Ogives across
the glacier reflect annual movement, ∼160 m/yr, based on 50 ogives along the ∼8 km long glacier. Texti:/Text.
Helgi Björnsson. Photo:/Ljósm. Snævarr Guðmundsson, 17. ágúst 2006.
196 JÖKULL No. 62, 2012