Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 12

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 12
12 Ljósmæðrablaðið - desember 2015 arstols. Fimm þeirra bentu til að ekki væri munur á tíðni áhalda- fæðinga hjá konum með átröskun samanborið við konur án sjúk- dómsins (Bulik o.fl., 1999; Eagles o.fl., 2012; Koubaa o.fl., 2005; Micali o.fl., 2012; Pasternak o.fl., 2012). Ein rannsókn skoðaði tengsl á milli tvíburafæðinga og átröskunar. Þar kom í ljós að konur með átröskun af einhverju tagi voru líklegri en konur án átröskunar til að eignast tvíbura (Micali o.fl., 2014). Í tveimur rannsóknum var skoðað hvort tengsl væru milli blæð- ingar eftir fæðingu og átröskunarsjúkdóma (Bulik o.fl., 1999; Pasternak o.fl., 2012) en í hvorugri þeirra kom fram munur. Tólf rannsóknir komu fram þar sem athugað var hvort konur með átröskun væru líklegri til að fæða létt barn eða barn sem er lítið miðað við meðgöngulengd (léttbura). Í sex þeirra kom fram að konur með átröskunarsjúkdóma voru marktækt líklegri til að eignast létt börn en konur án slíkra sjúkdóma (Conti o.fl., 1998; Eagles o.fl., 2012; Ekéus o.fl., 2006; Linna o.fl., 2014; Micali o.fl., 2007; Sollid o.fl., 2004). Sjö rannsóknanna leiddu í ljós auknar líkur á fæðingu léttbura hjá konum með átröskun samanborið við konur án átrösk- unar (Bulik o.fl., 2009; Bulik o.fl., 1999; Conti o.fl., 1998; Koubaa o.fl., 2005; Sollid o.fl., 2004; Linna o.fl., 2014; Pasternak o.fl., 2012). Þá sýndu sex rannsóknir að konur með lystarstol væru líklegri til þess að eignast létt börn sem og léttbura en konur án lystarstols (Bulik o.fl., 1999; Koubaa o.fl., 2005; Micali o.fl., 2007; Linna o.fl., 2014; Sollid o.fl., 2004; Eagles o.fl., 2012). Hins vegar kom fram í rannsókn Eagles o.fl. (2012) að munurinn var ekki marktækur eftir að leiðrétt var gagnvart líkamsþyngdarstuðli kvenna fyrir þungun. Niðurstöður Bulik o.fl. (1999) var að konur sem einungis voru með lystarstol eignuðust marktækt léttari börn en konur með bæði lotu- græðgi og lystarstol. Tvær rannsóknir sýndu að konur sem höfðu áður fengið lystarstol voru líklegri til þess að eignast létt börn heldur en samanburðarhópur (Ekéus o.fl., 2006; Koubaa o.fl., 2005). Niður- stöður Koubaa o.fl. (2005) gáfu einnig til kynna að konur með virka átröskun voru líklegri til að eignast léttbura en konur án átröskunar og munur á hópunum var afgerandi, þ.e. 12 á móti 1 í samanburð- arhópi. Aftur á móti greindu Ekéus o.fl. (2006) engan mun á þessum hópum. Vert er þó að benda á að ekki voru konur með virka átröskun í rannsókn Ekéus o.fl. (2006) og gæti það skýrt þennan mun á niður- stöðum. Ein rannsókn sýndi að konur innlagðar á sjúkrahús vegna átröskunar fyrir meðgöngu voru tvisvar sinnum líklegri til að eign- ast barn með litla fæðingarþyngd en konur í samanburðarhópi. Tími frá innlögn virtist ekki skipta máli þar sem fæðingarþyngd var lítil hvort sem konur höfðu verið lagðar inn fyrir meira eða minna en átta árum. Niðurstöður rannsóknarinnar voru jafnframt að konur í átrösk- unarhópnum voru líklegri til þess að eignast léttbura þar sem hættan jókst um allt að 70‒80% miðað við samanburðarhóp (Sollid o.fl., 2004). Tvær nýlegar rannsóknir sýndu ekki neinn mun á fæðingar- þyngd né tíðni léttburafæðinga miðað við meðgöngutíma hjá konum sem höfðu einhvern tíma fengið átröskun í samanburði við konur án sjúkdómsins (Micali o.fl., 2012; Nunes o.fl., 2012). Sex rannsóknir komu fram þar sem skoðuð voru tengsl átröskunar við fæðingu þungbura. Í tveimur þeirra reyndust konur með lotuofát líklegri til að eignast þungbura heldur en samanburðarhópur (Bulik o.fl., 2009; Linna o.fl., 2014). Fjórar rannsóknanna sýndu ekki fram á nein tengsl milli átröskunar og fæðingar þungbura (Ekéus o.fl., 2006; Micali o.fl., 2007; Nunes o.fl., 2012; Pasternak o.fl., 2012). Ein rannsókn fjallaði um hvort konur sem áður höfðu fengið átröskun eignuðust frekar börn með lítið höfuðummál (Koubaa o.fl., 2005). Niðurstöðurnar bentu til að mæður með bæði lotugræðgi og lystarstol væru mun líklegri til að eignast barn með lítið höfuðum- mál en konur sem voru einungis með lystarstol. Þá leiddu niður- stöður sömu rannsóknar í ljós að konur með virka átröskun voru mun líklegri til að eignast barn með höfuðsmæð. Munur hópanna var áberandi, þ.e. 16% í átröskunarhópnum á móti 0% í samanburð- arhópi. Í þremur rannsóknum var kannað hvort andvana fæðingar eða burðarmálsdauði væru algengari hjá konum með átröskun en hjá þeim sem vou ekki með átröskun. Ein rannsóknin sýndi að auknar líkur væru á burðarmálsdauða hjá konum með lystarstol samanborið við konur án átröskunar (Linna o.fl., 2014) en í hinum tveimur rann- sóknunum var ekki marktækur munur á hópum (Ekéus o.fl., 2006; Micali o.fl., 2012). Ein rannsókn snerist um fæðingarþunglyndi og kom í ljós samband á milli átröskunar og fæðingarþunglyndis þar sem konur með virka lotugræðgi fundu marktækt frekar til fæðingarþunglyndis en konur með óvirka lotugræðgi (Morgan o.fl., 2006). UMRÆÐUR Áður en fjallað er um niðurstöður þessarar samantektar er vert að taka fram ákveðnar takmarkanir sem hafa verður í huga við túlkun þeirra. Þar ber helst að nefna val á rannsóknum og gæði rannsókna sem völdust í samantektina. Við val á rannsóknum var miðað við að bornar væru saman konur með einhvern átröskunarsjúkdóm, þ.e. lystarstol, lotugræðgi, lotuofát eða ótilgreinda átröskun, við konur án átröskunar. Greining átröskunar var mismunandi eftir rannsóknum. Flestir rannsakendur studdust við þriðju eða fjórðu útgáfu DSM (Bulik o.fl., 1999 og 2009, Conti o.fl., 1998; Koubaa o.fl., 2005 og 2013; Linna o.fl., 2013 og 14; Morgan o.fl., 2006; Pasternak o.fl., 2012), nokkrir notuðu mismunandi útgáfur af ICD (Bansil o.fl., 2008; Ekéus o.fl., 2006; Linna o.fl., 2013 og 2014; Sollid o.fl., 2004) og enn aðrir studdust við EDE/EDI (Conti o.fl., 1998; Morgan o.fl., 2006; Nunes o.fl., 2012). Engar rannsóknanna miðuðu við nýjustu útgáfuna af DSM-V sem kom út árið 2013. Í stöku tilvikum var stuðst við frásögn kvennanna sjálfra (Micali o.fl., 2007 og 2012). Í rannsókn Eagles o.fl. (2012) kemur fram að um staðfesta greiningu á lystarstoli sé að ræða en ekki samkvæmt hvaða greiningarstaðli. Við gerum ekki grein fyrir nákvæmum skilgreiningum á útkomubreytum rannsóknanna. Við völdum að greina ekki sérstaklega frá þeim í ljósi umfangs þessarar umfjöllunar og að markhópur hennar er ljósmæður. Þá ber að geta þess að snið rannsóknanna var mismunandi og þar með talið umfang og fjöldi þátttakenda og styrkur rannsóknanna í sumum tilvikum ekki nægur til að greina á milli hópa. Að þessu sögðu eru meginniðurstöður þessarar úttektar að rann- sóknum ber ekki saman um áhrif átröskunar á meðgöngu og fæðingu. Þó komu fram sterkar vísbendingar um áhrif átröskunar á fæðingarþyngd en í tíu af tólf rannsóknum kom fram að átröskun hjá móður hefur áhrif á fæðingarþyngd barns. Þyngdin getur verið meiri eða minni út frá tegund átröskunar. Hugsanleg skýring þess að fæðingarþyngd er fyrir utan skilgreind viðmiðunarmörk er trúlega næringarskortur fósturs í kjölfar vannæringar móður. Næring kvenna með lystarstol er ekki nægileg og sama má í raun segja um konur með lotugræðgi þar sem hreinsunarhegðun á sér oft stað áður en líkaminn nær að nýta næringarefnin úr fæðunni. Þetta samræmist niðurstöðum safngreiningar Solmi o.fl. (2013) en þar kom fram að lystarstol getur spáð fyrir um fæðingu léttari barna. Hvað varðar aðra fylgikvilla/útkomuþætti meðgöngu og fæðingar, þá eru niðurstöður rannsóknanna misvísandi og erfitt að draga raun- hæfar ályktanir um áhrif átröskunar á þá. Sjö rannsóknir sýndu marktækt samband á milli átröskunar við fæðingu fyrir tímann en fimm ekki. Hvað veldur er ekki augljóst en aðferðafræði þessara rannsókna er ekki það frábrugðin og land- fræðileg dreifing nokkur í báðum tilvikum. Marktækt samband við átröskun skýrist trúlega af þyngd barnshafandi kvenna fyrir fæðingu, þyngdaraukningu á meðgöngu, blóðleysi á meðgöngu og næringu á meðgöngu en allir þessir þættir skipta máli þegar horft er til útkomu fæðingar (Bansil o.fl., 2008). Þessar breytur voru þó ekki skoðaðar kerfisbundið í þeim 12 rannsóknum sem skoðuðu samband átrösk- unar við fyrirburafæðingar og því ekki hægt að segja til um áhrif þeirra í þessu samhengi. Fjórar af sjö rannsóknum, þar sem fósturlát var ein af útkomu- breytum, sýndu að fósturlát er algengara hjá konum með einhverja tegund af átröskun. Skýringar eru trúlega svipaðar og hvað varðar fyrirburafæðingar. Þessar niðurstöður ber að túlka varlega þar sem þrjár rannsóknir sýndu ekki fram á marktæk tengsl átröskunar og fósturláta.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.