Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 24

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 24
24 Ljósmæðrablaðið - desember 2015 til nýlega héldu menn að tekist hefði að útrýma sjúkdómnum í þeim heimshluta algerlega (Walker og Walker, 2007). Með endurkomu meðfæddrar sárasóttar í Evrópu hefur verið kallað eftir auknu átaki í skimun sárasóttar í mæðravernd. Barnshafandi konur sem mæta ekki í mæðravernd, þær sem koma úr minnihlutahópum og þær konur sem eru í neyslu eru í sérstökum áhættuhóp fyrir sárasóttarsmit. Þjónusta við barnshafandi konur þarf að ná til þessara hópa og ætti að skima þær allar, sem og börnin þeirra, áður en þær fara af fæðingardeildinni. Kostnaður Þar sem tilfellum sárasóttar hafði fækkað verulega í hinum vest- ræna heimi kom upp sú spurning hvort hætta ætti almennri skimun fyrir sjúkdómnum hjá barnshafandi konum. Þetta varð til þess að t.d. í Noregi (Stray-Pedersen, 1983) og Bretlandi var gerð fjárhagsleg úttekt á arðsemi skimunar (Williams, 1985). Í báðum úttektum voru gefnar þær forsendur að ef þunguð kona hefði sárasótt og fengi ekki sýklameðferð yrðu afleiðingar þess eftirfarandi: 80% barnanna myndu sýkjast, 30% fæðast andvana, 10% látast í eða eftir fæðingu og 40% verða þroskaheft og/eða líkamlega fötluð. Helmingur af þeim síðast- nefndu þyrftu vistun á stofnun og hin sérkennsluúrræði. Á Íslandi var gerð samskonar athugun undir lok áttunda áratugar síðustu aldar og reyndist tíðnin hér á landi þá vera 7,9/100.000 fæðingar. Ekki var reiknuð út arðsemi skimunar, en ef gefnar væru sömu forsendur og í Noregi væri niðurstaðan sú að fjárhagslega væri hagkvæmt að fram- kvæma almenna skimun hjá barnshafandi konum hér á landi. Taka ber einnig fram að ekkert barn fæddist með meðfædda sárasótt á Íslandi á þessum tíma sem bendir til að skimunin beri árangur (Alexander Kr. Smárason, Reynir Tómas Geirsson, Jón Hjaltalín Ólafsson og Ólafur Steingrímsson, 1990). Meðferð á meðfæddri sárasótt getur verið mjög kostnaðarsöm. Sem dæmi má nefna að í Bandaríkjunum er barn með meðfædda sárasótt að jafnaði sjö og hálfum degi lengur á spítala en önnur börn (Bateman, Phibbs, Joyce og Heagarty, 1997). Samkvæmt Hagdeild Landspítal- ans er kostnaður á hvern legudag á vökudeild að meðaltali 199.500 kr. Er þar um að ræða allan kostnað viðkomandi legu (Kristlaug H. Jónasdóttir, 2015) en áætlað er að barn með meðfædda sárasótt þurfi að dvelja að jafnaði sjö og hálfum degi lengur á vökudeild en það gerir samtals 1.496.250 kr. Að auki þarf að reikna inn í kostnaðinn marga óbeina þætti, svo sem aukinn kostnað heilbrigðiskerfisins vegna ýmissa kvilla sem kunna að hrjá þessi börn seinna meir. Áætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar Árið 2007 kom Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin af stað alheims átaki til að útrýma meðfæddri sárasótt, með það markmið að skima ætti 90% allra barnshafandi kvenna fyrir sárasótt árið 2015 og að minnsta kosti 90% kvenna sem reyndust sermi-jákvæðar skildu fá viðeigandi meðferð (World Health Organization, WHO, 2007). Þetta átak væri í samræmi við aðra þætti almennrar heilsuverndar, svo sem viðunandi aðgang að og gæði mæðraverndar og aðgang að og gæði kembileitar á sárasótt í mæðravernd (Schmid o.fl., 2007). Til að styðja við alheims frumkvæðið lagði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mat á fjölda sárasóttartilfella hjá barnshafandi konum á heimsvísu og tengdum aukaverkunum á meðgöngunni og í fæðingu. Þetta mat frá 2008 bendir til að sárasótt sé áfram mikilvægur áhrifavaldur þegar kemur að dánartíðni og tilfellum alvarlegra veikinda á meðgöngu (World Health Organization, WHO, 2008). Þetta vekur ugg í ljósi þeirrar staðreyndar að helstu forvarnir eru almenn skimun fyrir sára- sótt í mæðravernd og tafarlaus meðferð fyrir þær konur sem reynast jákvæðar. Það hefur einnig reynst afar hagkvæmt, jafnvel á svæðum þar sem tíðni sárasóttar er mjög lág. Matið sýnir einnig að bæta ætti skimun sárasóttar í mæðravernd á öllum svæðum heimsins þar sem það gæti haft veruleg áhrif til lækkunar burðarmálsdauða og fötlunar. Áætlanir sýna að árið 2008 hafi yfir 520.000 alvarlegra tilfella á meðgöngu mátt rekja til sárasóttar. Um 215.000 þeirra hafi verið andvana fæðingar eða fósturlát, 90.000 hafi verið andlát fyrirbura, 65.000 barna hafi haft lága fæðingarþyngd eða fæðst fyrir tímann og önnur 150.000 hafi verið sýktir nýburar. Gögnin benda til að í tveimur þriðju alvarlegra tilfella vegna sárasóttar hafi mæður mætt í mæðra- vernd að minnsta kosti einu sinni, en voru annaðhvort ekki skimaðar eða, ef þær reyndust jákvæðar, höfðu ekki fengið viðeigandi penisillín meðferð. Með almennri mæðravernd í upphafi meðgöngu og skimun fyrir sárasótt auk virkra meðferða við greindum tilfellum hefði mátt koma í veg fyrir mikinn meirihluta þessara tilfella. Með núverandi heilbrigðiskerfi tókst að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar í einu af hverjum fjórum tilfellum á heimsvísu árið 2008. Koma hefði mátt í veg fyrir meira en helming þessara tilfella ef á þeim tíma hefði verið búið að ná markmiðum í prófunum og meðferðum sem sett voru fyrir árið 2015 af WHO (Newman o.fl., 2013). LOKAORÐ Í þróuðum löndum hefur tíðni sárasóttar verið mjög lág en svo virð- ist vera sem einhver aukning hafi átt sér stað hin allra síðustu ár. Er sú aukning að mestu hjá mönnum sem stunda kynmök með mönnum. Byggt á gögnum frá 2003 og 2004 er áætlað að meira en 60% tilfella sárasóttar greinist hjá þeim hópi (CDC, 2006). Rannsóknir hafa sýnt að stór hluti þessara karlmanna sofa einnig hjá konum. Rannsókn Wade o.fl. (2005) um smithættu kynsjúkdóma og HIV hjá mönnum sem sofa hjá mönnum í Senegal sýndi að á svæðum þar sem tíðni kynsjúkdóma er mjög há, þá stunda allt að 94% manna sem sofa hjá mönnum einnig kynlíf með konum. Þetta hlutfall reyndist 33% í Bandaríkjunum (Binson, Michaels, Stall, Coates, Gagnon og Catania, 1995) og 79% í Rússlandi (Amirkhanian, Kelly og Issayev, 2001). Frá því hafist var handa við skimanir hjá barnshafandi konum í efnaðri löndum hefur nánast tekist að útrýma meðfæddri sárasótt. Lykillinn að árangursríkri meðferð við sjúkdómnum og því að koma í veg fyrir smit frá móður til barns liggur í því að greina sjúkdóminn snemma á meðgöngu og hefja meðferð tafarlaust ef jákvæð greining fæst. Ef takast á að útrýma meðfæddri sárasótt þarf að innleiða öfluga mæðravernd með hagkvæmum lausnum, hvar sem er í heiminum og sér í lagi á þeim svæðum þar sem tíðni sárasóttar er há. Hér á landi hefur sú umræða komið upp hvort réttlætanlegt sé að veita fjármunum í skimun á meðgöngu í ljósi lágrar tíðni sárasóttar á Íslandi. Ekki er eingöngu hægt að líta á kostnaðinn við skimun til samanburðar við þann kostnað sem hlýst af meðhöndlun nýbura á vökudeild með meðfædda sárasótt. Aukinn kostnaður sem myndi falla á heilbrigðiskerfið þegar að barnið eldist vegna hugsanlegra aðgerða, sérkennsluúrræða og vistana á stofnunum eru atriði sem þarf einnig að horfa til. Skimun á meðgöngu er mikilvægur þáttur í að meta tíðni sjúkdómsins, sér í lagi meðal kvenna á barneignar- aldri og því að hindra frekari útbreiðslu. Verði skimun sárasóttar á meðgöngu hætt er ekki víst að hægt verði að greina aukningu á tíðni jafn skjótt því einkenni meðfæddrar sárasóttar koma jafnvel ekki fram fyrr en á kynþroskaaldri. Þannig getur rúmlega áratugur liðið áður en nákvæmar tölur um aukningu koma fram. Á þeim tíma getur margt gerst og hætta á að allur sá árangur sem hefur áunnist í baráttu við sárasótt undanfarin sjötíu ár tapist. HEIMILDASKRÁ Alexander Kr. Smárason, Reynir Tómas Geirsson, Jón Hjaltalín Ólafsson og Ólafur Steingrímsson. (1990). Árangur kembileitar að sárasótt í þungun. [rafræn útgáfa]. Læknablaðið, 76, 351‒355. Arnold, S. R., Ford-Jones, E. L. (2000). Congenital syphilis: A guide to diagnosis and management. Paediatrics & Child Health, 5(8), 463‒469. Bateman, D. A., Phibbs, C.S., Joyce, T. og Heagarty, M. C.(1997). The hospital cost of congenital syphilis. The journal of pediatrics, 130(5), 752‒758. Buchacz, K., Petal, P., Taylor, M., Kerndt, P. R., Byers, R. H., Holmberg, S. D. og Klausner, J. D. (2004). Syphilis increases HIV viral load and decreases CD4 cell counts in HIV infected patients with new syphilis infections. AIDS, 18(5), 2075– 2079. Centers for Disease Control and Prevention. (1999). The national plan to eliminate syphilis from the United States. Sótt 22. apríl 2015 af http://www.cdc.gov/ stopsyphilis/Plan.pdf Centers for Disease Control and Prevention. (2006). Together we can. The national plan to eliminate syphilis from the United States. Sótt 24. apríl 2015 af http://www.cdc. gov/stopsyphilis/seeplan2006.pdf Centers for Disease Control and Prevention. (2014). Primary and Secondary Syphilis — United States, 2005–2013. Morbidity and Mortality Weekly Report, 63(18), 402‒406.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.