Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 27

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 27
27Ljósmæðrablaðið - desember 2015 snemma morguns. Ekki var hægt að framkalla fæðingu með belgjarofi klukkan 6 um morgun eins og áætlað var vegna óskorð- aðs kolls og því beðið þar til morgunvaktin kæmi í hús. Ákveðið var að byrja gangsetninguna með drippi til að freista þess að fá kollinn neðar í grindina, legháls var 1 cm langur og opinn fyrir 3 fingur. Klukkan rúmlega 9 fóru hjónin inn á fæðingarstofuna og dreypið var sett af stað klukkan 9:25. Verkirnir jukust smá saman en voru ekki óbærilegir. Klukkan 10:30 skoðar ljósmóðirin konuna og þá var leghálsinn fullstyttur og enn opinn fyrir þrjá fingur. En kollurinn var kominn aðeins neðar þannig að ljósmóðirin ákvað að gera belgjarof, við það festist kollurinn vel en í ljós kom mikið og kolgrænt legvatn. Við belgjarofið upplifði móðirin mikla verki og bað í kjölfarið um mænurótardeyfingu. Eftir að deyfingin hafði verið lögð, farin að virka og mesti doðinn farinn gat móðirin verið á róli, gengið um og notað þyngdaraflið til að aðstoða við framgang fæðingarinnar. Um klukkan 12 þá fann móðirin fyrir skrítinni tilf- inningu og þegar ljósmóðirin skoðaði hana var hún komin með 9 í útvíkkun og bara smá brún eftir en kollurinn var ennþá frekar hátt uppi þannig að hún bað móðurina um að fara á fjórar fætur. Við það fann móðirin svakalegan þrýsting og þá dunkar kollurinn niður, við það féll hjartslátturinn hjá krílinu og ljósmóðirin lét móðurina koma fyrst á hægri hlið en hjartslátturinn náði sér ekki upp, þá hjálpaði ljósmóðirin og faðirinn móðurinni yfir á vinstri hliðina og í kjölfarið þá hækkaði hjartslátturinn og svo var móðirin aðstoðuð við að leggj- ast á bakið. Móðirin fann mikinn þrýsting og man lítið annað en að hafa ríghaldið í höndina á manni sínum og reynt að hafa stjórn á sér. Ljósmóðirin bað hann um að hringja eftir aðstoð, þá kom ljósmóðir til að aðstoða inn og í framhaldi af því kalla þau á barnalækni og fæðingarlækni. Þau komu með sogklukku með sér, hjartslátturinn var ekki alveg nógu góður og því mikilvægt að ná barninu út sem fyrst. Þvílíkt hröð handtök urðu á stofunni að sögn móðurinnar. Hún sagðist hafa séð fæðingarlækninn koma og rífa gaflinn af rúminu og henda upp stoðunum. Á meðan hjálpaði ljósmóðirin móðurinni að rembast því hún hafði ekki alveg nógu góða tilfinningu vegna deyfingarinnar og þar að auki gerðist allt svo hratt að hún upplifði að hún hefði ekki stjórn á neinu en reyndi bara að fylgja líkamanum. Stuttu síðar glittir í kollinn, móðirin var látin anda sig í gegnum kollhríðina og svo fæðist barnið sem var sett beint upp á maga móður í smá stund áður en barnalæknirinn fékk það til skoðunar. Áður en hjónin spáðu nokkuð í það, spyr einhver á fæðingarstofunni hvaða kyn barnið væri, og kom þá í ljós að fæðst hafði lítill drengur. Hann var hinn sprækasti við fæðingu og fékk níu í Apgar eftir eina mínútu og tíu eftir fimm mínútur. Móðirin fékk hann mjög fljótt til sín eftir að barnalæknirinn var búinn að skoða hann. Drengurinn var að sögn móður lítill og nettur, dálítið rýr, krumpaður og þrútinn í framan, en samt svo fallegur og foreldrarnir alveg heillaðir af litla kraftaverkinu. Upplifun móðurinnar af fæðingunni var frábær, henni fannst umönnunin, stuðningurinn og umhyggjan framúrskarandi og vissi alltaf hvað var að gerast. Að sögn föðurins man hann voðalega lítið eftir þessu. Hann man aðallega eftir því hve hann var óöruggur, hann vissi ekkert hvað hann átti að gera. Hann man bara að um morguninn ætlaði ljós- móðir að gera gat á belginn en af því að barnið var of hátt uppi þá ákvað hún að bíða og hann var mjög feginn. Svo man hann bara eftir að hafa sofnað í sófanum inni á stofunni. „Við fórum svo inn á fæðingarstofuna,“ segir hann „og þar var gert gat á belginn.“ Hann man ekki hvar hann var, hvort hann hafi verið í sófanum eða við hliðina á konunni sinni, en hann man að hún mátti ekki fara í baðið vegna græna legvatnsins og aftur varð hann rosalega feginn. Faðir- inn man vel eftir því að konan hans bað um deyfingu og læknirinn kom með risa nál sem að hann stakk í bakið á henni. Hann segist hafa verið ótrúlega óöruggur og vissi ekkert hvað hann ætti að gera. „Ég stóð bara þarna,“ sagði hann. Hann ítrekar hve lítið hann man en þó meira vegna þess að hann hafði fengið að lesa fæðingarsögu konu sinnar sem skrifaði söguna niður stuttu eftir fæðinguna. Hann segist muna eftir því að konan hans hafi verið sett á hliðarnar vegna hjartsláttarins hjá barninu og að ljósmóðirin hafi beðið hann um að ýta á bjölluna og hvað hann hafi verið hræddur þá. Hann mundi eftir því að ljósmóðirin sem sinnti þeim í meðgönguverndinni hafði sagt þeim í fæðingarfræðslunni að ef eitthvað kæmi upp á gæti það gerst að allir myndu hlaupa með konuna í aðgerð og hann stæði einn eftir. Og miðað við allt brasið á meðgöngunni fannst honum líklegt að það myndi gerast. „Þegar fæðingarlæknirinn var kominn inn þá gerðist allt svo hratt,“ sagði hann, en samt var ekkert fát á þeim, þau voru ekkert æst, unnu bara hratt og töluðu einhverja útlensku sem hann segist ekkert hafa skilið í. Svo kom barnið og hann man þegar strák- urinn var kominn upp á magann á konu sinni. „Þetta var eitthvað svo óraunverulegt,“ hann langaði svo að gráta en af því að kona hans grét ekki þá hélt hann aftur af sér. Þegar barnalæknirinn var búinn að skoða barnið og það var komið aftur til foreldranna þá fannst honum þetta eitthvað svo skrítið en hann segist samt hafa verið svo glaður en hann varð ekki rólegur fyrr en daginn eftir og jafnvel þá sagðist hann hafa verið voðalega stressaður en sagðist ekki vita af hverju. UMRÆÐA OG LOKAORÐ Oft upplifa feður stuðningsleysi og finnast þeir vera utangátta bæði á meðgöngu og í fæðingunni (Alio, Lewis, Scarborough, Harris og Fischella, 2013) og sumir feður upplifa tilfinningar á borð við hræðslu og ótta þegar konur þeirra hafa verið greindar með ýmis vandkvæði á meðgöngunni (Poh, Koh, Seow og He, 2014). Hræðsla, kvíði, hjálparleysi og vanmáttur eru tilfinningar sem geta komið upp hjá verðandi feðrum í fæðingunni (Johnson, 2002). Þessar rannsóknarniðurstöður endurspegla vel upplifun föðurins í þessari fæðingarsögu. Meginþráður sögunnar frá sjónarhorni föðurins er, eins og áður hefur komið fram, óöryggi, kvíði og hræðsla á meðgöngunni og í fæðingunni. Ég tel miðað við þessa frásögn að þá hefði með betri samfelldari fræðslu og stuðningi verið hægt að breyta upplifun föðurins mikið. Móðirin tók það fram að í fæðingarfræðslu sem þau fengu hafi verið farið vel yfir fæðingarferlið og hlutverk maka og að hún hefði ekkert getað sett út á þar en þess má geta að hún er hjúkrunarfræðingur. Faðirinn var hinsvegar ekki sammála henni þegar þau fóru að ræða þetta. Hann sagðist hafa viljað fá fræðslu um þetta oftar, því að það sem talað er um í 30 mínútur einu sinni sitji ekki eftir. Hann talaði einnig um að hann hefði viljað fá tíma einn með ljósmóðurinni til að spyrja út í ferlið eða fara á einskonar feðranámskeið. Þessi frásögn sýnir að eftir stutta fræðslu og þegar óöryggi og hræðsla eru farin að plaga einstakling er ekki von á að hann muni allt sem fjallað var um og þá jafnvel bara það versta eða dramatískasta sem getur gerst. Því er mikilvægt að bæði á meðgöngu og í fæðingu sé feðrum veitt fræðsla og stuðningur jafnt og þétt. Með því er mögulega hægt að koma í veg fyrir að þeir upplifi sig á hliðarlínunni, að standa bara og vera gagnslausir í föður- og stuðningshlutverkinu. Fenwick, Bayes og Johansson (2012) fjölluðu um í grein sinni að heilbrigðis- starfsmenn verði að þekkja væntingar verðandi feðra og þörf þeirra fyrir stuðning til að geta veitt þeim viðeigandi þjónustu. Þessu er ég sammála og þetta verkefni og þessi fæðingarsaga mun án efa hjálpa mér í námi og starfi. Hún hefur vakið mig til umhugsunar og sýnt mér hve mikilvægt það er að hlúa að verðandi feðrum á meðgöngu og í fæðingu og ég mun gera mitt besta til að veita eins góðan stuðn- ing og fræðslu og ég get. HEIMILDIR Alio, A. P., Lewis, C. A., Scarborough, K., Harris, K. og Fiscella, K. (2013). A community perspective on the role of fathers during pregnancy: a qualitative study. BMC Pregnancy Childbirth, 13(60), 1–11. Fenwick, J., Bayes, S. og Johansson, M. (2012). A qualitative investigation into the pregnancy experiences and childbirth expectations of Australian fathers-to-be. Sexual & Reproductive Healthcare, (3), 3–9. Johnson, M. P. (2002). The implications of unfulfilled expectations and perceived pressure to attend the birth on men’s stress levels following birth attendance: a longitudinal study. Psychosom Obstet Gynaecol, 23(3), 173–182. Poh, H. L., Koh, S. S. L., Seow, H. C. L. og He, H. G. (2014). First-time fathers‘ experiences during pregnancy and childbirth: A descriptive quilitative study. Midwifery, 30, 779–787

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.