Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 6

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 6
6 Ljósmæðrablaðið - desember 2015 Árið 2015 hefur verið erfitt í allri kjarabaráttu og það var það svo sannarlega fyrir ljósmæður líka. Það er ekki ætlunin að fara að rekja atburði ársins hér enda öllum í fersku minni. Það er þó langt í frá að þetta sé í fyrsta sinn sem ljósmæður standa í baráttu. Það vakti mig til umhugsunar þegar Erla Doris Halldórsdóttir, sem er að skrá sögu félagsins sl. 30 ár og áætlað er að komi út á 100 ára afmælinu, sagði við mig hvað það væri skrýtið hvað ljósmæður hefðu þurft að berjast mikið fyrir sínu, miklu meira en bæði hjúkrunar- fræðingar og læknar. Ég fór að hugsa um stéttina og fagið í heild sinni og sé að þetta er rétt. Nær ekkert hefur komið auðveldlega til okkar. Þegar ég fór að skoða skjalasafn félagsins komst ég að því að sem formaður félagsins er ég númer 16 í röðinni, í sama sæti og hið eftirminnilega lag Gleðibankinn forðum daga. Hver einstakur formaður á undan mér hefur haft sín sérstöku baráttumál. Til dæmis þurfti að berjast hart fyrir því að fá ljós- mæður inn í heilsugæsluna og í erindisbréfi hjúkrunarforstjóra við heilsugæslustöð frá 1980 stendur að hjúkrunarforstjóri skuli annast eða hafa umsjón með mæðravernd og ung-/smábarnavernd. Einnig átti hún að annast ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf, barneignir, fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Mæðravernd mátti ef kostur var vera í höndum ljósmóður. Það er ekki langt síðan þetta var en nú finnst okkur þetta sjálfsagt mál að ljósmæður starfi við heilsugæsl- una og eiginlega bara hlægilegt að þannig hafi það ekki alltaf verið svo. Einnig þurfti baráttu til að deildarstjórar á kvennadeild yrðu ljósmæður og ekki má gleyma stanslausri baráttu við barnalækna um ýmis málefni. Fyrst skal telja baráttu fyrir frönsku aðferðinni sem læknar voru alfarið á móti og veittust þeir freklega að Huldu Jensdóttur ljós- móður sem var fyrir um 35 árum að reyna að innleiða þessa aðferð sem samkvæmt nútímanum er ekki einu sinni aðferð heldur almenn skynsemi eins og til dæmis að draga úr ljósum á fæðingarstofunni og að barnið fari strax í fang móður. Rök læknanna voru meðal annars að ef ljós yrðu dempuð mundu ljósmæðurnar ekki sjá naflastrenginn. Það var barátta fyrir vatnsfæðingum og voru þar ýmis þung orð látin falla af hálfu lækna. Ekki má gleyma baráttu fyrir heimafæðingum. Sú barátta stendur hálfpartinn ennþá og er mikilvægt að allt gangi vel og samkvæmt bókinni til að ekki gjósi upp mótstaða þar. Margt fleira má telja sem tapast hefur. Búið er að leggja niður starfsemi þar sem ljósmæður réðu ríkjum, þar er fremst í flokki Fæðingarheimilið, MFS og Hreiðrið. Ýmsir staðir í dreifbýlinu sem áður voru fæðingarstaðir eru það ekki lengur. Þá er ótalin staða yfirljósmóður við Heilsugæsluna í Reykjavík. Í mínum huga eru aðallega tvær ástæður fyrir því að það er slæmt að misaa þá stöðu, það er slæmt að missa “valdastöður” ú höndum ljósmæðra og það er eðlilegt að ljós- mæður hafi formlega faglegan yfirmann og eins vantar „góðar“ og eftirsóknarverðar stöður fyrir ljósmæður. Það eru mörg fleiri mál sem ljósmæður hafa barist fyrir og unnið sum en tapað líka. Það verður þannig að þegar mál vinnast og árin líða þá man enginn lengur eftir því að þetta kostaði baráttu. Þess vegna er svo mikilvægt að missa ekki neitt frá okkur sem búið er að berjast fyrir áður. Ljósmæður eru mjög vel menntuð stétt sem þarf að nýta betur, það getur ekki verið eðlilegt að jafnmargar ljósmæður útskrifist nú og fyrir 100 árum þrátt fyrir helmingi fleiri fæðingar og mun meiri heilsufarsvanda mæðra. Baráttan heldur áfram, við þurfum fleiri stöður og að víkka okkar starfssvið og við þurfum aukin völd innan “kerfisins”. Við getum glaðst yfir því að vera komnar með nánast alla sýnatöku vegna hópleitar Krabbameinsfélagsins en við megum ekki stoppa þar. Við verðum sem stétt að vera vakandi fyrir þeim tækifærum sem gefast og grípa þau. Nú er verið að ræða breytt rekstrarform í heilbrigðiskerfinu (lesist einkavæðing). Við getum ekki komið í veg fyrir breytingarnar, hvaða skoðun sem við kunnum að hafa á þeim svo að það er mikilvægt að grípa tækifæri sem þar gefast ef einhver verða. Aldrei má sofna á verðinum nú frekar en áður. Ljósmæður hafa sýnt það undanfarna tæpa öld að þær eru baráttujaxlar og bara það að litla félagið okkar skuli enn lifa góðu lífi og hafa styrkst á þessu erfiða ári 2015 sýnir úr hvaða efni stéttin er gerð. Ég vil þakka öllum þeim félagsmönnum sem starfað hafa fyrir félagið á árinu fyrir sitt óeigingjarna starf og óska öllum ljós- mæðrum og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Áslaug Valsdóttir formaður Ljósmæðrafélags Íslands Barátta ljósmæðra Á V A R P F O R M A N N S L M F Í

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.