Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 44

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 44
44 Ljósmæðrablaðið - desember 2015 Pistill formanns kjaranefndar Þegar ritstjóri leitaði til mín eftir pistli formanns kjaranefndar byrjaði ég að skrifa um það sem á undan hefur gengið þetta árið. Eftir ítarleg skrif ákvað ég að venda kvæði mínu í kross og byrja upp á nýtt að skrifa frá öðrum sjónarhóli. Það er nefnilega þannig að kjaranefndin sem og formaður hennar eru fyrst og fremst ljósmæður. Þegar ég hóf nám í ljósmóðurfræði haustið 2010 eftir að hafa alið þann draum í hjarta frá unga aldri þá gerði ég það af gríðarlegum áhuga og ástríðu. Námið gekk vel og ég naut mín hvern einasta dag í skólanum. Mikil verkefnavinna fór nokkuð þægilega í gegnum hendur mínar og verknámið var skemmtilegt en krefjandi. Eins og margar aðrar ljósmæður gerði ég þetta með stóra fjölskyldu heima auk töluvert mikillar vinnu. Þetta var erfitt en gekk, því hjartað fylgdi og nú skyldi draumurinn rætast. Ég útskrifaðist mánuði fyrir 41 árs afmælið mitt, skrifaði undir nýjan ráðningarsamning á Landspítalanum enda tveggja ára viðbótarnámi lokið og með bros á vör sagði deildarstjór- inn mér að henni hefði tekist að fá mig flutta upp um einn flokk miðað við hollsystur mínar svo ég myndi ekki lækka í launum. Í gleði minni við að skrifa undir nýjan ráðningarsamning þar sem ég var titluð ljósmóðir eins og draumar mínir höfðu kveðið á um láðist mér að spyrja hvað þessi aukaflokkur gæfi mér. Það kom í ljós að heilar þrjú þúsund krónur var verðmæti 120 eininga viðbótarnáms við hjúkrunarfræðigráðu mína og þá skal ótalin sú reynsla sem ég hef af kvennasviði. Þessi dagur sem byrjaði með stolti og gleði endaði sem dagur vonbrigða og sorgar. Hvernig gat ég farið heim og sagt fjölskyldunni að ég hefði lagt allt þetta á mig fyrir þrjú þúsund króna hækkun á annars alltof lág grunnlaun hjúkrunarfræðings! Um tíma skammaðist ég mín svo mikið fyrir launin mín að ég faldi þau. Ég sagði engum hvað ég var með í laun, ekki einu sinni mann- inum mínum. Þetta er þung byrði. Ljósmæður eru stoltar af starfinu sínu, þær vinna skemmtilega vinnu og fá að taka þátt í dýrmæt- ustu stundum landsmanna en laun þeirra og aðstaða, vinnutími og vinnuálag er smánarblettur á samfélaginu. Ljósmæður eru margar hverjar með tiltölulega há heildarlaun og það er sýnilegt í opinberum gögnum en ef þjóðfélagið gerði sér grein fyrir því hverskonar vinna og hark liggur að baki þeim launum myndi flestum blöskra. Ég gat ekki setið á mér og ári eftir útskrift var ég komin í nefnd ljósmæðra á LSH sem vann að nýjum stofnanasamningum. Þá fyrst kynntist ég heimi samninganefnda. Það var alls ekki góð skemmtun. Í nefndinni vorum við allar nýjar á þessu sviði og óreyndar með öllu. En framkoma viðsemjanda var með ólíkindum. Stundum leið mér eins og ég væri að biðja um sál þeirra eða hluta af þeirra eigin launum. Nýr stofnanasamningur 2013 var ekki upp á marga fiska en ljósmæður hækkuðu um einn launaflokk vegna jafnlaunaátaks ríkis- ins, ekki vegna samnings milli ljósmæðra og LSH. Þar átti líka að taka til í framgangskerfi ljósmæðra. Setja inn námskeið og fleira sem miðar að faglegri þekkingarþörf þeirra sem á spítalanum starfa. Tveimur árum seinna hefur ekki bólað á neinum breytingum þar og sennilega er það löngu gleymt. En í kjölfar þessara samninga var togað í ungu ljósmóðurina frá félaginu. Nú væru kjarasamningar framundan og hennar var þörf í þágu félagsmanna. Og ég lét til leið- ast. Hingað til hafa mér þótt kjaramál áhugaverð og jafnvel skemmti- leg svo ég dreif mig í kjaranefnd. Ég trúði því að ég gæti náð árangri. Ég trúði því að ég hefði það sem til þarf. Ég trúði því að ég myndi standa mig. Ég hafði skýra sýn á framtíðina. Ég vissi nákvæmlega hvað þurfti til að styrkja stöðu ljósmæðra. Án þess að rekja alla viðræðusögu 2014 komst ég að því að gagnvart ríkinu eru ljósmæður einskis verðar. Það má niðurlægja þær, gera lítið úr störfum þeirra, hneykslast á frekjunni í okkur og láta ljót orð falla um fagið og störfin. Þetta voru mikil vonbrigði fyrir ungu ljósmóðurina sem hafði lagt mikið á sig til að mennta sig á erfiðum tíma og sinna því starfi sem hana hafði dreymt um frá unga aldri. Var virkilega til fólk í heiminum sem gat sagt beint framan í nefnd félagsmanna að störfin okkar væru ómerkileg, lítils virði og að við ættum ekki meira skilið? Já, þetta fólk er til og heitir samninganefnd ríkisins (SNR). Eftir vopnahlé sem stóð fram á haustið 2014 stóðum við aftur frammi fyrir þessari ógnarnefnd sem engu hafði gleymt. Áfram var ljósmóðurstarfið lítils virði, ljósmæður áttu ekki meira skilið og svo féll setningin sem hafði hvað dýpstu áhrif á mig allt ferlið en hún kom frá formanni SNR: „Sjáðu til, þið eigið eftir að koma og skrifa undir. Þið getið aldrei neitt annað en skrifað undir!“ Ég er enn að hugsa um þessa setningu og hvað hún raunverulega þýddi. Allt samningaferlið hefur í mínum huga einkennst af kúgun og vald- níðslu. Það eru sömu menn sem eru í SNR og ákveða að borga okkur laun í verkfalli samkvæmt vinnureglu dagvinnufólks. Þetta eru líka sömu menn sem eru í vinnu hjá ríkinu, já þeir eru líka ríkisstarfs- menn eins og við, og þegar þeim gekk ekki að fá okkur til að skrifa undir einhliða samning þeirra fóru þeir heim til pabba sem setti bara lög á viðsemjandann okkur. Líklega áttum við aldrei neinn séns. Að minnsta kosti var aldrei samningsvilji eða samningaviðræður enda til hvers ef hægt er að henda þessu í gerðardóm. Kæru félagsmenn, þið þekkið sögu kjarabaráttunnar 2015. Hún endaði ekki með samn- ingum. Hún endaði með dómi sem gaf okkur sæmilega niðurstöðu sem vissulega var betri en við þorðum að vona og miklu betri en það sem SNR hafði nokkurn tímann lagt fram. Það varð okkur klár- lega til happs og árangurs að hafa fylgt með BHM í þessari sókn því þeir sem ekki gerðu það eru enn með ósamið og enn með 3,5% á borðinu. Bætt kjör fást ekki án baráttu í þessu landi en hún hefur vissulega verið þungbær. Í upphafi vildu einhverjir meina að verkföll myndu ganga endanlega frá Ljósmæðrafélaginu en á daginn hefur komið að ljósmæður hafa staðið þétt saman og sýnt magnaðan styrk og samstöðu. Félagið er líklega sterkara en nokkru sinni fyrr enda stétt hæfileikaríkra ljósmæðra sem hafa mikið langlundargeð. Í kjöl- far Félagsdóms hafa þær staðið sterkari en nokkur átti von á. Félagið hefur stutt við félagsmenn og í samvinnu við BHM mun það fara með launamál ljósmæðra á LSH og SAk fyrir héraðsdóm því við trúum að réttlætið muni sigra að lokum. Sjálf trúi ég á réttlætið og sjálf hef ég ekki enn gefist upp en mínum tíma í kjaranefnd fer senn að ljúka. Nú er kominn sá tími að ég muni snúa mér að öðru. Snúa mér að því sem ég menntaði mig til, að því sem hjartað sendir mig. Mig langar bara að fá að vera ljósmóðir. Að lokum vil ég hvetja allar ljósmæður til að njóta jólanna og gleðjast í leik og starfi. Edda Sveinsdóttir, ljósmóðir Formaður kjaranefndar LMFÍ

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.