Breiðfirðingur - 01.04.1991, Page 89
HJÓNIN í ÁSGARÐI
87
Faðir minn var formaður Fasteignamatsnefndar Dalasýslu
frá 1917 til dauðadags. Matið fór fram á 10 ára fresti. Þrír
menn voru í matsnefndinni og fóru þeir heim á alla bæi og
skoðuðu húsakynni, önnur mannvirki, tún og land. Þetta tók
langan tíma og var einkum ferðast um á sumrin, en að vetr-
inum voru matsmennirnir um tíma heima hjá föður mínum
og unnu úr fengnum upplýsingum og gengu þá frá fasteigna-
matinu. Síðan var eigendum fasteigna gefinn kostur á að
gera athugasemdir við matið, áður en það fór til yfirfast-
eignamatsnefndar.
Faðir minn var alltoft fenginn til þess að vera uppboðs-
haldari og jafnframt að annast innheimtu og standa skil á
andvirðinu. Hann þótti líflegur uppboðshaldari og enginn
efaðist um að hann stæði við gerða samninga,-
Á tímabili var talsvert um útflutning á hrossum og var
faðir minn oft fenginn til þess að annast hrossamarkaði í
Dalasýslu og reka hrossin síðan, annaðhvort til Stykkis-
hólms eða Reykjavíkur, eftir því hvar þau voru sett í skip.
Ég fór nokkrar ferðir með honum. Markaðir voru haldnir á
sömu stöðum og einnig var gist á sömu bæjum. Stundum
þurfti marga menn til rekstrar. Oft fór faðir minn heim í
einum áfanga úr Reykjavík, en þá var hann vel ríðandi. Eitt
sinn var hann þó einhesta og töldu félagar hans að hann gæti
ekki orðið þeim samferða, þar sem þeir voru með fleiri hesta
til reiðar. Kvöddu þeir hann á Kjalarnesinu og sögðust
mundu skila kveðju frá honum heim. Þetta var síðari hluta
dags. Faðir minn tók þessu vel en hugsaði með sér, að
gaman væri nú að verða á undan þeim heim. Hann átti
brúnan hest, afburða þrekmikinn og þægilegan og var hann
á honum í þetta sinn. Hann fór allar stystu leiðir sem til voru
í Dali og stansaði í 10 mínútur á hverjum klukkutíma og lét
svo klárinn rölta rösklega á milli. Rúmum sólarhring síðar
var hann kominn heim og tók þá á móti félögum sínum sem
komu við til þess að skila kveðjunni frá honum. Þeir urðu
undrandi, en gaman hafði hann af þessu og Brún varð ekki
meint af.