Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 33

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 33
33Ljósmæðrablaðið - desember 2015 Ég hef aldrei áhyggjur af börnunum þegar ég þarf að vera lengi í burtu vegna vinnunnar en nú voru börnin ein heima. Það bjargaði málunum að elsta barnið okkar er nítján ára. Hann sá því um að gefa systkinum sínum að borða og passaði upp á að þau færu tímanlega að sofa. Ég vissi að það væri allt í lagi heima en fann samt fyrir samviskubiti og svo saknaði ég þeirra líka. Ég hafði ekki haft tíma til að vera með þeim í marga daga. Ég sendi þeim SMS, sagðist sakna þeirra, bað þau að vera góð við hvert annað og dugleg að hjálpast að og að á morgun myndum við reyna að hafa kósý saman. 27 klukkustundir Fæðingin var langdregin og þegar leið á nóttina gerði þreytan vart við sig og við vorum komin á það stig að íhuga flutning á spítalann. Það var samt ekki til uppgjöf í konunni, sem var svo sterk og dugleg, en ég var orðin hrædd um að fæðingin myndi ekki klárast hjálparlaust. Danski neminn var með mér og það var mikil hjálp í henni. Við Hrafnhildur höfðum verið í SMS-sambandi. Hún fékk lítinn frið í veikindunum en var orðin örlítið hressari, þótt hún væri langt frá því að vera við fulla heilsu. Hún gat sem betur fer komið til að aðstoða. Ég þurfti á henni að halda því ég vildi vera viss um að ég væri ekki að ákveða flutning á spítalann af því að ég væri þreytt, heldur vegna þess að það væri það besta fyrir konuna og barnið hennar. Við vorum sammála um að þetta væri fullreynt heima og best væri að fara á spítalann. Þar fæddist svo þó nokkru seinna fallegur drengur. Ég kom heim klukkan hálf sjö, 27 klukkustundum eftir að ég fór af stað í fyrri fæðinguna. Stuttu seinna hringdi vekjaraklukkan og börnin þurftu að fara í skólann. Sá yngsti var illa upplagður, allt var ómögulegt og hann vildi ekki fara. Ég hafði enga þolinmæði og samtalið, ef samtal skyldi kalla, endaði með því að hann fór að gráta. Ég gafst upp, tilkynnti forföll hjá honum í skólanum, lagðist á koddann og fór að sofa. Úrvinda. Þegar maður er heimafæðingaljósmóðir er mikilvægt að geta sofnað fljótt og það gerði ég næstu fjóra tímana, dreif mig svo aftur á fætur því ég þurfti að kíkja á konuna og barnið sem hafði fæðst nóttina á undan. Þegar ég var vöknuð heyrði ég í Hrafnhildi sem var öll að hressast. Ein af konunum okkar hafði misst vatnið um nóttina en fæðingin var þó ekki byrjuð enn. Ég kíkti á konuna og nýfædda barnið. Þar gekk allt eins og í sögu og foreldrarnir ljómuðu af hamingju. Á heimleiðinni stoppaði ég í búð, mömmusamviskubitið var orðið risastórt, þannig að ég keypti Cocoa Puffs, sem elsku börnin mín fá annars aldrei nema á jólum, páskum og afmælum. Svo keypti ég ís, kleinuhringi og fleira gott sem mér fannst þau eiga skilið. Þegar heim var komið náði ég mér í annan tveggja tíma hraðsvefn. Eftir kvöldmat fórum við Hrafnhildur að kíkja á konuna sem hafði misst vatnið. Allt var enn með kyrrum kjörum. Það hafði verið ákveðið að bíða til morguns og ef ekkert gerðist þá færi hún morguninn eftir á spítalann í gangsetningu. Þegar ég var á heimleið hringdi litli drengurinn minn, sem er níu ára, hálfgrátandi. Systir hans og vinkonur hennar voru að borða bragðaref úr Ísbúð Vesturbæjar. Sorgin var gríðarleg þannig að ég lofaði að koma við og kaupa einn þannig fyrir hann. Kærkomin hvíld Þegar ég kom heim sagði ég þeim að ég þyrfti líklega að fara aftur í fæðingu um nóttina þannig að ég þyrfti að reyna að hvíla mig. Sá litli spurði hvort ég gæti hvílt mig í sófanum hjá honum meðan hann myndi horfa á mynd. Ég gerði það og hann hjúfraði sig upp að mér, knúsaði mig og sagði: „Mamma dagurinn byrjaði ekki vel hjá okkur en svo varð þetta besti dagur lífs míns.“ Það þarf ekki mikið til að gleðja níu ára dreng. Morguninn eftir vaknaði ég og síminn hafði ekkert hringt. Yngri börnin mín tvö lágu hjá mér í plássi pabba síns. Ég var úthvíld en leið vegna konunnar sem nú þyrfti að hætta við heimafæðinguna og fara í gangsetningu. Þegar við vinnum svona eins og við gerum kynnumst við foreldrunum svo vel. Við tökum þátt í gleði þeirra og stundum líka sorg eða vonbrigðum. Þannig var það þennan morgun. Dóttir mín sem er tólf ára vaknaði og spurði hvort ég hefði farið um nóttina. Ég svaraði því neitandi. Þá sagði hún: „Gott að þú fékkst að sofa en leitt að konan skyldi ekki fæða.“ Þau eru farin að skilja þetta vel, börnin mín, og vita að stundum breytast plön okkar ef ég þarf að fara í fæðingu. Þótt það geti verið erfitt þá vita þau að þegar svo ber undir þarf einhver meira á mér að halda en þau. Þau skilja þetta en eru þó líka heppin vegna þess að langoftast get ég verið til staðar eins og þau þurfa. Jafnvel meira en ef ég væri að vinna „venjulega“ vinnu því ég get að miklu leyti stjórnað vinnutíma mínum. Nema þegar kemur að fæðingu, þeim stjórnum við víst ekki. Börnin taka þátt í þessu með mér, þau heyra sögurnar af fæðingum, þau spyrja þegar ég kem heim hvernig hafi gengið, hvort það hafi fæðst stelpa eða strákur og svo framvegis. Langflest kvöld og nætur er ég heima og flestar helgar er ég mikið laus. Ég get bara aldrei verið viss um að geta mætt í boð eða á mannamót. Þegar mér er boðið eitthvað er svarið alltaf: „Ég kem ef ég er ekki í fæðingu“. En við lifum samt lífinu, við förum á tónleika, í leikhús, matarboð og gerum skemmtilega hluti. Við erum bara alltaf með símann og í versta falli þurfum við að fara snemma en oftast ganga plönin okkar upp. Dýrmætar stundir Í haust höfum við Bjarkarljósmæður starfað við heimafæðingar í fimm ár. Á þessum tíma höfum við tekið þátt í yfir 200 heimafæðingum. Börnin hafa langflest fæðst á heimili sínu en einhver á Landspítalanum en allar hafa fæðingarnar verið jafn stórkostlegar. Við höfum tekið á móti fleiri en einu barni hjá nokkrum fjölskyldum, við höfum tekið á móti systkinabörnum og börnum vinkvenna. Við höfum líka tekið á móti börnum vina okkar og ættingja en eitt af því sem okkur finnst best við vinnuna okkar er að fá tækifæri til að kynnast öllum þessum fjölskyldum svona náið. Við kynnumst eldri systkinum, ömmum og öfum og jafnvel frænkum og frændum. Hver ein og einasta fjölskylda á sinn stað í hjörtum okkar og við höfum lært svo mikið af þeim öllum. Dagar eins og þessir koma ekki oft en þeir koma af og til. Langoftast dreifast fæðingarnar vel og við þurfum ekki oft að vinna í 27 klukkutíma án þess að sofa. Við erum svo lánsamar að fá í okkar daglega starfi ítrekað að upplifa það kraftaverk sem barnsfæðing er. Enginn dagur er eins, engin fæðing er eins, engin fjölskylda er eins og það er það sem gerir starfið svo ótrúlega skemmtilegt. Arney Þórarinsdóttir heimafæðingaljósmóðir

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.