Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 40

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 40
40 Ljósmæðrablaðið - desember 2015 við að skrifa meistararitgerð og var að reyna að einbeita mér að ljósmóðurtengdu efni. Ég átti líka að taka próf í tölfræði og halda fyrirlestur á Íslandi um rannsóknina mína um jólin svo mér fannst ég ekki hafa neinn tíma strax til að lesa þessa bók. En líklega hefur mér gengið illa þarna einhvern daginn við ritgerðina og þá ákveðið að kíkja í bókina, fletta henni lauslega. Þá var ekki aftur snúið, ég sogaðist um leið inn í atburðarásina. Ég kannaðist reyndar við söguna um Agnesi og Natan í gegnum Vatnsenda-Rósu frá því í gamla daga. Og svo verð ég víst að uppvísa að sýslumaðurinn sjálfumglaði Björn Blöndal var forfaðir minn. Pabbi (sem var reyndar stoltur af blóðböndunum) var vanur að rifja upp þessa sögu þegar við keyrðum í gegnum Vatnsdalinn – að þar hafi síðasta aftakan á Íslandi farið fram. Frá síðu eitt fann ég að Agnes Magnúsdóttir myndi kenna mér eitthvað alveg sérstakt um lífið – og þar með um ljósmóðurstörf – og ég gat því sökkt mér í lesturinn þarna í meistaraskrifunum án sekt- arkenndar um að vera að svíkjast undan lærdómnum. Um leið varð ég hissa á því hvað ég þekkti í raun þessa sögu illa. Til að gera langa sögu stutta þá er bakgrunnur bókarinnar drápið á Natani Ketilssyni og gesti hans Pétri Jónssyni á Illugastöðum árið 1828. Agnes Magn- úsdóttir, Sigríður Guðmundsdóttir og Friðrik Sigurðsson eru dæmd ábyrg fyrir morðunum og bíða þess að aftakan fari fram. Við lesendur fáum innsýn í hugarheim Agnesar – heim konu sem hefur stritað allt sitt líf en býr yfir frjálsum huga og þrá um betra líf – en er fangi eigin aðstæðna. Þegar við kynnumst henni er hún dæmdur morðingi fyrir morðið á Natani sem er stóra ástin í lífi hennar (samkvæmt bókinni). Með honum hafði hún látið sig dreyma um betra líf. En hann sveik hana – rétt eins og hann kom illa fram við aðrar konur og flesta þá sem urðu á vegi hans. Við fáum að skyggnast inn í líf Agnesar þessa síðustu mánuði í lífi hennar þar sem hún setur undanfara þessara atburða í samhengi í samræðum sínum við „sáluhirði sinn“, séra Þorvarð Jónsson. Við kynnumst einnig aðstæðum og lífi annarra í þessu litla og einangr- aða sveitasamfélagi. Agnes er send að Kornsá, heimili í Vatnsdalnum, og þar á hún að bíða eftir dómsdegi. En hver vill fá dæmdan morðingja inn á sitt heimili? Þetta reynist nærsamfélaginu erfitt og húsmóðirin á Kornsá, Margrét, er í upphafi mjög mótfallin þessari ráðstöfun. En áhrifarík er hún lýsingin á því þegar Agnes er leidd inn á heimilið, óhrein og niðurlægð og hvernig húsmóðirin Margrét finnur til rétt- látrar reiði. Þegar hún sér manneskjuna á bak við glæpinn finnur hún að allar manneskjur eiga sér málsbót. Fólk á rétt á manneskjulegri umhyggju og virðingu. Og söguna til enda mun persóna og mann- gæska Margrétar koma betur og betur í ljós. Höfundur bókarinnar Hanna Kent hefur sagt að þessi saga sé myrkt ástarljóð til Íslands. Hún hafi viljað að fólk fyndi fyrir kuld- anum, myrkrinu og einangruninni – rétt eins og fyrsta reynsla hennar sjálfrar var af veru sinni á Íslandi, nánar tiltekið á Sauðárkróki sem 17 ára skiptinemi frá Ástralíu. Þegar hún heyrði fyrst söguna af Agnesi fann hún fyrir sterkum tengslum við þessa konu. Sú hugsun og tilfinning að vera utangátta – að vera á skjön – vék ekki úr huga hennar. Og svo sannarlega tekst Hönnu Kent með næmum hætti að setja sig inn í aðstæður formæðra og forfeðra okkar. Lesandanum finnst hann í raun vera staddur sem fluga á vegg við heimilisstörf á Kornsá – við bágar aðstæður, í myrkri og kulda. Þá er ljóst að þýðandinn hefur einnig unnið afrek með þætti sínum í sögunni. Um þessa bók hefur mikið verið skrifað og líklega hafa margar ljósmæður nú þegar lesið söguna. Hér er ekki meiningin að vera með hefðbundna bókarýni eða velta því upp hvort Agnes hafi verið höfð fyrir rangri sök. Fyrir mér liggja töfrar bókarinnar ekki í því hvort hér sé brugðið upp nýrri sýn á sjálfan glæpinn heldur miklu fremur í því innsæi sem höfundur bregður upp af veröld kvenna og aðstæðum þeirra – og hvernig samfélagið tekst á við þetta þroska- verkefni að hafa dæmdan morðingja sem þátttakanda í lífinu sjálfu. Spurningin sem ég varpa fram er: Hvað getur Agnes og konurnar í kringum hana kennt okkur um ljósmóðurfræði? Í Náðarstund er átakanleg fæðingarsaga. Þegar hér er komið sögu í bókinni höfum við kynnst Agnesi betur og á Kornsá er henni smám saman að takast að aftengja sig frá glæpnum. Ekki eru þó allir sveit- ungar hennar sannfærðir um réttmæti þess að hún fái að afplána þarna í sveitinni. „Barnið bar ekki rétt að,“ sagði Agnes þeim eftir að hafa stigið óvænt fram og lagt hönd á kvið Róslínar. Róslín hafði æpt og heimtað að hinar rækju Agnesi burt en hvorki Margrét né Ingi- björg höfðu sinnt því. Og þótt Róslín slægi á hendur Agnesar og klóraði handleggina hélt hún áfram að styðja á þrútið legopið með mjóum fingrum sínum. „Það er sitjandi,“ hafði hún sagt. Þá hafði Róslín stunið og hætt að brjótast um. Hér er gripið inn í söguna þar sem Róslín berst fyrir lífi sínu og barns síns. Þetta er hennar ellefta barn. Það er þungt yfir og engin fagmanneskja kemst til að aðstoða við fæðinguna – hjálpin er sótt á næsta bæ. Sú kona sem Róslín hefur síðustu mánuði fordæmt og fyrirlitið, lýst yfir vanþóknun og ótta við veru hennar í sveitinni verður bjargvættur hennar. En vitaskuld stóð Róslín uggur af að sjá Agnesi þarna í dyragættinni – í óveðrinu – Agnes var jú dæmdur morðingi. En Agnes sendir eftir jurtum heim á Kornsá – hún hefur áður aðstoðað við fæðingar og veit sitthvað um grasafræði. Þegar heitt vatnið var borið að vörum Róslínar beit hún saman tönnunum og neitaði að drekka. „Þetta er ekki eitur“ hafði Margrét sagt. „Engar tiktúrur núna.“ Þá hafði eitthvað gerst, eitt andartak. Gagnkvæmt tillit fór á milli þeirra Agnesar. Snöggt stirðlegt bros. Barnið kom sitj- andi, eins og Agnes hafði sagt. Fætur fyrst, blóði drifnar tær gægðust fram, svo líkami og loks höfuð og strengurinn vafinn um herðar og háls. En barnið var lifandi og annað þurfti Róslín ekki að vita. Með þessum gjörðum sínum – með þekkingu sinni á ljósmóð- urstörfum – breytist líf Agnesar enn til hins betra. Viðvera hennar og þekking hefur bjargað lífi og það vita þeir sem til þekkja í sveitinni. En hver er í raun þekkingin sem Agnes hefur fram að færa? Hvernig lítur það út frá sjónarhorni hinnar fæðandi konu? „Inngrip“ Agnesar er nærveran sjálf. Fyrir Róslín var það ógnvekj- andi að sjá Agnesi standa í dyragættinni og enn frekara inngrip að finna snertingu hennar. Róslín bítur frá sér og klórar í handlegg Agnesar. Hún vill ekki hafa þessa nærkonu þarna. En innst inni veit hún að það eru ekki aðrir kostir í stöðunni. Fæðingin tekur líka óvænta stefnu – gagnkvæmt tillit, stirðlegt bros. Barnið fæðist og er heilbrigt og annað þurfti hin nýbakaða móðir ekki að vita – eða svo er okkur sagt. En þýðir það að Róslín hafi tekið Agnesi í sátt? Og hvernig mun þessi fæðingarreynsla verða út frá sjón- arhóli móðurinnar í baksýnisspeglinum? Hefur reynslan jafnvel gert Róslín að víðsýnni manneskju eða mun það ásækja hana að „óvinurinn“ hafi brotist inn í hennar innstu fylgsni? Það er þannig með tímann að hvort sem það var fyrir tvö þúsund árum, tvö hundruð árum eða tveimur árum, þá skín í gegn spurn- ingin með hvaða umhyggju ljósmóðirin nálgast starf sitt og færir þá nærgætni yfir á hina verðandi móður. Það er þess vegna sem hin klunnalega, en um leið mannlega ljósmóðir Chummy Noakes í Call the midwife höfðar strax til okkar. Hún stendur með konunni og setur sig inn í líf hennar – blæs henni í brjóst sjálfstraust og öryggi – hver sem konan er. Í myndbroti Náðarstundar er Agnes ekki að bjarga sjálfri sér – en hún getur ekki annað en stigið fram og notað þekkingu sína til hjálpar Róslín. Staðreyndin er þó sú að Róslín er sú eina sem getur svarað því hver upplifun hennar á hjálp Agnesar er. Og af því ljósmóðurstörf eru lífið sjálf, þá er sannarlega auðvelt að sækja sér andagift í bækur, sögur og skáldskap og auka þannig við eigin þekkingargrunn í ljósmæðrafaginu. Þar brýst lífið fram í öllum sínum margbreytileika – rétt eins og í starfinu – og tíminn verður afstæður en þörf hinnar fæðandi konu fyrir umhyggju og virðingu verður alltaf sú sama.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.