Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 4

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 4
4 Ljósmæðrablaðið - desember 2015 Vinnan við að safna efni, lesa yfir allar greinar, halda utan um greinar og myndir og vinnsla við próförk er oft erfið og tímafrek en skemmtileg vinna. Því kom mér það á óvart þegar ég frétti af því í haust að margar ljósmæður læsu ekki blaðið og væru jafn- vel að kvarta yfir því að Ljósmæðrablaðið væri of þungt aflestrar, að það vanti meira af léttara efni í það. Þá er örugglega verið að tala um það að ljós- mæðrum finnist of mikið af ritrýndum greinum og fræðigreinum. Ég fór heim og fletti í gegnum gömul blöð. Við gefum út tvö blöð á ári, þar birtast ein til tvær ritrýndar greinar og síðan ein til tvær fræðslu- greinar. Oftast er um helmingur blaðsins léttari greinar eins og fréttir af félagsmálum, verkefni frá ljósmóðurnema og frásagnir af starfi íslenskra ljós- mæðra hérlendis og erlendis. Við verðum að hafa það í huga að Ljósmæðrafélagið er ekki fjölmennt félag, ekki hægt að segja að það „rigni inn“ greinum. Við þurfum yfirleitt að biðja fólk um að skrifa. Ljós- mæðrablaðið er bæði fag- og félagatímarit. Blaðið er hugsað fyrir allar ljósmæður hvort sem þær vinna á gólfinu eða við rann- sóknir. Ljósmæðrablaðið er eina tímaritið á Íslandi þar sem er að finna greinar um barneignarferlið og heilsu kvenna. Höfundar eru að stærstum hluta ljósmæður en einnig hafa skrifað í blaðið hjúkrunarfræðingar, fæðingarlæknar, sjúkraþjálfarar og lyfjafræðingar svo eitthvað sé nefnt. Ekki veit ég hversu stór hluti ljósmæðra les ekki blaðið, tek þetta ekki persónulega, en mig langar til að biðja ljósmæður að koma með tillögur um hvernig bæta megi blaðið, hægt að senda á mig póst. Einnig vil ég nefna að það er öllum frjálst að skrifa í blaðið. Í desember er ég alltaf spurð hvenær Fylgjan, dagbók ljósmæðra, komi út, enginn spyr um Ljósmæðrablaðið. Það má segja að Fylgjan hafi verið hálfgerð biblía fyrir okkur ljósmæður. Þar hefur verið mikill fróðleikur sem er farið yfir á hverju hausti. Þessi dagbók er dýr, bæði vinnslan við textann þó að textinn hafi verið nánast sá sami ár eftir ár, og prentunin. Nokkur umræða hefur verið í stjórn Ljósmæðrafélagsins um hvort hætta eigi að gefa út Fylgjuna. Margar ljósmæður eru farnar að setja vaktirnar inn í snjallsímann sinn og allt fræðsluefni er til á netinu. Í ár var ákvörðun tekin um að gefa bara út dagbók til tveggja ára og sleppa öllu fræðsluefni. Líklegt er að þetta verði síðasta Fylgjan sem verður prentuð. Þá að efni blaðsins. Átröskun er alvarlegur geðsjúkdómur sem leggst oftast á konur á barn- eignaraldri. Meðgangan er viðkvæmur tími og getur átröskun verið áhrifavaldur á heilsu móður og barns. Í blaðinu er ritrýnd grein um þetta efni, í niðurstöðum kemur fram að konur með átröskunarsjúkdóma beri það ekki endilega utan á sér og tilhneiging sé til að fela sjúkdóminn. Ljósmæður eru í lykilhlutverki þegar kemur að greiningu átröskunar á meðgöngu. Undanfarið hefur orðið mikil umræða um fegr- unaraðgerðir á kynfærum kvenna. Skiptar skoðanir eru á þessum aðgerðum, flestir sem vinna við barn- eignarferlið, ljósmæður og fæðingarlæknar, telja að þessar aðgerðir séu algjörlega ónauðsynlegar og skaði frekar en hitt. Í blaðinu er fræðslugrein um skapabarmaaðgerðir, í niðurstöðum greinarinnar kemur fram að helstu ástæður þess að konur sækist eftir því að fara í aðgerð á skapabörmum séu líkam- leg óþægindi vegna stórra skapabarma, skömm og óánægja vegna útlits kynfæra, óþægindi eða kvíði sem tengist kynlífi og væntingar um betra kynlíf. Vísbendingar eru um að konur sem sækjast eftir því að fara í aðgerðir á skapabörmum séu með líkamsröskun og hafi neikvæða líkamsímynd. Ég held að það sé algengt að almenningur telji að ljósmæður vinni eingöngu við að taka á móti börnum, það er nú alls ekki svo. Ljósmæður eru vel menntaðar og vinna víða. Stærsti vinnustaðurinn er Landspítalinn, þar vinna ljósmæður við mæðravernd, fæðingarhjálp, sængurlegu, ráðgjöf, á kvenlækningadeild og vökudeild svo eitthvað sé nefnt. Ljósmæður vinna út um allt land, í blaðinu skrifa ljósmæður sem starfa á landsbyggðinni, þar lýsa þær starfinu sínu. Ljósmæður vinna einnig við að taka krabbameins- sýni og er gaman að nefna það að á Leitarstöðinni sjá eingöngu ljósmæður um sýnatökuna. Í blaðinu er viðtal við þrjár ljósmæður sem vinna á Leitar- stöðinni. Ljósmæður starfa einnig við heimafæðingar og er frásögn í blað- inu af ljósmæðrum sem starfa hjá Björkinni. Skemmtileg umfjöllun er um ljósmæður í bókmenntum í blaðinu. Þær Rut og Steinunn Blöndal skrifa grein um hvernig ljósmæður birtast í skáld- sögum og ævisögum. Ég vona að ljósmæður lesi blaðið, held að það gæti komið þeim á óvart hversu fjölbreytt efni er í Ljósmæðrablaðinu. Sendi jóla- og nýárskveðjur til allra lesenda. Lesa ljósmæður blaðið? Hrafnhildur Ólafsdóttir, ritstjóri Ljósmæðrablaðsins R I T S T J Ó R N A R P I S T I L L Ljósmæðrafélag Íslands óskar öllum ljósmæðrum og fjöskyldum þeirra, gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Þökkum þeim fjölmörgu ljósmæðrum sem unnið hafa óeigingjarnt starf fyrir félagið. Með kærri kveðju - Stjórn Ljósmæðrafélags Íslands

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.