Breiðfirðingur - 01.04.1991, Blaðsíða 36
34
BREIÐFIRÐINGUR
glerglugga móts við altari og gegnt predikunarstól eru þrír
gluggar á framþili, og hlerar eru fyrir gluggum, tveir þeirra
gamlir. Sætaskipan er með svipuðu móti sem var, en nú eru
komnir sjö kvenstólar í framkirkju norðanmegin. Hurðar-
skjöldur kirkjunnar er úr kopar, gerður af yfirparti reykelsis-
kers sem hafði fylgt kirkjunni til forna. Sérstætt er að í miðri
kirkju eru tveir bitar með sperrum yfir, hornstykkjum og
stöfum undir, þar sem mættust partar hússins, sem hvor eig-
andi hafði gert upp að sínum helmingi. Jón Magnússon gerði
reikning vegna byggingar kirkjunnar uppá 79 ríkisdali, 4
mörk og 5 fiska. En Guðmundur Pálsson lagði fram reikning
uppá 20 ríkisdali og 60 álnir. Kirkjan stóð vel. Gagngerð
endurbót eða endurbygging fór fram um 1791-2, og árið
1805, þegar fólki hafði fjölgað í sókninni, var kirkjan
stækkuð um tvö stafgólf og var eftir það í átta stafgólfum. Þá
var kirkjan enn byggð upp sumarið 1828, áfram í átta staf-
gólfum, en var ekki til frambúðar.
Sóknarmörk
Snóksdalur er í Miðdölum, kirkjusóknin að mestu í Hörðu-
dal, og er einhver ástæða til þess, þótt nú sé gleymd. Víst
mætti leika sér að þeirri hugmynd að sá sem fyrstur lét reisa
hér kirkju hafi átt Snóksdalinn með Gilsbakka og Hörðuból
og lagt hálf þessi lönd til kirkjunnar í upphafi. Kynni kirkju-
byggjandi þá að hafa átt eignir í Hörðudal og bæjum þar
verið ákveðin sókn til Snóksdalskirkju af þeim sökum, ef
ekki var blátt áfram vegna þess að bæir sem betur lágu við
höfðu þegar verið lagðir til annarra kirkna. Getur líka verið
að bæir hafi verið fluttir frá Snóksdalskirkju, en ekki sér
þessa stað í varðveittum heimildum, og verður ekki úr því
bætt með vangaveltum. En hver sem skýringin kann að vera,
er næsta auðsætt að kirkjuvegurinn gat reynst torsóttur
sóknarfólki sem lengst átti, þegar illa viðraði, og hefði mátt
bæta úr að nokkru með bænhúsum og hálfkirkjum.