Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 16

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2015, Blaðsíða 16
16 Ljósmæðrablaðið - desember 2015 frá 25 löndum sýna að aðgerðir á kynfærum kvenna voru 1% allra lýtaaðgerða árið 2013. Frá árunum 2011–2013 hefur orðið rúmlega 100% aukning á aðgerðum á kynfærum kvenna á heimsvísu og eru aðgerðirnar algengastar í Brasilíu (International Society of Aesthetic Plastic Surgery, ISAPS, 2011; 2013). Orsakir þessarar aukningar á skapabarmaaðgerðum eru ekki ljósar og ekki er líklegt að miklar breytingar á útliti skapabarma kvenna skýri þessa aukningu. Læknar segja að konur sæki í aðgerðirnar vegna þess að þær hafi áhyggjur af útliti skapabarma, af ótta við að vera óeðlilegar og vegna líkamlegra óþæginda og óþæginda við kynlíf (Bramwell, 2002; Bramwell o.fl., 2007). Kynfæri kvenna eru í mikilli nálægð við önnur líffærakerfi, svo sem þvagkerfi og meltingarkerfi, og aðgerð á kynfærum eykur líkur á vandamálum sem tengjast þessum líffærakerfum. Meginmarkmið með aðgerðum á kynfærum kvenna samkvæmt læknisfræðilegum forsendum er að draga úr líkamlegum óþægindum vegna verkja eða truflana við athafnir daglegs lífs. Má þar nefna lagfæringar á spangarsvæði kvenna eftir fæðingu, meðfædda vansköpun, æxli eða sig á líffærum í grindarbotni. Þetta eru skurðaðgerðir sem taldar eru eiga rétt á sér þar sem ávinningur aðgerðar er meiri en áhættan (Shaw o.fl., 2013). Skapabarmaaðgerðir eru hins vegar ekki ávallt framkvæmdar af framangreindum forsendum heldur er tilgangurinn iðulega að fegra eða bæta útlit konunnar, oftar en ekki að hennar ósk (Hamori, 2014). Erfitt getur þó verið að setja skýr mörk hvað varðar tilgang þessara aðgerða þar sem fjölbreytileika gætir hvað varðar útlit og lögun skapabarma og ekki hafa verið sett fram viðmið um hvað sé eðli- leg lengd á innri skapabörmum (Chang o.fl., 2013; Lloyd, Crouch, Minto, Liao og Creighton, 2005; Paarlberg & Weijenborg, 2008; Tepper o.fl., 2011). Þar sem opinberar viðmiðunarreglur eru ekki til staðar er það háð mati hvers skurðlæknis hvort hann framkvæmir aðgerðina eða ekki. Læknar hafa sjálfir verið að setja fram ákveðin viðmið um stærð og lengd skapabarma og er það í sumum tilfellum gert án þess að gefnar séu upp ástæður eða uppruni þessara viðmiða (Crouch o.fl., 2011; Liao o.fl., 2010). Könnun á persónulegu mati hollenskra lækna á útliti innri skapabarma, þar sem þeim voru sýndar fjórar mismunandi myndir, sýndi að 90% læknanna töldu litla skapabarma endurspegla hugmyndir samfélagsins um æskilegt útlit innri skapabarma. Marktækt fleiri lýtalæknar en almennir læknar og kvensjúkdómalæknar álitu stóra skapabarma fráhrindandi og óeðli- lega. Þá voru fegrunarlæknar líklegri en kvensjúkdómalæknar að vilja framkvæma aðgerð á skapabörmum án tillits til stærðar innri skapabarma, þrátt fyrir að konur kvörtuðu ekki undan óþægindum (Reitsma o.fl., 2011). Hér á landi eru okkur vitanlega ekki til nein opinber viðmið hvað varðar lengd skapabarma. Í almennri og fræðilegri umfjöllun er talað um fjórar tilgátur byggðar á félagslegum og menningarlegum grunni sem hvetji konur til að fara í skapabarmaaðgerðir. Í fyrsta lagi umfjöllun í fjöl- miðlum, í öðru lagi aukið framboð á fegrunaraðgerðum og að farið sé að líta á þær sem eðlilegar (e. normalization), í þriðja lagi fjar- læging skapahára og í fjórða lagi klámvæðingin (sjá Jones og Nurka, 2015). Þessar tilgátur hafa þó ekki verið rannsakaðar í miklum mæli. Könnun á umfangi og gæðum upplýsinga um aðgerðir á skapa- börmum á vefnum sýndi að yfirleitt er talað um líkamlegar ástæður fyrir aðgerðinni, svo sem óþægindi við að vera í þröngum fötum og óþægindi við kynlíf (Liao o.fl., 2012). Sem dæmi um árangur aðgerða var nefnt aukið hreinlæti og aukin ánægja í kynlífi og jafn- vel aukið næmi. Á öllum síðunum sem skoðaðar voru kom fram að aðgerðirnar væru framkvæmdar í fegrunarskyni. Umfjöllunin var almennt jákvæð, lítið var fjallað um aukaverkanir og ekki um aðra meðferð en skurðaðgerð. Að mati höfunda ætti að meðhöndla upplýsingar, sem aðgengilegar eru á vefmiðlum, með varúð. Ennfremur að þörf sé á viðmiðunar- reglum um hvaða upplýsingar um aðgerðir á kynfærum kvenna séu aðgengilegar. Fjórir fegrunarlæknar í Ástralíu greindu frá því hvernig fjallað var um skapabarmaaðgerðir á ýmsum vefsíðum. Niðurstaða þeirra var að vefsíður miðuðu að því að meingera hið eðlilega, að það væri eðlilegt að breyta því með skurðaðgerð og að fegrunar- aðgerðir væru auðveldar (Moran og Lee, 2013). Ein rannsókn fannst sem skoðaði hvort skoðun kláms hefði áhrif á sókn í aðgerðirnar (Jones og Nurka, 2015). Þátttakendur voru 1083 konur og niður- staðan var að þær voru flestar ánægðar með útlit kynfæra sinna og almennt ekki jákvæðar gagnvart skapabarmaaðgerðum. Höfundur töldu niðurstöður sínar ekki styðja að skoðun kláms væri aðalorsök þess að konur sæki í þessar aðgerðir, heldur séu ástæðurnar flóknari. Þannig séu orsakir fegrunaraðgerða oft tengdar sálfræðilegum vanda eins og þunglyndi, vímuefnanotkun, sjálfsvirðingu og sjálfshlut- gervingu. Þessa þætti þurfi að skoða í samhengi við ástæður þess að konur sækja í aðgerðirnar meðal annars með tilliti til notkun þeirra á klámi. Samtök kvensjúkdóma- og fæðingarlækna víða um heim, meðal annars í Kanada, Bretlandi, Bandaríkjunum, Ástralíu, Nýja-Sjá- landi og Malasíu, hafa sett fram leiðbeiningar og stefnumörkun um aðgerðir á kynfærum kvenna. Það er samdóma álit þessara samtaka að það vanti sannanir fyrir öryggi og árangri aðgerða sem ekki eru framkvæmdar vegna læknisfræðilegra ábendinga. Í töflu 1 er að finna ráðleggingar kanadísku samtakanna. Þær byggja á rannsóknum sem hafa leitt í ljós að sú þekking sem er til staðar styður ekki við Tafla 1. Leiðbeiningar samtaka kanadískra fæðinga- og kvensjúkdómalækna um fegrunaraðgerðir á kynfærum kvenna. 1. Fæðinga- og kvensjúkdómalæknar gegna mikilvægu hlutverki í að aðstoða konur við að skilja líffærafræði líkama síns og virða breytileika á milli einstaklinga. (III*-A#) 2. Það ber að taka ítarlega sjúkrasögu hjá þeim konum sem leggja fram beiðni um að gangast undir fegrunaraðgerðir á kynfærum sínum. Hún á meðal annars að taka til kynlífs konunnar og kvensjúkdómasögu hennar. Einnig skal ganga úr skugga um að engin viðvarandi kynlífsvandamál séu til staðar eða sálfræðilegir erfiðleikar. Útiloka þarf möguleikann á að verið sé að þvinga konuna á einhvern hátt eða notfæra sér hana. (III-B) 3. Fæðinga- og kvensjúkdómalæknar skulu veita ráðgjöf til þeirra kvenna sem óska eftir að gangast undir fegrunaraðgerð á kynfærum sínum. Í ráðgjöfinni ætti að fjalla um eðlileg tilbrigði og lífeðlisfræðilegar breytingar á kynfærum kvenna sem og möguleikanum á ófyrirséðum afleiðingum aðgerðanna.Einnig ætti að ræða þann skort sem er á upplýsingum og gögnum um niðurstöðu aðgerðar og áhrif aðgerðar á mögulegum breytingum á kynfærum kvenna síðar meir, t.d. á meðgöngu og á breytingarskeiði. Allt eru þetta upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að konur geti veitt upplýst samþykki fyrir aðgerð. (III-L) 4. Engar vísbendingar benda til þess að fegrunaraðgerðir á kynfærum kvenna bæti kynlíf eða hafi jákvæð áhrif á sjálfsmynd kvenna. Þeir læknar sem kjósa að framkvæma aðgerðirnar skulu ekki auglýsa aðgerðirnar í þeim tilgangi og yfir höfuð ber að forðast að auglýsa aðgerðirnar. (III-L) 5. Læknum, sem taka á móti unglingsstúlkum sem óska eftir fegrunaraðgerð á kynfærum, ber að leita til frekari sérfræðinga í unglingaráðgjöf. Slíkar aðgerðir skal ekki framkvæma fyrr en stúlkur eru orðnar fullþroska og þurfa þar af leiðandi ekki á samþykki forráðamanna að halda. (III-L) 6. Bera þarf kennsl á þau hugtök sem ekki eru læknisfræðileg og eru notuð þegar átt er við aðgerðir á kynfærum kvenna. Þessi hugtök eru eingöngu notuð í markaðssetningu og eru á engan hátt læknisfræðileg. Þar af leiðandi er ekki hægt að meta þau á vísindalegan hátt. (III-L) *Gæði sannana (I, II (1-3), III byggir á The Evaluation of Evidence criteria of the Canadian Task Force on Preventive Health Care. I er sönnun sem byggir að minnsta kosti á einni tvíblindri rannsókn á grundvelli slembiúrtaks og III er sönnun sem byggir á skoðun virts aðila sem er byggð á klínískri reynslu, lýsandi rannsóknum eða skýrslum sérfæðinganefnda. Sjá lýsingu á II (1-3) í Shaw o.fl. (2013). # Flokkun leiðbeininga byggir á the Classification of Recommendations criteria described in the Canadian Task Force on Preventive Health Care. A. Góð sönnun liggur að baki því að mæla með þessari klínísku aðgerð, B. Þokkaleg sönnun liggur að baki því að mæla með þessari klínísku aðgerð og L. Það eru ekki nægar sannanir (hvorki að magni né gæðum) til að setja fram ráðleggingar, aðrir þættir geta haft áhrif á ákvarðanir. Sjá lýsingu á C. - E. í Shaw o.fl. (2013). Heimild: Shaw, D., Lefebvre, G., Bouchard, C., Shapiro, J., Blake, J., Allen, L. og Cassell, K. (2013). Female genital cosmetic surgery. Journal of Obstetrics and Gynaecology Canada, 35(12), e1-e5. Tafla 1. Leiðbeiningar samtaka kanadískra fæðinga- og kvensjúkdómalækna um fegrunaraðgerðir á kynfærum kvenna.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.