Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 43
43Ljósmæðrablaðið - desember 2015
að finna ótrúlegt safn af frásögnum ljósmæðra á Íslandi á 19. og
20. öldinni. Ég ákvað að skoða frásagnir nokkurra ljósmæðra sem
störfuðu á svipuðum tíma og Villiauga út frá þessum hugleiðingum.
Voru ljósmæður á Íslandi líka ljósmæður af Guðs náð?
Í ljós kom að langflestar ljósmæðurnar sögðu frá því að þær
hefðu starfað á Guðs vegum og að þeim hafi verið falin mikil
ábyrgð, jafnvel af einhverjum æðri máttarvöldum. Ein ljósmóðir
skrifaði: „Ef ég væri spurð, hvers vegna ég gerðist ljósmóðir,
mundi ég svara, að það hafi verið einhver dulin öfl eða forlög,
sem því réðu fremur en eðlislöngun mín til þess að takast svo
ábyrgðarmikið verk á hendur.“ Önnur sagði: „Það var ekki gaman
að vera ljósmóðir í þá daga með lítinn lærdóm og allsleysið á
heimilinu, og að eiga að skila öllu heim í höfn. Þetta tókst þó
ótrúlega oft. Margar af þessum hjálparkonum voru ólærðar …
Með guðstrúna sem sinn eina styrk gengu þær um og líknuðu.“
Í nánast öllum frásögnunum eru setningar á borð við þessar:
„Ég hef verið lánsöm í starfi mínu. Ég hef treyst Guði og hann
hefur ekki brugðist mér.“
„…bað ég oft til Guðs um að allt mætti nú fara vel. Það hefur
löngum reynst mér besta fyrirgreiðslan.“
Margar ljósmæður sögðu einnig frá því að traust
sængurkvennanna hafi skipt þær miklu máli, það hafi oft verið
ótakmarkað og jafnvel óverðskuldað að þeirra mati. Athyglisvert
er að bera saman, annars vegar upplifun ljósmæðra á mikilvægi
traustsins og hins vegar upplifun skjólstæðinga þeirra. Lítum
fyrst á dæmi um upplifun ljósmóður:
„Þetta traust og þessi hugarhlýja, sem ég mætti hjá fólki, var
mér ómetanlegur styrkur til að komast yfir byrjunarörðugleikana,
og alla tíð var það eins og bjartur geisli, sem lýsti, þegar skugga
vonleysis bar yfir og myrkur dapurleika leitaði á með heljarþunga
í margvíslegum erfiðleikum og við ískyggilegt útlit.“
Traustið sem hún finnur frá umhverfinu veitir henni styrk til að
takast á við störf sín. Ef skipt er um sjónarhorn má svo sjá dæmi
um það hvernig ró og öryggi ljósmóður hefur líka áhrif á líðan
konunnar:
„Ró og öryggi fylgdi henni, allt varð gott þegar hún var komin,
kvíði og hræðsla þvarr og jafnvel þjáningar minnkuðu.“
Flestar frásagnir ljósmæðranna voru á þessum nótum, það er
því niðurstaða mín eftir þessa óvísindalegu rannsókn að íslenskar
ljósmæður hafi verið ljósmæður af Guðs náð líkt og Villiauga.
Titill bókarinnar greip mig um leið og ég sá bókina í
bókabúðinni. Ég átti von á allt öðruvísi bók, þar sem starf
ljósmóðurinnar spilaði talsvert stærra hlutverk en raun bar vitni.
Ég get samt ekki annað en mælt með bókinni, ein kröftugasta
ástarsaga sem ég hef lesið.
Hulda Jóhannsdóttir
fæddist í Hafnarfirði 25. nóvember 1926. Útskrifaðist frá LMSÍ
30. september 1957. Hún lést 28. mars 2015.
Guðrún Þórunn Árnadóttir
fæddist að Hyrningsstöðum í Reykhólasveit 9. febrúar 1923.
Útskrifaðist frá LMSÍ 30. september 1946. Hún lést 21. júlí 2015.
Ljósmæður kvaddar 2015
MINNING
Blessuð sé minning þeirra.