Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 39

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 39
39Ljósmæðrablaðið - desember 2015 „Er Pantheon-byggingin jafn gömul ömmu?“ spurði Sveindís, fimm ára dóttir mín og nafna ömmu sinnar, þegar við fjölskyldan fórum í fyrsta skólafrí vetrarins til Rómar. Að standa inni í þessu tvö þúsund ára gömlu húsi með þessum stórkostlega glugga í loftinu, sem Magga frænka var búin að útskýra að væri töfrum líkur ‒ að jafnvel rigning og snjór gætu læðst niður úr honum var ógleymanleg reynsla fyrir litlar manneskjur sem gleyptu í sig allar þær nýju sýnir sem borgin bauð upp á. Og þar sem við stóðum þarna fjölskyldan böðuð í sólargeislum úr þakglugganum en ekki regndropum þá var ekki svo einfalt að setja tímann í rétt samhengi. Að ímynda sér menn og ljón berjast í Collos- eum (þar sem konur og lítilfjörlegri sátu á aftasta bekk í fjörinu) og horfa á Rómulus og Remus drekka af spena úlfsins. Hvað er eðlilegra í slíku samhengi en að velta fyrir sér hvort Pantheon og amma séu jafn- öldrur? Og kannski er það stundum þannig með tímann. Þótt hann geti virst fjarlægur er hann samt í raun svo nálægur. Það er til dæmis ekki svo langt síðan Ljósmæðrafélagið gaf út bleikan bækling Ágrip af sögu ljósmæðrafræðslu og ljósmæðrastéttar á Íslandi og fékk til starfans héraðslækni frá Dalvík, Sigurjón Jónsson. Bæklingurinn, sem er frá árinu 1959, hefst með þessum orðum „Vafalaust hafa ljósmæðrastörf verið unnin að einhverju leyti frá upphafi vega mannkynsins. Upphaf- lega hafa þau verið harla fáskrúðug, líklega það eitt „að skilja á milli“ og annað slíkt smávægilegt, og engri kunnáttu verið fyrir að fara.“ Fyrir okkur ljósmæður sem trúum því að ljósmóðurfræði byggi á margvíslegum þekkingargrunni – eins og ljósmóðirin Huguette Comerasmy frá Máritsíu orðaði það í viðtali við Ljósmæðrablaðið: „Ljósmóðurstörf eru lífið sjálft“ ‒ bera orð héraðslæknisins vitni um takmarkaða sýn á þekkingu. Margar fræðikonur í ljósmóðurfræðum hafa einmitt bent á að þegar ljósmóðurstörf voru hluti af nærumhverfi kvenna og ljósmæður þekktu þær konur sem þær önnuðust hafi heil- mikil þekking verið til staðar. Ólíkt héraðslækninum er óhætt að ganga út frá því að margar þessara ljósmæðra hafi kunnað meira til verka heldur en ljós sögunnar hefur á tíðum viljað vera láta. Ég hef reyndar ekki bók Þórunnar Á. Björnsdóttur ljósmóður frá árinu 1929 við höndina, Nokkrar sjúkrasögur, en í endurminningunni er það mér minnisstætt að það var háttur Þórunnar að setja alltaf líf konunnar og aðstæður hennar með í frásögnina um „sjúkrasöguna“. Fæðingarsögur verða nefnilega ekki aðskildar lífi konunnar sjálfrar. Í sögu Jennifer Worth Call the midwife, er sami háttur hafður á. Jennifer bregður upp mynd af aðstæðum hverrar konu og hennar lífi. Við erum stödd í Lundúnum og fáum innsýn í hversdagsleika verðandi mæðra og líf þeirra áður en hin raunverulega „fæðingarsaga“ brestur á. Þegar ég var að skrifa meistararitgerðina mína fyrr á þessu ári fann ég hvað það hjálpaði mér að hugsa almennt um líf kvenna, aðstæður þeirra, vonir og þrár. Astrid Lindgren var þar minn besti félagi. Ný ævisaga hennar sem kom út á síðasta ári, Denne dag, et liv, rak þá fyrir tilviljun á fjörur mínar. Sagan um Lassa, drenginn hennar sem hún þurfti að setja í fóstur vegna fordóma samfélagsins, snerti djúpt við mér. Smánin sem Astrid upplifði í litla þorpinu í Smálöndum, að eiga von á barni með giftum manni, var átakanleg. Að lesa um þann sárs- auka, sem hafði afgerandi áhrif á hana sem manneskju og sýn hennar til lífsins, dýpkaði mitt eigið rýni á heim annarra kvenna. Sagan um það þegar Astrid fæddi drenginn sinn ein í ókunnu landi – fæddi hann, tengdist honum og setti á brjóst – en þurfti svo að yfirgefa hann og setja í fóstur. Astrid reyndi að heimsækja hann eins og hún gat áður en hún svo fékk hann endanlega til sín aftur þegar hann var á fjórða ári. Að lifa við þessa reynslu bar í sér djúpa sorg. En Astrid segir sjálf að hún hefði ekki getað orðið eins góður barnabókahöfundur ef lífið hefði verið leikur einn. Astrid Lindgren hafði einstaka hæfileika til að skapa persónur sem snerta við manni – á hvaða aldri sem lesandinn er. Og auðvitað kunni Astrid Lindgren að skrifa um fæðingar: „Hræddu þessar grimmu nornir í burtu svo að hér verði hljótt, annars heyri ég ekki hvað ég syng!“ sagði Lovísa, mamma hennar Ronju, við Matthías þegar Ronja var að koma í heiminn. Það var óveður og í óveðri í Matthíasarskógi sungu skógarnornir og skræktu. Matthías reyndi að þagga niður í skógarnornunum og líka ræningjunum tólf sem létu heyra í sér þar sem þeir biðu fullir eftirvæntingar í smiðjunni eftir að barnið myndi loks líta dagsins ljós. Það hafði aldrei fæðst barn í Matthíasarborg. Og nú vildi Lovísa syngja í fæðingunni sinni og heyra sinn eigin söng. Þannig myndi fæðingin ganga betur og eins yrði barnið glaðlynt þegar það kæmi í heiminn við söng. Og vissulega varð Ronja glaðlynt barn og góð fyrirmynd – og fæðingarsagan hennar eftirminni- leg og lærdómsrík fyrir börn og fullorðna. Bókin Náðarstund – sem þessi greinarstúfur átti að fjalla um – var skilin eftir af vinkonu mömmu sem gisti hér hjá okkur í Frakklandi fyrir ári síðan. Hún mælti eindregið með bókinni. Kápan höfðaði einhvern veginn ekki til mín og ég var líka að bjástra „Ljósmóðurstörf eru lífið sjálft“ - hugleiðing um hvernig bækur um líf kvenna tengjast ljósmóðurfræði Steinunn Blöndal Ljósmóðir M.Sc

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.