Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 36

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 36
36 Ljósmæðrablaðið - desember 2015 þurfa að greiða vegna endurmenntunar ekki síst vegna þess hve ferðakostnaður er hár. Gríðarlega erfitt er að fá námskeið austur og tregða við að nýta tækninýjungar á borð við fjarfund og internetið við námskeiðahald er áberandi. Eins mættu tengsl við Ljósmæðra- félagið vera meiri, við eigum sjaldan heimangengt þegar fundir eru í félaginu og væri frábært ef hægt væri að nýta betur þá möguleika sem fjarfundur býður upp á þegar mikilvægir fundir eru á dagskrá. Þá köllum við eftir því að Landspítalinn gangist upp í því hlutverki sem hann vill að ég held hafa sem leiðandi afl í skipulagningu og fram- kvæmd þjónustu við barnshafandi konur og fjölskyldur þeirra í okkar góða landi og geri t.d. verklagsreglur aðgengilegar fyrir fagfólk sem starfar úti á landi og komi áleiðis upplýsingum um breytingar á verklagi. Fæðingardeild FSA hefur nú opnað fyrir okkur gæðahand- bók sína og var það okkur mikill fengur og við þökkum það vel og mikið en myndum gjarnan vilja hafa sömu tengsl við rannsóknar- og háskólasjúkrahúsið okkar. Ég held að framtíð fæðingarþjónustu á Austurlandi sé björt ef þeir sem halda utan um okkar sameiginlegu buddu sjá heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni fyrir nægu fjármagni til að halda henni opinni. Hér er gott að búa og starfa, deildin nýtur mikils velvilja í samfélaginu eins og sést á þeim góðu gjöfum sem henni eru færðar ár hvert af fyrirtækjum og félagasamtökum á Austurlandi. Nú eru spennandi tímar framundan, fæðingarstofan er á leið í klössun á allra næstu vikum. Jónína Salný Guðmundsdóttir Ljósmóðir á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað SAUÐÁRKRÓKUR Það var á haustmánuðum fyrir þremur árum að ég tók það mikla gæfuspor að flytja á Sauðárkrók og starfa þar sem ljósmóðir. Fyrst um sinn vorum við tvær en fljótlega varð ég eina ljósmóðirin hérna í firðinum. Ég var tiltölulega nýútskrifuð og hafði ekki mikla reynslu. Engar skipulegar fæðingar höfðu verið á Króknum í nokkur ár en þeim var hætt eftir 2009. Frá þeim tíma hafa verið að fæðast 2‒3 börn á ári hérna, sem er töluverð breyting frá því sem áður var. Ég áttaði mig fljótt á því að mikil umræða var í samfélaginu um fæðingar og hvernig stæði á því að verið væri að ráða ljósmóður á staðinn þar sem engar fæðingar eru. Eldra fólki fannst þetta mikil afturför og skildi ekki hvers vegna í ósköpunum konur mættu ekki fæða í heimabyggð í stað þess að fæða úti í vegkanti eða uppi á heiði. Á mínu fyrsta starfsári fæddist barn í sjúkrabíl og eitt í einkabíl. Mér fannst þetta gríðarlega erfitt og var ávallt með varann á mér. Einnig fæddust tvö börn í heimahúsi þar sem ég stóð ein vaktina meðan beðið var eftir annarri ljósmóður. Ég hef oft verið spurð: „Hvernig leið þér?“ Þá svara ég: „Ef fólkið hefði séð hvernig mér leið þá hefði það væntanlega beðið mig að yfirgefa svæðið og séð undir iljarnar á mér út um hurðina!“ Þegar ég fór að starfa áttaði ég mig á því að ég kunni lítið sem ekkert! Ég hóf gönguna og hugsaði oft: „Guð minn góður hvað er ég búin að koma mér út í.“ Og á engum tíma fannst mér ég bera ábyrgð á heilu samfélagi og var vakin og sofin yfir þeim konum sem ég sinnti í mæðravernd og heimaþjónustu. Mæðraverndin er mjög krefjandi þegar maður er einn og þarf að stóla á sjálfan sig. Ég var líka með vaktsíma sem ég slökkti aldrei á af ótta við að missa af konu í fæðingu. Ég vakn- aði oft upp á nóttunni og velti fyrir mér hvort ég hefði ekki átt að senda konuna, hafa hana í lengra riti, hlusta lengur, þreifa betur, já eða bara hreinlega taka hana með mér heim og passa hana sjálf þar. Þetta var algjör eldskírn fyrstu tvö árin svo mikið er víst og ég hef lent í alls konar tilfellum og mörgu sem ég varla vissi að væri til. Það sem mér hefur fundist erfiðast við starfið er að vita aldrei hvað gerist næst, sem getur líka verið kostur en einnig haft truflandi áhrif. Það að vera ein með konu í fæðingu, jafnvel þó hún sé innan veggja spítala, tekur á. Til eru þær ljósmæður sem segja: „Af hverju leyfirðu ekki konunum bara að fæða hjá þér?“ Það er tvennt ólíkt að vinna inni á sjúkrahúsi með fullt af sérfræðingum á bak við sig en að vera ein úti á landi og vera eini sérfræðingurinn og jafnframt bera ein alla ábyrgðina. Ég veit að okkur er tamt að líta á fæðingar sem eðlilegt ferli, en það er þó þannig að það getur ýmislegt gerst og þá er gott að vera í radíus við sjúkrahús til að fá aðstoð. Ég hef verið með hraustar konur í eðlilegri meðgöngu í fæðingu þar sem hlutirnir þróast ekki alveg eins og maður lagði upp með. Það er svo sannarlega mikil ábyrgð og maður þarf alltaf að vera tilbúin að hlutirnir fari stundum öðruvísi en maður hefði óskað og það getur tekið á ljósmóðurhjartað að lifa með því, sér í lagi þegar það er óþroskað og viðkvæmt! Það er ljóst að samband ljósmóður og konu í mæðravernd á svona litlum stað getur verið mjög náið. Ljósmóðirin fylgir konunum að jafnaði frá því þær vita af þunguninni og þangað til barnið er 6 vikna gamalt. Samfellan er því mikil og mér finnst hún það allra mikilvæg- asta í starfinu. Ósjálfrátt fer manni að þykja vænt um konuna og þá sem að henni standa, því getur stundum verið erfitt að klippa á strenginn við 6 vikurnar. Nánast allar konurnar fæða á Akureyri en einhverjar í Reykjavík. Langflestar velja það að koma í heimaþjónustu. Þannig að stundum er æði mikið að gera fyrir eina ljósmóður og í mörg horn að líta. Konur á þessu svæði hafa frekar greiðan aðgang að ljósmóður og eru mjög duglegar að nýta sér þá þjónustu sem er í boði. Fyrir allnokkru bauðst mér að fara í þjálfun hjá Krabbameinsfélaginu og sinna krabba- meinsleit í mínu umdæmi. Það hefur gefist mjög vel og verið góð mæting í skipulagða leit sem og sýnatökur utan hópleitar. Þannig að það er líf úti á landi fyrir ljósmæður, það gerist ekki allt á Landspítalanum. Það sem er mikilvægast í þessu er að ljósmæður sjálfar séu duglegar að skapa sér starfsvettvang og byggja ofan á hann. Ekki einblína bara á fæðingar, því þetta ferli er svo miklu meira en bara fæðingar. Það er það sem ég hef lært á þessari einveru minni hérna í sveitinni. Það sem skiptir líka höfuðmáli í þessu öllu er heildarmyndin, ef konan er örugg og henni líður vel á meðgöngu eru miklar líkur á því að henni gangi vel að fæða og ferlið eftir það verði einnig farsælt. Þó það komi stundum tímar þar sem ég hugsa af hverju í ósköpunum ég sé að leggja þetta á mig, þá er þetta starf besta starf sem hægt er að hugsa sér að mínu mati en jafnframt það erfiðasta þegar aðstæður eru þess eðlis. Ég fæ ævinlega klassíska spurningu þegar ég hitti aðrar ljósmæður: „Finnst þér ekki leiðinlegt að vera ekki í fæðingum?“ „Það er svo fáránlegt að leyfa ekki fæðingar í heimabyggð,“ er svo það sem fylgir oftast á eftir. Svarið mitt við spurningunni er: „Nei, mér finnst það ekki leiðinlegt því ég hef áttað mig á því að starfið er svo miklu meira en bara fæðingar.“ Fæðingin ein og sér tekur stuttan tíma, en meðgangan og sængurlegan er svo miklu meira krefjandi verkefni og tekur mun lengri tíma. Því skiptir máli að nýta þann tíma vel til undirbúnings og fræðslu fyrir komandi verkefni. Ég get líka fylgt mínum konum yfir á Akureyri og tekið á móti þar ef ég vil, en það kostar tíma og persónu- legar fórnir og þá er mikilvægt að þekkja mörkin sín og muna að maður er ekki ómissandi. Ef maður hugsar sér Íslandskortið þá sér maður að konur á þessu svæði sem ég sinni eru ekki illa staddar hvað varðar fæðingarstað. Það er enginn fæðingarstaður frá Selfossi að Neskaupstað sem dæmi, sem eru mun fleiri kílómetrar en milli Sauðárkróks og Akureyrar. Einnig er Anna María (t.h) ásamt systur sinni og barni hennar.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.