Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 34

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 34
34 Ljósmæðrablaðið - desember 2015 Á örfáum árum hefur þjónusta við þungaðar konur breyst á lands- byggðinni. Það eru ekki mörg ár síðan það var tekið á móti börnum í Stykkishólmi, Patreksfirði, Höfn í Hornafirði, Egilsstöðum, Sauðárkróki og Húsavík. Á þessum stöðum fæðast ekki lengur börn og á mörgum er ekki starfandi ljósmóðir. Einnig hefur starfsemin breyst á Selfossi og Keflavík, þar er ekki lengur opin skurðstofa og enginn fæðingarlæknir á vakt. Okkur í ritnefndinni langaði að fá fréttir af ljósmæðrum sem vinna á landsbyggðinni, við leituðum til nokkurra staða og fengum góð viðbrögð. Hrafnhildur Ólafsdóttir ljósmóðir LJÓSMÆÐUR Í FAÐMI FJALLA BLÁRRA Í febrúarmánuði fyrir næstum fimm árum lá leið mín, þá nánast nýút- skrifaðrar ljósmóður, til Vestfjarða. Fyrirvarinn var afar stuttur eða aðeins um 6 vikur og ætlunin var að vera hér í um það bil ár sem afleys- ingaljósmóðir. Heldur hefur teygst úr veru minni hér því nú er svo komið að ég er hér fastráðin ljósmóðir, búin að fæða sjálf eitt barn til viðbótar á minni eigin fæðingardeild, við fjölskyldan höfum fjárfest í húsi í miðbæ Ísafjarðar og allir una hag sínum vel. En hvað er svona heillandi við starf á litlum fæðingarstað úti á landi? Starfið hér er ákaflega fjölbreytt og samfella í starfinu mikil. Við ljósmæðurnar fylgjum konum og börnum þeirra eftir frá fyrstu mæðra- skoðun og alveg fyrsta mánuðinn eftir fæðingu þar sem við tökum að okkur auk sængurlegunnar fyrsta hlutann af ungbarnaverndinni. Tengslin við skjólstæðingana verða því mjög náin sem er einstaklega gefandi. Hef ég þónokkrum sinnum verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að taka á móti fleiri en einu barni hjá sömu konunni og er það alltaf jafn gaman. Starfs- svæðið er norðanverðir Vestfirðir og auk Ísafjarðar sinnum við konum frá öllum þéttbýliskjörnunum á svæðinu, þ.e. Súðavík, Bolungarvík, Hnífsdal, Suðureyri, Flateyri, Þingeyri og sveitunum í kring. Starfið útheimtir því talsverð ferðalög því við förum í heimavitjanir um allt svæðið og getur stundum verið ágætis tilbreyting að skreppa í bíltúr, einkum í fallegu veðri. Þess má geta að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða leggur okkur til bíla í þessar ferðir. Undanfarin ár hafa hér yfirleitt verið tvær ljósmæður í vinnu sem skiptast á að vera á bakvöktum eftir að dagvinnu lýkur, viku í senn ásamt mismikilli dagvinnuprósentu. Núna störfum við Sigrún Rósa Vilhjálms- dóttir hér. Eins og gefur að skilja er samstarf okkar afar náið og þó svo að við séum yfirleitt hvor um sig að sinna konum í fæðingu er svo mikil- vægt að hafa einhvern til að bera álitamál undir eða deila hugleiðingum sínum með. Störfin hér krefjast mjög sjálfstæðra vinnubragða og þó svo að við getum ef í nauðirnar rekur stundum kallað hvor aðra út er það ekki alltaf mögulegt og maður verður einfaldlega að gjöra svo vel að tækla það sem upp kemur. Það var óneitanlega breyting fyrir mig sem unga ljósmóður að koma í þetta starfsumhverfi þar sem fáu sérhæfðu starfsfólki er til að dreifa miðað við mannmergðina á Landspítalanum. Hér er þó oftast reyndur skurðlæknir á vakt og aðgengi að skurðstofu allan sólarhringinn sem er nauðsynlegt á stað þar sem veður geta verið válynd og stundum hvorki fært héðan flugleiðina né landleiðina, jafnvel svo dögum skiptir. Það vill þó til að sjúkraflugvélin er ekki stór og hefur getað lent hér í ótrúlegustu veðrum. Það getur skipt sköpum því hér hafa komið upp tilvik m.a. á meðgöngu þar sem flutningur á LSH hefur verið mjög brýnn, svo sem vegna fyrirburafæðinga og blæðinga frá fyrirsætum fylgjum. En í slíkum tilvikum munar þó jafnvel enn meira um það að hér sé starfandi fólk sem hefur fagmenntun og kunnáttu til að bregðast rétt við aðstæðum. Á litlum fæðingarstað sem þessum skiptir mjög miklu máli að velja vel þær konur sem hér koma inn til fæðingar. Hér eru sjaldnast áhættu- konur í fæðingu, með örfáum undantekningum þó. Til dæmis erum við stundum með konur með vægan meðgönguháþrýsting eða meðgöngu- sykursýki sem er vel meðhöndluð með mataræði eingöngu, konur með sögu um blæðingu eftir fæðingu og við höfum boðið upp á fæðingu eftir fyrri keisaraskurð. Gangsetningar eru hér nánast eingöngu vegna meðgöngulengdar eða farins legvatns en hér eru einnig gerðir valkeisara- skurðir. Samkvæmt leiðbeiningum Landlæknisembættisins um val á fæðingarstað eiga þessar konur þess kost að fæða hér og að sjálfsögðu verður að líta til vals hverrar og einnar konu. Reynsla okkar hér fyrir vestan hefur verið sú að konur vilji nánast undantekningarlaust fæða í heimabyggð. Það að hér er ekki boðið upp á mænurótardeyfingu virðist meira að segja sáralitlu skipta í því sambandi. Aðstaðan fyrir foreldra á fæðingardeildinni er almennt þægileg. Við erum með eina rúmgóða fæðingarstofu með baði og inn af henni baðher- bergi með sturtu. Hér eru svo tvær sængurlegustofur með hjónarúmum, baðherbergi, setustofa, lítil barnastofa og ein aukastofa með sjúkrarúmi sem einstöku sinnum hefur verið notuð sem auka fæðingarstofa þegar hér hafa verið tvær konur í fæðingu á sama tíma. Það er í raun merkilegt að það skuli ítrekað koma fyrir þar sem hér hafa undanfarin ár bara verið um 40 fæðingar á ári, en samt sem áður er stofan sú að koma í góðar þarfir. Fæðingum hefur heldur fækkað hér á Ísafirði síðustu ár og hefur það verið okkur nokkurt áhyggjuefni. Fæðingarstaðir á landinu verða æ færri og ljóst að minnstu staðirnir eiga helst á hættu að lenda undir niðurskurðarhnífnum. Þó berum við þá von í brjósti að fæðingum fjölgi hér á ný, ekki síst ef verður af fyrirhuguðum Dýrafjarðargöngum, því með þeim gætu konur á sunnanverðum Vestfjörðum átt raunhæfan möguleika á því að sækja þjónustu á fæðingardeildina hér, sem nú er útilokað. Aftur á móti voru heilbrigðisstofnanirnar á Patreksfirði og Ísafirði nýverið sameinaðar. Með þeirri sameiningu fórum við ljósmæð- urnar líka að skoða möguleika á aukinni þjónustu við þungaðar konur sem sótt hafa þjónustu á Patreksfjörð, en þar hefur ekki verið starfandi ljósmóðir í mæðravernd í nokkur ár. Höfum við áhuga á að fara þangað og sinna mæðravernd, enda gildi þess að konur njóti góðrar umönnunar á meðgöngu ótvírætt. Ein mesta ógnin við þjónustu við konur hér á norðanverðum Vestfjörðum er einmitt sú að ef fæðingar leggjast hér af verði þess ekki langt að bíða að mæðravernd skerðist einnig umtals- vert þar sem ekki yrðu hér ljósmæður til að sinna henni. Með hliðsjón af þeirri ánægju sem konur hafa látið í ljós með þjónustuna hér og það öryggi sem skapast af því hafa hér ljósmóður til taks allan sólarhringinn viljum við því fyrir alla muni standa vörð um okkar litlu fæðingardeild og þá þjónustu sem við veitum. Við vonum að stjórnvöld styðji okkur í því og geti áfram unnt vestfirskum konum þess að fá að fæða í sinni heimabyggð sem er það sem þær kjósa. Erla Rún Sigurjónsdóttir, ljósmóðir við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Ísafirði Fréttir af landsbyggðinni

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.