Tímarit Máls og menningar - 01.02.2018, Side 29
L o ð i r h e i m u r i n n s a m a n á t á k n u m ?
TMM 2018 · 1 29
– Já, bara einn litur, hvítur. Enginn skuggi, bæti ég við.
– Og engin skilaboð?
– Nei, engin skilaboð. (17)
Auðvitað felast þó skilaboð í húðflúrinu. Með því að húðflúra á sig blómið
sem dóttir hans heitir eftir merkir Jónas sig henni, býr til þau blóðtengsl sem
hann hefur nýlega uppgötvað að eru ekki fyrir hendi. Nafnið Vatnalilja er
líka óvenjulegt og býður upp á fjölbreyttar táknrænar pælingar. Í austrænni
hefð er lótusinn eða vatnaliljan sterkt tákn fegurðar og hreinleika og tengist
meðal annars Búdda. En við þurfum ekki að leita svo langt austur. Hvít lilja
er, líkt og rósin, hefðbundið tákn Maríu guðsmóður og vatn er sömuleiðis
fornt tákn kristindómsins, Jesús vísar til sín sem „hins lifandi vatns“. Lesin
á þennan hátt tengist Guðrún Vatnalilja Jesú Kristi, ekkert síður en Flóra Sól
í Afleggjaranum.
Hvað binst við nafn?
Nöfn persóna í sögum Auðar hafa margvíslega táknræna þýðingu sem sótt er
í ýmsar áttir, orðsifjaleg merking nafnanna getur haft þýðingu en mikilvægi
þeirra getur líka legið í vísunum í aðra texta, ekki síst kristilega.
Móðirin í Ör er með byrjandi elliglöp en hún er þó nógu skörp til að gefa
lesandanum til kynna að í þessari sögu hafi hlutirnir merkingu, ekki bara
tölur heldur líka nöfn. Hún kynnir son sinn, ekki í fyrsta sinn, fyrir starfs-
stúlku á elliheimilinu þar sem hún dvelur með þessum orðum: „Þetta er Jónas
Ebeneser, sonur minn […] Jónas merkir dúfa og Ebeneser hinn hjálpsami. Ég
fékk að ráða nöfnunum, heldur mamma áfram.“ (21)
Hér er hin táknræna merking nafnanna stöfuð ofan í lesandann og nöfn
sögumanns virðast líka lýsa honum fullkomlega. Dúfa er auðvitað margrætt
tákn, hvít dúfa er tákn friðar og Jónas er sannarlega boðberi friðar, en hjálp-
semin er kannski aðalpersónueinkenni hans. Í fornum skáldskap og fram á
þennan dag hafa dúfur verið tákn ástar og trygglyndis. En dúfan er líka tákn
heilags anda og tengir þannig Jónas við heilaga þrenningu, rétt eins og Flóru
Sól í Afleggjaranum.
Konurnar í lífi hans, móðirin, eiginkonan fyrrverandi og dóttirin, heita
allar Guðrún, bera með öðrum orðum algengasta kvenmannsnafn á Íslandi
lengi vel, sem mætti túlka sem svo að þær standi fyrir allar konur, eða hið
kvenlega. Nafnið er talið merkja „guðlegur leyndardómur“ eða „sú sem býr
yfir guðlegum leyndardómi“.12 Guðrúnarnar þrjár mynda þannig einhvers
konar þrenningu sem kallast á við heilaga þrenningu. Fjölskyldumynstur
Jónasar má einnig tengja við fjölskyldu Jesú Krists, rétt eins og Jósef hefur
hann kvænst óléttri konu og gengið barni hennar í föðurstað, faðerni Guð-
rúnar Vatnalilju er aldrei upplýst í sögunni.